Heilsugæslustöðvar á Íslandi

Heilsugæslan - Miðstöð heilsuverndarÍ lögum um heilbrigðisþjónustu er áhersla lögð á að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og eftirlit með henni. Einnig er lögð áhersla á að almenn heilbrigðisþjónusta sé veitt í heimabyggð og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Samkvæmt lögunum er landinu skipt upp í heilbrigðisumdæmi sem nánar er kveðið á um í reglugerð nr. 785/2007 um heilbrigðisumdæmi, en sjúklingar skulu þó „jafnan eiga rétt á að leita til þeirrar heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnunar sem þeir eiga auðveldast með að ná til hverju sinni“.

Í reglugerð nr. 787/2007 um heilsugæslustöðvar er nánar kveðið á um starfsemi heilsugæslustöðva og þá þjónustu sem þeim ber að veita. Á heilsugæslustöðvum skal veitt almenn læknisþjónusta, hjúkrunarþjónusta, mæðravernd og ungbarnavernd. Heilsugæslustöðvar skulu einnig annast heilsugæslu í grunnskólum og forvarnir í heilsuvernd s.s. heilsuvernd aldraðra og unglinga, slysavarnir, tóbaksvarnir ofl.

Markmið með rekstri heilsugæslustöðva er að tryggja öllum landsmönnum fullnægjandi heilsugæslu í heimabyggð. Í reglugerð um heilsugæslustöðvar er mælt fyrir um rétt hvers einstaklings til að fá skráningu á heilsugæslustöð í sinni heimabyggð og þá að jafnaði á þeirri stöð sem er næst heimili hans. Enn fremur er kveðið á um að hver einstaklingur skuli að jafnaði skráður sem skjólstæðingur tiltekins heilsugæslulæknis á heilsugæslustöð og að heilbrigðisstofnun sem viðkomandi heilsugæslustöð tilheyrir skuli leitast við að tryggja það.

Til baka Senda grein