Hoppa yfir valmynd
9. september 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Sortuæxli einkum rakin til notkunar ljósabekkja

Sennilegt er að mikil aukning á sortuæxlum í húð hér á landi síðustu áratugi stafi einkum af notkun ljósabekkja, að því er segir í nýrri grein í tímaritinu American Journal of Epidemiology. Alþingi samþykkti í sumar frumvarp heilbrigðisráðherra sem kveður á um að börnum yngri en 18 ára verði óheimilt að nota ljósabekki í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum.

Auk þess sem talið er sennilegt að notkun ljósabekkja hafi haft áhrif á mikla aukningu sortuæxla, hafi sólarlandaferðir að hluta til haft áhrif, að því er segir á vef Geislavarna ríkisins, en þar er greint frá niðurstöðum greinarinnar.

„Aðalhöfundur greinarinnar er franski faraldsfræðingurinn Philippe Autier, en meðal annarra höfunda eru Íslendingar sem starfa hjá Krabbameinsskránni, Geislavörnum, Landspítalanum og Háskóla Íslands.

Fram undir 1990 voru Íslendingar með lægstu tíðni sortuæxla í húð á Norðurlöndum en á síðustu árum hefur hún aukist mikið og eru íslenskar konur nú með hæstu tíðnina. Sólargeislun er tiltölulega lítil hér á landi, vegna legu landsins, en notkun ljósabekkja hefur verið tvöföld eða þreföld miðað við nálæg lönd,“ segir m.a. á vef Geislavarna.

Í júní í sumar samþykkti Alþingi frumvarp heilbrigðisráðherra um að ungmennum yngri en 18 ára verði óheimilt að nota ljósabekki. Við umræður um málið í þinginu benti heilbrigðisráðherra m.a. á að þrátt fyrir að notkun ljósabekkja hefði minnkað undanfarin ár vegna fræðsluherferða, hefði minnst dregið úr henni í yngsta aldurshópnum.

Lagabreytingin tekur gildi um áramót. Hún felur í sér að börnum undir 18 ára aldri verður bannað að nota ljósabekki í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum, á stöðum sem starfsleyfi hafa samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Greinin í American Journal of Epidemiology

Frétt á vef Geislavarna ríksins

Ferill málsins á Alþingi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum