Hoppa yfir valmynd
3. september 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Fæðingarhjálp í aðgerðum ljósmæðra

Mönnun á fæðinga- og sængurlegudeild Landspítala verður með eðlilegum hætti komi til aðgerða ljósmæðra og neyðarþjónusta yrði veitt í heimabyggð svo sem lög kveða á um.

Þetta er samkvæmt áætlun Landspítala og annarra heilbrigðisstofnana sem gerðar hafa verið vegna boðaðra aðgerða ljósmæðra í kjaradeilu þeirra við ríkið. Áætlun Landspítala og heilbrigðisstofnana miðast við að fæðingarhjálp sé sinnt í heimabyggð í samræmi við neyðaráætlanir og lög.

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, segist ekki úrkula vonar um að samninganefndum deiluaðilja takist það ætlunarverk sitt að ná samningum, og að mikilvægt sé fyrir allar stofnanir að tryggja neyðarþjónustu vegna fæðingarhjálpar í heimabyggð.

Fram kemur á vefsíðu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja að sótt verði um „undanþágu fyrir ljósmæður á fæðingardeild áður en verkfall skellur á þannig að hægt væri að veita lágmarksþjónustu“ og sama verður gert á Suðurlandi, en stofnunin sendi frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem segir: „í boðuðu verkfalli ljósmæðra 4. og 5. september nk. verður reynt að tryggja, að nauðsynlegasta heilbrigðisþjónusta verði í veitt í samræmi við ákvæði um verkföll í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna“.

Landlæknir mun fylgjast náið hinum faglegu þáttum komi til aðgerðanna en embætti hans hefur verið í nánu sambandi við stofnanir á undanförnum vikum og dögum svo og fagfélag ljósmæðra. Embættið mun fá afrit af neyðaráætlunum stofnana. Það mun einnig fylgjast með framgangi verkfallsins eftir að það skellur á, m.a. með heimsóknum.

Að sögn landlæknis hefur komið skýrt fram í samræðum við stjórn Ljósmæðrafélagsins að ljósmæður gera sér mjög vel grein fyrir ábyrgð sinni og munu sinna neyðartilvikum.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum