Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Aðalskipulag Ölfuss til lögbundinnar umfjöllunar hjá ráðherra

Niðurstöðu Guðbjarts Hannessonar, setts umhverfisráðherra, um aðalskipulag Ölfuss er að vænta um miðjan nóvember. Ný gögn komu fram í málinu í byrjun október sem senda þurfti til umsagnar hjá málsaðilum. 

Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra,  hefur verið með aðalskipulag Ölfuss til umfjöllunar frá 29. september síðastliðnum. Guðbjartur var settur umhverfisráðherra í málinu eftir að Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, sagði sig frá afgreiðslu þess vegna vanhæfis.

Haft hefur verið eftir Sigurði Jónssyni, skipulags- og byggingarfulltrúa Ölfuss, að samkvæmt stjórnsýslulögum sé eðlilegt að afgreiðsla málsins taki settan ráðherra eigi lengri tíma en 30 daga. Vegna þessara ummæla vill heilbrigðisráðuneytið benda á að málshraðareglur stjórnsýslulaga kveða ekki á um tiltekinn dagafjölda við afgreiðslu mála heldur segir að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er.

Umsagnarferli um aðalskipulag Ölfuss var að mestu lokið þegar málið kom til kasta heilbrigðisráðuneytisins 29. september en í byrjun október komu fram ný gögn í málinu sem þurfti að senda til umsagnar hjá málsaðilum. Mál af þessu tagi eru umfangsmikil og flókin og mikilvægt er að vandað sé til verka við ákvarðanatöku. Niðurstöðu ráðherra er að vænta um miðjan nóvember og getur það vart talist langur málsmeðferðartími þegar litið er til umfangs málsins. Í þessu sambandi ber einnig að horfa til rannsóknarreglu stjórnsýslulaganna sem kveður á um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin.  

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum