Hoppa yfir valmynd
1. september 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Heilsuverndarstöðin öðlast nýtt líf

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að leita samninga um leigu á hluta húsnæðis Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg undir starfsemi Landlæknis og Lýðheilsustöðvar. Unnið er að sameiningu embættanna tveggja og gert er ráð fyrir að hún verði að veruleika um áramótin.

Þar sem núverandi húsnæði stofnananna rúmar ekki sameinaða stofnun var auglýst eftir húsnæði undir starfsemina 2. maí sl. og bárust 11 tilboð. Eftir úttekt Framkvæmdasýslu ríkisins var það samdóma niðurstaða undirbúningshóps um sameiningu Landlæknisembættis og Lýðheilsustöðvar að Heilsuverndarstöðin henti langbest starfsemi nýrrar stofnunar borið saman við aðra kosti sem í boði voru. Heilbrigðisráðherra samþykkti niðurstöðuna og tilkynnti til fjármálaráðuneytis 12. júlí s.l. Féllst fjármálaráðuneyti á tillöguna 27. ágúst s.l. með þeim fyrirvara að „ásættanlegur leigusamningur náist.“

Fyrsta skrefið?

„Heilsuverndarstöðin var byggð af miklum stórhug á sínum tíma og verður glæsileg umgjörð um nýja sameinaða stofnun,“ segir Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra. „Það hefur verið dapurlegt að horfa uppá þetta fallega hús standa ónotað í hjarta borgarinnar og ég er viss um að allir munu fagna því að Heilsuverndarstöðin lifni aftur. Nýja stofnunin kemur til með að nýta um helming húsnæðisins, þannig að með þessu má segja að fyrsta skrefið sé stigið. Í þessu góða húsi getur fleira rúmast,  ég nefni sem dæmi hugmyndir um að nýja heilsugæslustöð Miðborgar og Hlíða sem ég vona að ég eigi eftir að sjá fara þar inn líka, því í þessu húsi á að vera heilbrigðisþjónusta.“


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum