Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Útboð vegna bólusetningar ungbarna gegn pneumókokkasýkingum

Stefnt er að því að útboð vegna bólusetningar allra ungbarna gegn pneumókokkasýkingum verði auglýst ekki síðar en 29. ágúst næstkomandi. Heilbrigðisráðuneytið áformar að hefja bólusetningarnar 1. apríl á næsta ári.

Ráðgert er að að öll börn sem fæðast árið 2011 verði bólusett.

„Bólusetningar eru besta og hagkvæmasta heilsuvörn sem völ er á. Þessi bólusetning er í forgangsröð. Hún hefur verið tekin upp á öllum Norðurlöndunum og verið viðhöfð í Bandaríkjunum í tíu ár. Framkvæmdin er einföld því hún fellur vel að almennu ungbarnabólusetningunni hér á landi sem hefst við þriggja mánaða aldur," segir Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra.

Hún kynnti áformin um bólusetninguna í ríkisstjórn í dag.

Áætlaður kostnaður vegna bólusetninganna er á bilinu 100-140 milljónir króna á ári. „Þó að þetta hafi í för með sér útgjöld fyrir hvern árgang er ávinningurinn gríðarlegur. Það dregur strax úr eyrnabólgum og notkun sýklalyfja minnkar. Helmingur af sýklalyfjanotkun á Íslandi er af völdum eyrnabólgu og lungnabólgu. Bólusetningin dregur því úr útgjöldum og álagi á fjölskyldur og heilbrigðisþjónustuna,” segir ráðherra. Þá dragi úr fjölónæmum bakteríum með bólusetningu.

Áformin um bólusetningu gegn pneumókokkasýkingum byggja á tillögum heilbrigðisráðuneytisins um 100 milljóna króna fjárveitingu til málefnisins á næsta ári og þingsályktunartillögu um málið sem samþykkt var á Alþingi 10. júní síðastliðinn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum