Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Ákvörðun setts umhverfisráðherra um aðalskipulag Ölfuss

Guðbjartur Hannesson, settur umhverfisráðherra, staðfestir í meginatriðum niðurstöðu Skipulagsstofnunar um breytingu á aðalskipulagi Ölfuss. Staðfestingu á breytingu skipulagsins vegna Bitruvirkjunar er frestað en engar athugasemdir gerðar við aðalskipulagið að öðru leyti.

Umhverfisráðuneytinu barst tillaga Skipulagsstofnunar vegna breytingar á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss 2002-2014, með bréfi dagsettu 9. apríl 2010. Guðbjartur Hannesson, heilbrigðisráðherra, var settur umhverfisráðherra í málinu í lok september síðastliðinn eftir að Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hafði lýst sig vanhæfa til að taka ákvörðun um skipulagsbreytingarnar.

Skipulagsstofnun lagði til við ráðherra að breyting á aðalskipulagi yrði staðfest að því undanskildu að frestað yrði gildistöku þess hluta skipulagsins sem tekur til iðnaðarsvæðis vegna Bitruvirkjunar. Rök stofnunarinnar fyrir frestun voru tvíþætt. Annars vegar lægju ekki fyrir áhrif virkjunarinnar á jarðhita, hins vegar væru áhrif iðnaðarsvæðisins við Bitru á útivist og ferðamennsku, landslag og sjónræn áhrif óásættanleg eða óviss.

Settur umhverfisráðherra fellst á rök Skipulagsstofnunar um óljós áhrif Bitruvirkjunar á jarðhita á svæðinu. Ráðherra telur hins vegar ekki næg efnisrök til þess að hafna gildistöku skipulagsins vegna áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu og fellst því ekki á tillögu Skipulagsstofnunar hvað það varðar. Ákvörðun um það hvort áhrif af framkvæmd séu svo mikil að ekki eigi að veita leyfi fyrir henni eða leggja til hennar land verður almennt ekki tekin af ráðherra við ákvörðun um staðfestingu skipulags. Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum hafa sveitarstjórnir mikið svigrúm til að velja um þau lögmætu sjónarmið sem stefnumótun um landnotkun verður byggð á, ef efni skipulagsins og undirbúningur þess fullnægir lagakröfum. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að upplýsingar um þessa þætti hafi legið nógu glöggt fyrir til þess að þeir sem yfirfara gögnin gætu í grófum dráttum gert sér ljós áhrif virkjunarinnar að þessu leyti.

Ónógar upplýsingar um áhrif Bitruvirkjunar á jarðhita á svæðinu

Í breytingu Sveitarfélagsins Ölfuss á aðalskipulagi, dags. 11. mars 2010, kemur fram allnákvæm ákvörðun um þá landnotkun sem fyrirhuguð er á svæðinu, þ.e. byggingu og rekstur Bitruvirkjunar, ef virkjunarleyfi fengist og framkvæmdaraðilar héldu við fyrirætlanir um byggingu hennar. Ráðherra byggir á því að þetta leiði til þess að gera verði allríkar kröfur um þær upplýsingar sem fram koma í skipulagstillögunni, um aðstæður á svæðinu við upphaf áætlunarinnar, sbr. 3. og 5. mgr. 9. gr. skipulags og byggingarlaga, nr. 73/1997, sbr. einnig 3. gr. skipulagsreglugerðar, nr. 400/1998.

Niðurstaða ráðherra er sú að ákvörðun sveitarstjórnar hafi verið tekin án þess að fyrir lægju upplýsingar um áhrif framkvæmdarinnar á jarðhita á svæðinu. Þeir sem gerðu athugasemdir við skipulagstillöguna höfðu því ekki heldur aðgang að slíkum upplýsingum.

Upplýsingar um áhrif 135 MW virkjunar að Bitru á jarðhita á svæðinu eru mikilvægur grundvöllur þess að þeir sem taka þátt í gerð skipulags geti metið hvort ráðstöfun landsins stuðli að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða og hvort komið sé í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, sbr. 1. gr. skipulags- og byggingarlaga. Skortur á upplýsingum um þessi áhrif felur í sér efnislegan ágalla á skipulaginu og er ákvörðun ráðherra um að fresta gildistöku þess hluta skipulagsins sem tekur til iðnaðarsvæðis Bitruvirkjunar byggð á því.

Aðalskipulag Sveitarfélagsins Ölfuss verður staðfest þegar sveitarstjórn hefur sent settum ráðherra nýja skipulagsuppdrætti í samræmi við ákvörðun um frestun á staðfestingu skipulagsins að hluta.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum