Hoppa yfir valmynd
31. maí 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Þunglyndislyf lækka um 20-63%

Frá blaðamannafundi heilbrigðisráðherra
Frá blaðamannafundi heilbrigðisráðherra

Um þriðjungur þunglyndislyfja sem ekki féllu að breyttri greiðsluþátttöku ríkisins hefur lækkað í verði. Ný reglugerð um breytta greiðsluþátttöku við kaup á lyfjum tekur gildi á morgun, en markmið hennar er að draga úr notkun dýrari þunglyndislyfja. Lækkanir sem orðið hafa á hluta þunglyndislyfja eftir að reglugerðin var kynnt eru á bilinu 20-63%. Þetta er veruleg lækkun á smásöluverði en sumar lyfjapakkningar lækka um 7-9 þúsund krónur. Lík þróun hefur átt sér stað í Danmörku og Svíþjóð, þar sem gripið hefur verið til svipaðra ráðstafana.

Alls fengu um það bil 30 þúsund manns ávísað þunglyndislyfi í fyrra, sem jafngildir um einum af hverjum tíu landsmönnum. Um 13-14 þúsund einstaklingar notuðu dýrari lyfin, sem ekki verða með greiðsluþátttöku eftir 1. júní. Vegna verðlækkana á lyfjum eftir að tilkynnt var um breytingarnar hefur hins vegar fækkað í þessum hópi. Verði ekki frekari verðbreytingar á lyfjum á næstunni er áætlað að eftir 1. júní verði á bilinu 8-10 þúsund manns á dýrari lyfjum sem ekki eru með greiðsluþátttöku.

Reglugerðin hefur í för með sér að frá og með morgundeginum verða aðeins hagkvæmustu þunglyndislyfin áfram niðurgreidd. Lyfseðlar sem gefnir eru út fyrir 1. júní 2010 og eru fjölnota, halda gildi sínu til 1.október 2010.

Áhersla er lögð á samstarf við lækna um að velja hagkvæmasta kostinn sem fyrsta val þegar þunglyndislyfjum er ávísað.

Gagnist hagkvæmustu lyfin einhverra hluta vegna ekki viðkomandi sjúklingi sér læknir til þess að sjúklingnum verði tryggt lyfjaskírteini og þannig niðurgreiðsla vegna dýrari lyfja, sem sjúklingurinn þarf á að halda.

Af dýrari þunglyndislyfjum munar mestu um lyfið Cipralex. Um 7.700 manns hér á landi nota það lyf, sem telst óvenju hátt hlutfall.

Í löndunum í kringum okkur er Cipralex ekki notað í jafnmiklum mæli heldur lyfið Cipramil eða samheitalyf þess, t.d. Oropram, sem eru svipuð lyf en hagkvæmari valkostir.

Með breytingunum á greiðsluþátttöku ríkisins er stefnt að því að kostnaður ríkisins vegna þunglyndislyfja lækki um 200-300 milljónir króna á ári. Frá 1. mars 2009 hefur greiðsluþátttöku ríkisins í fimm öðrum lyfjaflokkum verið breytt á sama hátt. Þar er um að ræða magalyf, blóðfitulækkandi lyf, ákveðin blóðþrýstingslyf, beinþéttnilyf og astmalyf. Þær breytingar hafa gengið vel og hafa lækkað lyfjaútgjöld sjúkratrygginga um rúmlega 1,5 milljarð króna á ársgrundvelli. Breytingarnar hafa t.d. leitt til allt að 70-80% lækkunar einstakra lyfja. Góður skilningur og gott samstarf hefur verið við lækna, notendur og starfsfólk apóteka um þær breytingar sem ráðist hefur verið í.

Tryggt er að enginn sjúklingur sem nýtur lyfjameðferðar vegna þunglyndis verður án lyfja í kjölfar nýju reglugerðarinnar, enda þótt Frumtök, samtök frumlyfjaframleiðenda hafi með röngu haldið hinu gagnstæða fram.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum