Tóbaksvarnir

TóbakÍslendingar hafa um árabil staðið framarlega í tóbaksvörnum og um þær gilda sérstök lög. Markmið tóbaksvarnalaga er að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks með því að minnka tóbaksneyslu og vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks. Velferðarráðuneytið hefur tóbaksvarnir á sínu málefnasviði en fjármála- og efnahagsráðuneyti sinnir verkefnum á sviði verslunar með tóbak.

Embætti landlæknis hefur umsjón með málaflokknum í umboði ráðuneytisins. Starfsemi Embættis landlæknis á sviði tóbaksvarna lýtur að forvörnum og heilsueflingu og felur meðal annars í sér gerð fræðsluefnis, ráðgjöf, rannsóknir og stefnumótun. Megináherslur í starfinu eru að koma í veg fyrir að ungt fólk hefji neyslu tóbaks og að veita aukna aðstoð þeim sem vilja hætta að nota það.

Ísland fullgilti rammasamning Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir árið 2005 og taka ráðuneytið og Embætti landlæknis þátt í alþjóðasamstarfi þar um.

Í gegnum EES-samninginn hefur löggjöf Evrópusambandsins á sviði tóbaksvarna verið innleidd hér á landi og taka ráðuneytið og Embætti landlæknis þátt í samstarfi á þeim vettvangi.

Til baka Senda grein