Hoppa yfir valmynd
29. september 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Niðurgreiðslum vegna þjálfunar breytt

Nokkrar breytingar verða á niðurgreiðslum vegna þjálfunar- og endurhæfingar með reglugerðarbreytingu heilbrigðisráðherra sem tekur gildi 1. október. Reglugerðin er sett í sparnaðarskyni, en útfærslan er þannig að með breytingunni er reynt eftir fremsta megni að auka ekki álögur á þá hópa sem verst standa. Þannig eykst greiðsluþátttaka almennings mest, en greiðsluþátttaka barna, aldraðra og öryrkja með óskerta tekjutryggingu helst nánast óbreytt.

Skilyrði fyrir viðbótarþjálfun eru hert, en greiðsluþátttaka einstaklings minnkar eftir 25 skipti að því gefnu að viðkomandi fái samþykki fyrir áframhaldandi niðurgreiddri meðferð. Þessi hertu skilyrði þýða að Sjúkratryggingar Íslands setja sér starfsreglur á faglegum grundvelli og að uppfylltum skilyrðunum getur stofnunin heimilað áframhaldandi niðurgreiðslur eftir 25 skipta meðferð. Þeir sem ekki uppfylla skilyrðin fá ekki niðurgreidda meðferð umfram 25 skipti. Hugsunin er að beina þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru til þeirra hópa sem sannanlega þurfa á langtímaþjálfun að halda.

Reglugerðarbreytingin felur með öðrum orðum í sér að niðurgreiddar heimsóknir vegna þjálfunar eru almennt samræmdar og miðast við 25 skipti. Fyrirkomulagi niðurgreiðslna er hins vegar breytt og sett eru tiltekin skilyrði fyrir frekari niðurgreiðslum vegna þjálfunar umfram 25 skipti, sem voru áður 50. Í þessu sambandi skal tekið fram sérstaklega að niðurgreiðslur vegna þjálfunar aldraðra og öryrkja með óskerta tekjutryggingu og barnanna haldast að mestu óbreyttar og verða sem hér segir:

  • Aldraðir og öryrkjar, með óskerta tekjutryggingu, og börn undir 18 ára aldri (og einstaklingar með umönnunarkort) greiða 20% af umsömdu heildarverði fyrir fyrstu 25 skiptin, en ekkert eftir það, að fengnu samþykki Sjúkratrygginga Íslands

Hlutfalli hins opinbera í greiðslu þjálfunar breytist að öðru leyti svona:

  • Almenningur (18-67 ára) greiðir eftir breytinguna 70% af kostnaði fyrir 25 fyrstu skiptin, en 40% eftir það, og eru niðurgreiðslur eftir það háðar samþykki Sjúkratrygginga Íslands (var áður 60% og 25%)
  • Aldraðir og öryrkjar með skerta tekjutryggingu greiða eftir breytingu 20% fyrstu 25 skiptin, en 10% eftir það og eru niðurgreiðslur þá háðar samþykki Sjúkratrygginga Íslands (var áður 20% og 0%)
  • Aldraðir og öryrkjar án tekjutryggingar greiða eftir breytinguna 30% fyrstu 25 skiptin, en 20% eftir það og eru niðurgreiðslur eftir það háðar samþykki Sjúkratrygginga Íslands (var áður 20% og 20%)

Tekið skal fram að upphæð tekjutryggingar er oftast mælikvarði á stöðu bótaþegans. Sá sem ekki nýtur tekjutryggingar stendur oftast betur fjárhagslega, en sá sem nýtur óskertrar tekjutryggingar.

Reglugerðin tekur gildi 1. október nk. og er áætlaður heildarsparnaður á ári um 330 milljónir króna.

Sjá nánar á vef Tryggingastofnunar og Sjúkratrygginga Íslands: www.tr.is



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum