Hoppa yfir valmynd
1. júní 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Kynnti nýtt greiðslufyrirkomulag í heilbrigðisþjónustu

Jacob Hofdijk
Jacob Hofdijk kynnti á fundinum nýtt greiðslufyrirkomulag á hollenskum sjúkrahúsum

Á þriðja tug sérfræðinga heilbrigðisráðuneytisins og stofnana þess sátu í gær fræðslu- og spjallfund með Jacob Hofdijk, ráðgjafa ríkisstjórnar Hollands um samfellda heilbrigðisþjónustu og aðferðir við greiðslu fyrir þjónustu.

Heilbrigðisráðuneytið boðaði til fundarins en Hofdijk er staddur hér á landi vegna fyrstu alþjóðlegu ráðstefnunnar um upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu sem hefst á morgun.

Hofdijk ræddi á fundinum um nýtt greiðslufyrirkomulag á hollenskum sjúkrahúsum, svonefnt DBC kerfi. Það tengist m.a. róttækum breytingum sem gerðar hafa verið í Hollandi á skipulagi við meðferð og greiðslufyrirkomulag vegna langvinnra sjúkdóma.

Við þær breytingar var sérstök áhersla lögð á samfellu í þjónustunni og hvernig mætti ná fram hagræði og gæðum með hinu nýja greiðslufyrirkomulagi auk þess sem notkun upplýsingatækni var efld til að ná settu marki.

Hofdijk sagði vel hafa gengið að útfæra stefnu stjórnvalda í þessum efnum. Hún hefði jafnframt leitt af sér aukna hagræðingu.

Fyrsta alþjóðlega ráðstefnan um upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu á Íslandi stendur í Reykjavík dagana 2. - 4. júní nk. Þar gefst m.a. tækifæri til þess að kynnast því sem efst er á baugi í málefnum rafrænnar sjúkraskrár og samvirkni heilbrigðisgagna.

Ráðstefnan fer fram á Háskólatorgi og verður opnuð klukkan 18 á morgun. Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra flytur ávarp við opnun ráðstefnunnar.

Enn má að skrá sig á ráðstefnuna á vef Skýrslutæknifélags Íslands.

Dagskrá ráðstefnunnar (pdf opnast í nýjum glugga)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum