Reiknivél fyrir húsaleigubætur


Grunnfjárhæð húsaleigubóta fyrir skerðingu vegna tekna og eigna

Grunnfjárhæð húsaleigubóta er eftirfarandi:

 • Grunnstofn til útreiknings húsaleigubóta er 17.500 kr. á mánuði fyrir hverja íbúð.
 • Viðbætur vegna barna eru:
  - 14.000 kr. vegna fyrsta barns,
  - 8.500 kr. vegna annars barns og
  - 5.500 kr. vegna þriðja barns.
  - Börn þurfa að hafa lögheimili í hinu leigða húsnæði.
 • Álag vegna leigufjárhæðar: Að auki koma 15% þess hluta leigufjárhæðar sem liggur á milli 20.000 kr. og 50.000 kr. leigu (að hámarki 4.500 kr).

Húsaleigubætur fyrir skerðingu vegna tekna og eigna geta því numið að hámarki 22.000 kr. á mánuði til barnlausra einstaklinga, hjóna eða sambúðarfólks; 36.000 kr. á mánuði ef eitt barn er á heimili; 44.500 kr. ef tvö börn eru á heimili og 50.000 kr. ef þrjú börn eða fleiri eru á heimili. Húsaleigubætur geta þó aldrei verið hærri en 50% af leigufjárhæð.

Tekju- og eignaskerðing

Tekjur skerða húsaleigubætur í hverjum mánuði um 0,67% af árstekjum umfram 2,55 millj. kr. Þannig lækka mánaðarlegar húsaleigubætur um 6.700 kr. fyrir hverja milljón umfram tekjuskerðingarmörkin. Með tekjum er átt við samanlagðar heildartekjur allra þeirra sem lögheimili eða aðsetur eiga í viðkomandi leiguhúsnæði og eru þá tekjur barna umsækjanda 20 ára og eldri meðtaldar nema viðkomandi stundi skólanám í sex mánuði eða lengur á árinu. Undanþegar eru almannatryggingabætur frá Tryggingastofnun ríkisins, húsaleigubætur fyrra árs og þær tekjugreiðslur sem eru undanþegnar skatti auk elli- og örorkulífeyrisgreiðslna úr séreignarlífeyrissjóðum.

Eignir skerða húsaleigubætur séu þær samanlagðar, að frádregnum skuldum, hærri en 7.124.000 kr. Skulu þá 25% þeirrar fjárhæðar sem umfram er bætast við þær tekjur sem notaðar eru til útreiknings húsaleigubóta. Viðmiðunarfjárhæðin tekur mið af breytingum á neysluverðsvísitölu miðað við 1. janúar ár hvert og er 7.124.000 kr. frá janúar 2016. Miðað er við samanlagðar eignir allra þeirra sem eiga lögheimili eða aðsetur í viðkomandi leiguhúsnæði að frádregnum skuldum.

Uppfært í september 2016

Nánari upplýsingar

Upplýsingar um húsaleigubætur - samantekt

Þurfi fólk á upplýsingum að halda um rétt sinn til húsaleigubóta eða annað sem tengist greiðslu húsaleigubóta er því bent á að hafa samband við sveitarfélagið þar sem viðkomandi er skráður með lögheimili sitt.