Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2009 Heilbrigðisráðuneytið

Efla á Neyðarmóttöku vegna nauðgana

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra bíður nú tillagna frá Landspítalanum um hvernig hægt er að efla Neyðarmóttöku spítalans. Þetta kom fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Önnu Pálu Sverrisdóttur um málefni Neyðarmóttöku vegna nauðgunar. Í svari sínu birtir ráðherra bréf sem hún ritaði forstjóra Landspítalans og forstöðukonu neyðarmóttöku þar sem segir m.a.: „Eftir að hafa fengið upplýsingar um stöðu mála telur ráðuneytið þörf á eflingu Neyðarmóttökunnar einkum hvað varðar eftirfarandi:

  • Hlut 18 ára og yngri sem nú eru um 37% þeirra sem koma á Neyðarmóttökuna.
  • Upplýsingar um alvarlegri brot sem hafa færst í aukana, svo sem hópnauðganir og nauðganir á skemmtistöðum.
  • Nauðsyn þess að koma upp móttöku og bráðaþjónustu fyrir þolendur mansals.
  • Vaxandi hlut alvarlegra áverka hjá þolendum heimilisofbeldis.“

Í svari ráðherra kemur fram að kostnaður vegna Neyðarmóttökunnar undanfarin þrjú ár hefur verið: 32,2 millj. kr. árið 2006, 31,5 millj. kr. árið 2007 og 27,1 millj. kr. árið 2008. Kostnaður vegna starfseminnar árið 2009 er áætlaður 29,2 millj. kr. Fram til ársins 2009 höfðu 1684 einstaklingar leitað til Neyðarmóttökunnar. Flestir komu 2006, 145 einstaklingar, 2007 komu 136 og 2008 leituðu 118 einstaklingar til Neyðarmóttökunnar. Það sem af er árinu 2009 hafa um 110 leitað á móttökuna.

Sjá nánar svar heilbrigðisráðherra á vef Alþingis

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum