Hoppa yfir valmynd
20. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ómetanlegt forvarnastarf

Grein Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra um störf samtakanna Vímulausrar æsku.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 20. september.


Ómetanlegt forvarnastarf

Vímulaus æska hefur í aldarfjórðung starfað að forvörnum og fræðslu til að vinna gegn áfengis- og vímuefnaneyslu barna og unglinga.

Samtökin starfa um allt land, standa fyrir fræðslu og fyrirlestrum í samstarfi við foreldrafélög og sveitarfélög, reka foreldrasímann 581 1799 sem er opinn allan sólarhringinn og Foreldrahús þar sem veitt er fjölskylduráðgjöf, stuðningsmeðferð og margvísleg fræðsla.

Framan af beindist áherslan að vímuefnavanda ungmenna en síðari ár hefur starfsemin og þjónustan orðið víðtækari og beinist einnig að fleiri vandamálum eins og einelti, félagslegum erfiðleikum og hegðunarvanda. Þetta tel ég skynsamlega og æskilega þróun því þessir erfiðleikar eru oft nátengdir og ekki augljóst hvað er orsök og hvað afleiðing.

Fjöldi félagasamtaka starfar að forvörnum gegn áfengis- og vímuefnaneyslu og eðli málsins samkvæmt beinist þungi starfsins jafnan að ungu fólki. Það er verðugt markmið að draga úr neyslu áfengis og sporna við ofneyslu en árangursríkast er að koma í veg fyrir að ungt fólk hefji neyslu áfengis og annarra vímuefna.

Því miður þekkjum við öll átakanlegar sögur um ungt fólk sem hefur misst fótanna, jafnvel á barnsaldri og ánetjast vímuefnum. Þegar skaðinn er skeður getur reynst erfitt að grípa í taumana. Þá er stutt leiðin inn í myrkviði hins harða heims sem er okkur flestum óskiljanlegur, þar sem tilveran snýst fyrst og fremst um að verða sér úti um næsta skammt sama hvað það kostar, þar sem þrífst misnotkun og margvíslegir annars konar glæpir. Í þessum heimi stefnir allt niður á við og því yngra sem fólk ratar þarna inn, þeim mun meiri hætta er því búin.

Foreldrar barna sem lenda á þessari háskalegu braut þurfa á miklum stuðningi og leiðsögn að halda, ekki síður en börnin sjálf sem þurfa fjölþætt úrræði. Foreldrahús og önnur þjónusta Vímulausrar æsku hefur verið mörgum foreldrum haldreipi sem skipt hefur sköpum í erfiðri baráttu við að ná aftur til barnanna og hjálpa þeim til betra lífs.

Nýlega undirritaði ég samstarfssamning við Samstarfsráð um forvarnir sem annast mun ýmis verkefni á sviði forvarna gegn áfengis- og vímuefnaneyslu. Samkvæmt samningnum leggur hið opinbera 7,5 milljónir króna til verkefnisins en á móti kemur jafn hátt framlag af hálfu samstarfsráðsins í formi sjálfboðaliðavinnu og framlaga frá öðrum aðilum. Á þennan hátt er reynt að undirstrika hve mikil verðmæti liggja í öllu því sjálfboðna starfi sem fjöldi fólks sinnir í þágu samfélagsins. Það verður seint metið að fullu til fjár en ég tel mikilvægt að viðurkenningin sé fyrir hendi.

Kraftar frjálsra félagasamtaka á þessum vettvangi eru ómetanlegir. Þau veita hvatningu og aðhald og skipta sköpum við framkvæmd opinberra stefnumiða. Það skiptir miklu um árangur að fá sem flesta að starfinu, þannig berast skilaboðin best út í samfélagið.

Forvarnastarfið heldur áfram. Þetta er þrotlaust starf þar sem aldrei má slaka á eða sleppa tökum. Ég óska Vímulausri æsku til hamingju með farsælt starf í 25 ár og treysti á áframhaldandi gott og árangursríkt samstarf við samtökin í framtíðinni.

Guðbjartur Hannesson
velferðarráðherra

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum