Líffæragjafir og líffæraígræðsla

LíffæragjafirÍ lögum um brottnám líffæra kemur fram að hver sem orðinn er 18 ára getur gefið samþykki til brottnáms líffæris eða lífrænna efna úr eigin líkama til nota við læknismeðferð annars einstaklings. Lífi og heilsu líffæragjafa má þó aldrei stofna í augljósa hættu með slíkri aðgerð.

Áður en væntanlegur líffæragjafi veitir samþykki sitt skal læknir veita honum upplýsingar um eðli aðgerðar og hugsanlegar afleiðingar hennar. Líffæragjafi skal eiga kost á annarri ráðgjöf en læknis væntanlegs líffæraþega. Læknir skal ganga úr skugga um að væntanlegur líffæragjafi skilji þessar upplýsingar.

Lög um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar gilda um réttindi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna líffæragjafar. Markmið laganna er að tryggja líffæragjöfum tímabundna fjárhagsaðstoð þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna líffæragjafar.

Ef samþykki látins einstaklings liggur fyrir má að honum látnum nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama hans til nota við læknismeðferð annars einstaklings. Liggi slíkt samþykki ekki fyrir er heimilt að fjarlægja líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings ef fyrir liggur samþykki nánasta vandamanns hans og slíkt er ekki talið brjóta í bága við vilja hins látna.

Líffæraígræðslunefnd
Líffæraígræðslunefnd er ætlað að vera ráðgefandi á sviði ígræðslu líffæra, safna saman upplýsingum um stöðu mála á hverjum tíma, svo sem fjölda líffæragjafa og líffæraþega, biðlista og biðtíma eftir líffæraígræðslu. Nefndin skal einnig gefa árlega út skýrslu um hið norræna samstarf sem fer fram á vegum Scandiatransplant. Þá skal nefndin koma með tillögur til ráðherra um hugsanlegar breytingar á lögum eða reglugerðum sem varða málaflokkinn eftir því sem nefndin telur ráðlegast hverju sinni.

Til baka Senda grein