Hoppa yfir valmynd
24. júní 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Rætt um hagræðingu í rekstri stjórnsýslustofnana

Hagræðing í rekstri stjórnsýslustofnana tekst ekki nema í til komi góð samvinna við starfmenn. Þetta sagði heilbrigðisráðherra á fjölmennum fundi með starfmönnum.

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, boðaði til fundarins með starfsmönnum stjórnsýslustofnana, sem svo eru nefndar, og vildi með því gefa starfsmönnum kost á að segja sitt um hugmyndir sem oft hafa skotið upp kollinum og fela í sér sameiningu eða samstarf stofnana. Stofnanirnar sem hér um ræðir eru Landlæknisembættið, Lýðheilsustöð, Geislavarnir ríkisins, Lyfjastofnun, Lyfjagreiðslunefnd og Sjúkratryggingar Íslands.

Í framsöguræðu sinni á fundinum óskaði heilbrigðisráðherra eftir hugmyndum starfsmanna um það hvort og þá hvernig bæri að auka samstarf þeirra stofnana sem í hlut eiga, hvort og þá hvernig ætti að sameina einhverjar þeirra eða endurskipuleggja eftir aðstæðum. Ráðherra hvatti fundarmenn til að skoða starfsumhverfi sitt með gagnrýnum hætti og huga að því sem betur mætti fara í rekstri stofnananna.

Stefán Ólafsson prófessor flutti stutt ávarp um fyrirkomulag sambærilegra stjórnsýslustofnanna annars staðar á Norðurlöndunum. Í kjölfarið hófust almennar umræður og kom þar meðal annars fram að greining á verkefnum stofnananna væri nauðsynleg, áður en vinnuhópur gæti unnið tillögur að skipulagningu þeirra. Þá kom fram hjá starfsmönnum að mikilvægt væri að standa þannig að öllum breytingum í starfsumhverfi stofnana að þekking og reynsla tapaðist ekki í óðagoti og að huga bæri að starfsréttindamálum manna.

Í máli starfsmanna kom fram mikil ánægja með það frumkvæði að bjóða til fundar um málefni stofnananna og hvatt var til áframhaldandi opinna og lýðræðislegra vinnubragða á þessu sviði.

Myndir frá fundi heilbrigðisráðherra með starfsmönnum stjórnsýslustofnana heilbrigðisráðuneytisins.

                                                             

Fundur með starfsmönnum stjórnsýslustofnana   

 Fundur með starfsmönnum stjórnsýslustofnana                                                                                                                         Fundur með starfsmönnum stjórnsýslustofnana
 Fundur með starfsmönnum stjórnsýslustofnana   Fundur með starfsmönnum stjórnsýslustofnana  Fundur með starfsmönnum stjórnsýslustofnana




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum