Endurhæfingarstarfsemi og meðferðarstofnanir

MeðferðEndurhæfingarstarfsemi  á heilbrigðissviði

Endurhæfing er fyrir sjúklinga sem búið er að sjúkdómsgreina en þarfnast endurhæfingar í lengri eða skemmri tíma í kjölfar veikinda eða slysa. Endurhæfing felur í sér öll úrræði sem miða að því að fólk endurheimti andlega, líkamlega og félagslega færni, eða til þess að viðhalda færni fólks og fyrirbyggja frekari skerðingu. Endurhæfing byggist á virkri þátttöku sjúklingsins og þverfaglegu samstarfi fagfólks þar sem helstu fræðigreinar eru félagsráðgjöf , hjúkrun, iðjuþjálfun , sálfræði, læknisfræði, sjúkraþjálfun, , og talmeinafræði. Endurhæfing er hluti af almennri þjónustu sjúkrahúsa en hún er einnig veitt á endurhæfingarstofnunum samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands.

Endurhæfingu er beitt vegna líkamlegra sjúkdóma, geðsjúkdóma eða fíknivanda. Einnig þarf fólk með fötlun oft að fá endurhæfingu reglulega til að viðhalda færni.

Meðferðarstofnanir fyrir fólk með fíknivanda

Ýmis úrræði standa til boða þeim sem þurfa meðferð vegna áfengis- og vímuefnafíknar. Meðferð felst í skipulagðri, einstaklingsbundinni áætlun sem fylgt er undir handleiðslu fagmenntaðs fólks. Meðferð fyrir ávana- og vímuefnasjúklinga á Íslandi má skipta í þrjá aðalflokka:

  • meðferð á geðdeildum sjúkrahúsa þar sem beitt er læknisfræðilegum aðferðum,
  • meðferð á stofnunum sem styðjast við 12 spora kerfi AA-samtakanna, sem eru leiðbeiningar um hvernig fyrrverandi ofneytendum áfengis og annarra vímuefna sé ráðlegast að haga lífi sínu á batavegi,
  • meðferð á stofnunum sem hafa kristna trú að leiðarljósi.

Greina verður á milli meðferðar sem veitt er af fagfólki á sjúkrahúsum eða öðrum viðurkenndum meðferðarstofnunum og ýmiss konar meðferðar sem áhugahópar standa að með mismikla fagþekkingu að baki.

Embætti landlæknis hefur eftirlit með starfsemi stofnana og starfi heilbrigðisstétta.

Til baka Senda grein