Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Hvað er unnt að kæra?

Unnt er að skjóta tilteknum ákvörðunum barnaverndarnefnda, Barnaverndarstofu, heimilis eða stofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála samkvæmt barnaverndarlögum, nr. 80/2002.

Kærufrestur

Kærufrestur er fjórar vikur frá því að aðila máls barst vitneskja um ákvörðun.

Málsmeðferð hjá nefndinni

Nefndinni ber að taka mál til meðferðar innan tveggja vikna frá því henni barst kæra.

Úrskurðarnefnd velferðarmála getur metið að nýju bæði lagahlið máls og sönnunargögn. Nefndin getur ýmist staðfest úrskurðinn að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu leyti. Þá getur úrskurðarnefndin einnig vísað málinu til barnaverndarnefndar til meðferðar að nýju.

Ákvæði VIII. kafla gilda um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála eftir því sem við á.

Barnaverndarnefnd er aðili máls fyrir úrskurðarnefnd. Skal málflutningur að jafnaði vera skriflegur en úrskurðarnefnd getur kvatt aðila til munnlegrar skýrslugjafar og ákveðið munnlegan málflutning fyrir nefndinni.

Úrskurðarnefnd skal að jafnaði byggja úrskurð sinn á þeim gögnum sem fyrir eru í málinu. Nefndin getur þó, ef hún telur ríka ástæðu til, lagt fyrir aðila að afla nánar tilgreindra gagna, svo sem álitsgerða sérfræðinga. Nefndin á rétt til skriflegra upplýsinga úr sakaskrá um aðila máls. Úrskurðarnefnd kveður á um það hver skuli bera kostnað vegna öflunar gagna, þar með talinna álitsgerða sérfræðinga.

Málskot til úrskurðarnefndar velferðarmála frestar ekki framkvæmd úrskurðar barnaverndarnefndar. Þegar sérstaklega stendur á getur úrskurðarnefndin þó ákveðið, að kröfu aðila, að framkvæmd úrskurðar skuli frestað þar til nefndin hefur kveðið upp úrskurð sinn.

Nánar um ákvarðanir sem unnt er að skjóta til kærunefndar

I. Aðilar barnaverndarmáls geta skotið ákvörðunum barnaverndarnefnda, sem ekki verður skotið til dómstóla, til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Helstu ákvarðanirnar eru um:

A. Nafnleynd tilkynnanda, sbr. 19. gr. laganna.

B. Úrræði án samþykkis foreldra, þ.e. ákvarðanir skv. 26. gr. laganna varðandi:

  • eftirlit með heimili,
  • fyrirmæli um aðbúnað og umönnun barns, svo sem um dagvistun, skólasókn, læknisþjónustu, rannsókn, meðferð eða þjálfun,
  • að ekki megi fara með barn úr landi.

C. Takmarkaðan aðgang aðila að tilteknum gögnum, sbr. 45. gr. laganna.

D. Ákvörðun barnaverndarnefndar um lögmannsaðstoð, sbr. 47. gr. laganna.

E. Umgengni foreldra og annarra nákominna við barn í fóstri, sbr. 74. gr. laganna.

F. Endurskoðun fóstursamnings, sbr. 77. gr. laganna.

G. Umgengni foreldra og annarra nákominna við barn á heimili eða stofnun á vegum Barnaverndarstofu, sbr. 81. gr. laganna.

H. Framfærsluskylda foreldra meðan barn er í vistum utan heimilis, sbr. 89. gr. laganna.

II. Skjóta má tilteknum ákvörðunum Barnaverndarstofu til úrskurðarnefnda velferðarmála:

A. Ákvörðun Barnaverndarstofu varðandi ágreining milli barnaverndarnefnda um hvaða nefnd skuli fara með mál, sbr. 3. og 5. mgr. 15. gr. laganna.
B. Ákvarðanir Barnaverndarstofu um leyfisveitingar:

  • Leyfi til að taka barn í fóstur, sbr. 66. gr. laganna.
  • Leyfi til að setja á stofn og reka heimili eða stofnun samkvæmt lögunum, sbr. 2. og 4. mgr. 83. gr. laganna.
  • Leyfi til að setja á stofn og reka heimili án atbeina barnaverndaryfirvalda, sbr. 2. mgr. 91. gr. laganna.

III. Ákvörðun heimilis eða stofnunar skv. 79. gr. sem skjóta má til úrskurðarnefnda velferðarmála.

  • Barn, sem dvelst á heimili eða stofnun skv. 79. gr. laganna, eða foreldri þess, hefur rétt til að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála ákvörðun um takmarkanir á réttindum og þvingunarráðstafanir, sbr. 82. gr. Um málskotsréttinn skal kveðið nánar á um í reglugerð.

Málsmeðferðartími

Úrskurðarnefnd velferðarmála skal kveða upp úrskurð í málinu svo fljótt sem kostur er og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að henni berst mál.

Kostnaður

Málsmeðferð er aðilum máls að kostnaðarlausu.

Eyðublað

Kæruna skal undirrita áður en hún er send til úrskurðarnefndar velferðarmála. Nauðsynlegt að senda umboð með kæru þegar kærandi veitir öðrum aðila umboð til að fara með mál fyrir sín hönd.

Mælt er með notkun Acrobat Reader við útfyllingu eyðublaða á PDF formi. Notkun annarra forrita eða viðbóta við vafra geta valdið vandræðum með íslenska stafi. Vistið skjalið inn á tölvuna ykkar með því að hægri-smella á krækjuna og velja Vista sem/Save link as/Save taget as (mismunandi eftir vöfrum). Opnið síðan skjalið á venjulegan hátt í Acrobat Reader, fyllið það út og vistið.

Fylgigögn

Með kæru þarf að fylgja frumrit eða afrit af ákvörðun barnaverndarnefndar eða Barnaverndarstofu.

Aðsetur nefndarinnar

Úrskurðarnefnd velferðarmála
Katrínartúni 2
105 Reykjavík

Opnunartími kl. 10-12 og 13-15, mánudaga–föstudaga
Sími: 551 8200
Netfang: postur@urvel.is

Birting úrskurða

Úrskurðir nefndarinnar eru birtir á urskurdir.is.

Til baka Senda grein