Hoppa yfir valmynd
15. maí 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Óbreytt viðbúnaðarstig en ekki varað við ferðalögum til Mexíkó

Viðbúnaðarstig vegna inflúensu er óbreytt, dregið hefur verið úr viðbúnaði í Leifsstöð en ekki er lengur varað við ferðalögum til Mexíkó. Þetta eru niðurstöður sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra sem stjórna viðbragðsáætlun við heimsinflúensu hér á landi.

Samkvæmt upplýsingum Sóttvarnarstofnunar ESB voru staðfest tilfelli inflúensu A (H1N1) alls 7.743 í morgun í 34 ríkjum í heiminum (sjá nánar sundurliðun aftast í þessari tilkynningu og á meðfylgjandi skýringarkorti). Langflest flensutilfellanna eru í Bandaríkjunum eða 4.298 og í þeirri tölu eru einnig líkleg flensutilfelli þar í landi.

Staðfest dauðsföll vegna inflúensunnar eru nú 69, flest í Mexíkó eða 64. Þrjú dauðsföll eru staðfest í Bandaríkjunum, eitt í Kanada og eitt á Kosta Ríka. Enginn hefur greinst hér á landi.

Viðbúnaðarstig hér á landi er óbreytt frá því sem verið hefur vegna þess að inflúensa A (H1N1) hefur breiðst út til margra landa. Faraldurinn í Mexíkó er í rénun og því hefur verið ákveðið, að aflétta viðvörun til ferðamanna um að ferðast ekki til Mexíkó að nauðsynjalausu.

  • Engin viðvörun er nú í gildi um ferðalög til annarra landa.
  • Ferðamenn eru hvattir  til að gæta fyllsta hreinlætis á ferðum sínum erlendis, forðast náið samneyti við veika einstaklinga, þvo sér oft um hendur og/eða nota handspritt. Þar sem óvíst er að notkun almennings á andlitsgrímum dragi úr líkum á smiti er ekki hvatt til notkunar þeirra. Notkun heilbrigðisstarfmanna á andlitsgrímum, og grímunotkun sjúklinga með inflúensulík einkenni, getur hins vegar dregið úr smithættu.
  • Þar sem sýking af völdum inflúensunnar virðist vera væg, er ekki sérstök ástæða til að reyna að hefta komu hennar til Íslands. Því hefur verið ákveðið að draga úr vaktþjónustu í Leifsstöð. Frá og með deginum í dag, 15. maí 2009, verða heilbrigðisstarfsmenn einungis á bakvakt fyrir Leifsstöð en vaktþjónustu í stöðinni verður hægt að endurvekja með stuttum fyrirvara ef þörf krefur.  

Nánanir upplýsingar og tilkynningar um viðbúnað vegna inflúensu A (H1N1) eru birtar á influensa.is, bæði á íslensku og ensku, og á almannavarnir.is.

Þar er einnig að finna ýmsar upplýsingar um inflúensuna og ráðstafanir í því sambandi á landlaeknir.is, og á heimasíðum Sóttvarnarstofnunar Evrópusambandsins - ECDC, http://www.ecdc.europa.eu/ og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar - WHO, http://www.who.int/en/.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum