Hoppa yfir valmynd
9. september 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aukinn hvati til náms til að sporna við atvinnuleysi

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita Lánasjóði íslenskra námsmanna einn milljarð króna á fjárlögum ársins 2010 til þess að hækka framfærslugrunn sjóðsins um 20%. Ýmsar breytingar verða jafnframt gerðar á samspili námslána og atvinnuleysisbóta og er markmiðið að hvetja fólk til náms sem annars væri á atvinnuleysisbótum.

Frá fundi félags- og tryggingamálaráðherra og menntamálaráðherra með fjölmiðlumÁætlað er að framfærslugrunnur Lánasjóðs íslenskra námsmanna verði um 120.000 krónur á mánuði í stað um 100.000 króna nú. Atvinnuleysisbætur að frádregnum skatti eru nú um 135.000 krónur á mánuði og er talið að með því að draga úr þeim mun sem verið hefur á ráðstöfunartekjum fólks á atvinnuleysisbótum annars vegar og námslánum hins vegar fjölgi þeim sem sjá sér hag í því að fara í nám. Ákveðnar breytingar verða gerðar á reglum Atvinnuleysistryggingasjóðs sem draga úr möguleikum fólk til að stunda einingabært háskólanám á atvinnuleysisbótum og réttur námsmanna til töku atvinnuleysisbóta í sumarleyfi skóla verður afnuminn. Atvinnulausir munu áfram geta sótt námskeið á vegum endurmenntunarstofnana háskólanna. Til að tryggja eðlilegt samspil milli Lánasjóðs íslenskra námsmanna og Atvinnuleysistryggingasjóðs er atvinnuleysistryggingaskrá nú að fullu samkeyrð við nemendaskrár háskólanna.

Reiknað er með að fyrirhugaðar breytingar leiði til þess að strax á haustmisseri skólanna sem nú er að hefjast muni um 500 einstaklingar fara af atvinnuleysisbótum í nám og að þeir verði á bilinu 700–900 á vormisseri. Slíkt myndi draga úr útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs sem nemur um 700–900 milljónum króna á ársgrundvelli. Auk þessa verður Lánasjóði íslenskra námsmanna falið að gera ýmsar breytingar á úthlutunarreglum sínum og lækka með því útgjöld sjóðsins um 350 milljónir króna á komandi fjárlagaári. Meginbreytingarnar munu felast í breyttum viðmiðum vegna tekjuskerðinga með áherslu á að tryggja hag þeirra sem minnstar tekjur hafa í hópi námsmanna.

Tillögur að framangreindum breytingum eru afrakstur viðræðna að undanförnu milli félags- og tryggingamálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis, Lánasjóðs íslenskra námsmanna og Vinnumálastofnunar um leiðir til þess að hvetja fólk til náms og sporna við langtímaatvinnuleysi með auknum möguleikum fólks til menntunar.

Á vegum félags- og tryggingamálaráðherra er nú að störfum hópur sem skoðar ýmsar leiðir til þess að sporna við langtímaatvinnuleysi meðal ungs fólks sem á þess ekki kost að stunda nám á háskólastigi. Áhersla verður lögð á að tryggja virkni ungs fólks sem er án atvinnu með því að auka tækifæri þess til menntunar, starfsnáms eða þátttöku í öðrum uppbyggilegum verkefnum. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili ráðherra tillögum sínum á næstu vikum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum