Hoppa yfir valmynd
19. desember 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Mótmæla ónákvæmum og röngum fregnum

Sjúkrahúsið á Akureyri hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ragnfærslna um mál barna- og unglingageðdeildarinnar við sjúkrahúsið. Þjónusta Sjúkrahússins á Akureyri á sviði barna- og unglingageðlækninga hefur verið nokkuð til umræðu undanfarið og því haldið fram að skerða ætti umtalsvert þjónustu við þá sem deildin hefur sinnt undanfarið. Stjórnendur sjúkrahússins telja að þær umræður hafi einkennst af ónákvæmni og rangfærslum og sendu því frá sér fréttatilkynningu. Í henni segir ma.: „Vegna þessa er því hér með komið á framfæri að aðeins er hér um að ræða uppsögn á þjónustusamningi um ferliverk (þjónusta við sjúklinga án innlagnar) við yfirlækni deildarinnar en ekki uppsögn á ráðningarsamningi hans.

Uppsögnin á þjónustusamningnum gildir að óbreyttu frá og með 1. apríl n.k.

Uppsögnin er til kominn vegna þess að þegar samningurinn var gerður var sá fyrirvari í honum að sérstakt fjármagn fengist til að standa straum af kostnaði vegna hans. Þeir fjármunir hafa ekki enn fengist.

Vegna þrengri fjárhagsstöðu og ástands í efnahagsmálum er verið að endurskoða alla samninga sjúkrahússins, þar með talið ferliverkasamninga.

Yfirlæknir deildarinnar er áfram ráðinn í 75% starf, auk greiðslu fyrir vaktir og yfirvinnu, og mun hann að sjálfsögðu sinna þeim verkum sem honum verða falin, þar með talið móttöku sjúklinga. Þetta mun að óbreyttu tryggja ákveðna þjónustu við börn og unglinga.

Um nokkurt skeið hefur FSA ásamt Sjúkratryggingastofnun (áður Tryggingastofnun) unnið að gerð þjónustusamnings um göngudeildarþjónustu barna- og unglingageðlæknis á FSA og þess vænst að niðurstaða liggi fyrir fljótlega.

Framkvæmdastjórn FSA harmar ónákvæman og rangan málflutning um málefni deildarinnar.

Slíkur málflutningur um þjónustu sjúkrahússins er engum til góðs og til þess fallinn að skapa ástæðulausan kvíða og ótta.

Sjúkrahúsið á Akureyri leggur metnað sinn í að á hverjum tíma sé í boði fjölbreytt og góð þjónusta í samræmi við þær fjárheimildir sem sjúkrahúsið hefur á hverjum tíma.

Á því er engin breyting og þannig verður það áfam.

Sjúkrahúsið hefur líka lagt áherslu á að miðla réttum upplýsingum til allra.

Það er því umhugsunarvert að nánast enginn af þeim sem um framangreint mál hafa fjallað í fjölmiðlum eða á Alþingi skuli hafa leitað upplýsinga og/eða staðfestinga frá forstjóra eða framkvæmdastjóra lækninga áður en þeir fjölluðu um málið.

Frekari upplýsingar veita undirritaðir,

Halldór Jónsson, forstjóri (sími: 4630102, 8960381)

Þorvaldur Ingvarsson, framkvæmdastjóri lækninga (sími. 4630109, 8630109).“

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum