Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra veitir gæðastyrki

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, veitti í dag gæðastyrki heilbrigðisráðuneytisins, samtals tólf styrki, m.a. til að stuðla að umbótastarfi í heilbrigðisþjónustunni.

Styrkirnir tólf eru á bilinu 150 til 400 þúsund krónur, samtals tvær og hálf milljón króna. Heilbrigðisráðuneytið auglýsir eftir umsóknum og að þessu sinni bárust alls 66 umsóknir af ýmsum sviðum heilbrigðisþjónustunnar, m.a. úr sjúkrahúsþjónustu, heilsugæslu og öldrunarþjónustu víða að af landinu. Bárust til dæmis umsóknir frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Hrafnistu, Landlæknisembættinu, Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, SÁÁ og Æfingastöð SLF. Flestar voru umsóknir frá Landspítala, eða fjörutíu. Þetta er í áttunda sinn sem gæðastyrkir eru veittir og hafa umsóknir aldrei verið fleiri, eða sextíu og sex, en á liðnu ári voru þær 55.

Gæðastyrkir eru veittir í samræmi við stefnumörkun heilbrigðisyfirvalda í gæðamálum til ársins 2010. Tilgangur styrkveitinganna er að stuðla að umbótastarfi, nýbreytni og auknum gæðum í  heilbrigðisþjónustunni, en þeir eru  fyrst og fremst hvatningar- og viðurkenningarstyrkir. Úthlutunarnefnd skipuð fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins og Landlæknisembættisins fer yfir umsóknirnar, forgangsraðar þeim og gerir tillögur um styrkveitingar til ráðherra.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum