Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2009 Innviðaráðuneytið

Skilvirkari úrræði gegn skuldavanda heimilanna

Unnið er að endurskoðun úrræða vegna greiðsluvanda heimilanna og mótun almennra reglna um leiðir lánveitenda til að laga greiðslubyrði fólks að greiðslugetu og eignastöðu. Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra hefur hafið vinnu við undirbúning frumvarps um þetta efni, sem leggja á fram þegar Alþingi kemur saman á ný í október.

Í félags- og tryggingamálaráðuneytinu er að störfum nefnd sem skipuð var að frumkvæði ráðherranefndar félags- og tryggingamálaráðherra, dóms- og kirkjumálaráðherra og viðskiptaráðherra sem unnið hefur að úttekt og endurmati á aðgerðum stjórnvalda til hjálpar skuldsettum heimilum. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar ráðherranna þriggja en hún hefur jafnframt átt náið samstarf við aðila vinnumarkaðarins og fleiri aðila.

Meðal verkefna nefndarinnar er að meta hvernig úrræði um almenna greiðsluaðlögun og tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna hafa reynst og leggja til breytingar á þessum úrræðum eftir þörfum. Nefndin hefur einnig til skoðunar hvernig unnt sé að skapa lánastofnunum skilyrði sem gera þeim kleift að laga greiðslubyrði fólks að greiðslugetu og eignastöðu.

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, segir það liggja fyrir að gera þurfi breytingar á fyrirkomulagi greiðsluaðlögunar þannig að þessi úrræði verði þjálli og skjótvirkari. Skoða þurfi leiðir sem gera einyrkjum betur mögulegt að nýta sér þessi úrræði og eins hafi komið fram annmarkar á framkvæmdinni sem þurfi að sníða af.

Félags- og tryggingamálaráðherra ræddi þessi mál í Kastljósi Sjónvarpsins fimmtudaginn 27. ágúst. Hann leggur áherslu á að greiðsluaðlögun sé þarft úrræði en samhliða því þurfi skjótvirkari leiðir til að takast á við greiðsluerfiðleika fólks. Ráðherra segir ekki koma til greina fara í almenna niðurfellingu skulda þar sem slík leið sé mjög kostnaðarsöm en muni ekki nýtast þeim sem helst þurfa á aðstoð að halda. Hann bendir á að hjá allstórum hópi fólks sé staðan verri en svo að tíu eða tuttugu prósenta niðurfelling skulda nægi til að leysa vandann. Á hinn bóginn myndi slík niðurfelling fela í sér afskriftir á skuldum fólks sem væri ágætlega statt og hefði fulla getu til að standa skil á skuldbindingum sínum án utanaðkomandi aðstoðar. Nú væri spáð að allt að 30 þúsund heimili stæðu á næstu mánuðum frammi fyrir alvarlegum greiðsluvanda. Við þær aðstæður væri einboðið að leggja alla áherslu á skilvirkar aðgerðir til að forða fjöldagjaldþrotum.

Ráðherra segir nauðsynlegt að lánastofnanir geti tekið á greiðsluerfiðleikum einstaklinga með skilvirkum hætti og lagað greiðslubyrði fólks að greiðslugetu og eignastöðu. Þetta þurfi að gera á viðskiptalegum forsendum þannig að lánastofnanir afskrifi þær kröfur sem ljóst er að muni tapast hvort eð er.

Ráðherra segir mikilvægt að settar verði almennar leikreglur um afskriftir lána vegna greiðsluerfiðleika einstaklinga sem tryggi jafnræði fólks óháð því hver lánveitandinn er og gegnsæi í framkvæmd. „Ef þessi leið getur komið í veg fyrir að mikill fjöldi fólks missi húsnæðið verður hún afar mikilvægt framlag til endurreisnar samfélagsins.“ Hann segir að þetta mál verði unnið hratt af hálfu ráðuneytisins í samvinnu við hagsmunaaðila auk þess sem mikilvægt sé að Seðlabankinn og Ríkisskattstjóri komi að útfærslunni.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum