Hoppa yfir valmynd
14. júní 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Yngri en 18 ára óheimilt að nota ljósabekki

Ungmennum yngri en 18 ára verður óheimilt að nota ljósabekki, en Alþingi samþykkti í dag breytingu á lögum um geislavarnir þar sem kveðið er á um þetta.  

Heilbrigðissjónarmið eru grundvöllur bannsins og einnig sú staðreynd að útfjólublá geislun frá sólarlömpum er nú flokkuð sem krabbameinsvaldandi.

Lagabreytingin felur í sér að börnum undir 18 ára aldri verður bannað að nota ljósabekki í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum, á stöðum sem starfsleyfi hafa samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra benti m.a. á þegar hún mælti fyrir lagafrumvarpinu í þinginu, að útfjólublá geislun yki marktækt líkur á húðkrabbameini og væru börn og ungmenni viðkvæmari fyrir henni en aðrir.  „Þeir sem sólbrenna ungir eiga frekar á hættu að fá illkynja sortuæxli síðar á ævinni, en slík æxli eru talin alvarlegasta gerð húðkrabbameina. Samkvæmt alþjóðlega viðurkenndri meginreglu í geislavörnum er notkun geislunar réttlætanleg að því gefnu að gagn vegi þyngra en skaði. Ráðleggingar fagaðila sýna að notkun barna og ungmenna á ljóabekkjum sé ekki réttlætanleg í þessu tilliti.“ 

Ráðherra benti ennfremur á að þótt notkun ljósabekkja hafi minnkað undanfarin ár vegna fræðsluherferða, hafi minnst dregið úr henni í yngstu aldurshópunum. Þetta bendir til þess að erfitt sé að hafa langvarandi áhrif á lífsvenjur unglinga með kynningarstarfi og fræðslu.

Fimm ár eru síðan norrænar geislavarnarstofnanir ráðlögðu ungmennum undir 18 ára aldri og fólki með ljósa húð að nota ekki ljósabekki. Í fyrra lögðu geislavarnastofnanir Finnlands, Svíþjóðar, Noregs og Íslands til að bann yrði sett við notkun ljósabekkja hjá 18 ára og yngri.

Nýsamþykkt lög á vef Alþingis

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum