Jafnrétti kynjanna

JafnrettiUm jafnréttismál gilda lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Fyrstu almennu lögin um jafnrétti kvenna og karla voru sett hér á landi árið 1976 með það að markmiði að stuðla að jafnrétti kynjanna á öllum sviðum þjóðfélagsins. Umtalsverðar breytingar hafa verið gerðar á löggjöfinni frá upphafi og þar til lögin nr. 10/2008 tóku gildi. Jafnframt er lögunum ætlað að auka rétt kvenna á þeim sviðum sem á konur hallar ásamt því að styrkja rétt karla þar sem þeir hafa rýrari rétt. Áhersla er lögð á að jafnréttismál þurfi að vera viðfangsefni beggja kynja, enda hljóta bæði kynin að njóta góðs af auknu jafnrétti í samfélaginu. Er því mikilvægt að ekki sé mismunað á grundvelli kynferðis. Í þessu sambandi er þó mikilvægt að hafa í huga að sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar og barnsburðar getur ekki talist mismunun kynjanna.

Mikilvæg leið að jafnrétti kynjanna er að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Sérstakt ákvæði er í lögunum þar sem sú skylda er lögð á atvinnurekendur að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum þetta mögulegt. Slíkar ráðstafanir skulu meðal annars miða að því að auka sveigjanleika við skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að hagsmunir allra séu hafðir að leiðarljósi. Sem dæmi má taka að erfitt er fyrir foreldra ungra barna að vera á fundum á þeim tíma sem sækja þarf börn á leikskóla. Þá geta stjórnendur hvatt foreldra til að skipta veikindadögum barns á milli sín ef þau eru bæði útivinnandi. Æskilegt er að setja fram aðgerðir sem stefna að settu marki í jafnréttisáætlanir eða í starfsmannastefnur fyrirtækja eða stofnana ef starfsmenn eru fleiri en 25. Í smærri fyrirtækjum eða stofnunum er nauðsynlegt að starfsmönnum sé kynnt stefnan á skýran og skilmerkilegan hátt.

Markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Til þess að lögin nái tilgangi sínum voru lögfestar nokkrar leiðir að settum markmiðum þeirra. Þar á meðal skal jafnréttissjónarmiða gætt á öllum sviðum samfélagsins auk þess að vinna skal að jöfnum áhrifum kvenna og karla við ákvarðanatöku og stefnumótun í samfélaginu. Þáttur í þessu er stefna stjórnvalda um að sjónarmið jafnréttis skulu fléttuð inn í alla þætti stefnumótunar, ákvarðana og aðgerða á vegum ríkisins. Í því skyni hefur sérhvert ráðuneyti skipað jafnréttisfulltrúa sem fjallar um og hefur eftirlit með jafnréttisstarfi á málasviði ráðuneytisins og þeirra stofnana sem undir ráðuneytið heyra.

Jafnréttisstofa

Jafnréttisstofa er sérstök stofnun sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra. Hlutverk hennar er meðal annars að auka virkni í jafnréttismálum og fylgjast með þjóðfélagsþróuninni á þessu sviði, meðal annars með upplýsingaöflun og rannsóknum. Ekki síst er eftirlitshlutverk hennar með framkvæmd laganna mikilvægt enda talið eitt af lykilþáttum þess að lögin nái tilgangi sínum. Enn fremur sér Jafnréttisstofa um fræðslu og upplýsingastarfsemi á sviði jafnréttismála en þangað geta stofnanir, fyrirtæki, einstaklingar og félagasamtök leitað eftir aðstoð. Auk þessa skal stofan vera stjórnvöldum til ráðgjafar á þessu sviði.

Í gildi er þingsályktun um áætlun stjórnvalda í jafnréttismálum sem samþykkt var á 139. þingi og gildir fyrir tímabilið 2011–2014. Þar kemur meðal annars fram að stefna ríkisstjórnarinnar sé að konur og karlar skuli njóta jafnra tækifæra og hafa sömu möguleika til áhrifa í samfélaginu. Markmið framkvæmdaáætlunarinnar er að sjónarmið jafnréttis verði fléttað inn í alla þætti stefnumótunar, ákvarðana og aðgerða á vegum ríkisins. Sérhver ráðherra hefur sett sér að unnið verði að tilteknum verkefnum á málasviði síns ráðuneytis.

Til baka Senda grein