Hoppa yfir valmynd
6. maí 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ávarp velferðarráðherra á málþingi geðsviðs Landspítala

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á málþingi geðsviðs Landspítala 6. maí 2011
„Á leið inn í samfélagið – breytingar í geðþjónustunni.“ 

Góðir gestir.

Andstreymið afhjúpar snilldina sem velgengnin dylur sagði rómverska skáldið og heimspekingurinn Hóratíus fyrir um það bil tvö þúsund árum.

Nú megið þið ekki halda að ég ætli að rómantísera þrengingar kreppunnar sem hafa markað alla þætti þjóðlífsins síðustu ár og verið afar erfið vegna aðhalds og niðurskurðar á öllum sviðum eins og starfsfólk Landspítala þekkir vel. Þessar erfiðu aðstæður hafa krafist mikils af stjórnendum og öðru starfsfólki sem hefur staðið frammi fyrir þeirri áskorun að veita sjúklingum áfram góða og faglega þjónustu fyrir umtalsvert minni fjármuni en áður. Árangrinum er vel lýst í ársskýrslu Landspítala sem kynnt var í gær og hann sýnir svo ekki verður um villst að hér hefur verið unnið þrekvirki – eða öllu heldur, hér eru unnin þrekvirki á hverjum degi.

Eins og forstjóri Landspítalans bendir á í formálsorðum ársskýrslunnar tókst að mæta miklum niðurskurði með því að breyta spítalanum en þó ekki þjónustunni meira en svo að sjúkrahúsið er talið með betri þjónustufyrirtækjum landsins samkvæmt mælingum Samtaka verslunar og þjónustu. Hér finnst mér snilldin hafa afhjúpast.

Miklar breytingar voru gerðar á geðsviði Landspítala í maí 2009 sem í stuttu máli höfðu það markmið að einfalda stjórnskipulag og skýra betur ábyrgð. Mér er kunnugt um þá gagngeru endurskoðun á hlutverki og þjónustu sviðsins sem ráðist var í í kjölfarið og varð grunnur að nýrri stefnu sem þegar hefur leitt til mikilla og markverðra breytinga á þjónustu geðsviðsins.

Það er ástæðulaust að ég fari að rekja breytingar á skipulagi sem þið þekkið manna best eða stefnumótunarvinnuna sem hvíldi á ykkar herðum. Ég vil hins vegar koma því á framfæri hve vel mér sýnist hafa verið staðið að þessum málum og hvað öll þessi vinna er mikilvæg.

Það er ekki rík hefð fyrir því í íslensku samfélagi að hlusta á grasrótina. Sérfræðingar, embættismenn og stjórnmálamenn hafa verið því marki brenndir að telja sig vita best og betur en þeir sem málin varða helst. Þetta er vonandi að breytast.

Starfsdagur um stefnumótun geðsviðs sumarið 2009 var tímamótafundur þar sem leitað var svara við því hvert skuli vera hlutverk megingeðheilbrigðisstofnunar landsins. Meirihluti fundarmanna var utanaðkomandi þar sem boðið var til fundarins fulltrúum notendasamtaka, félagsþjónustu, heilsugæslu og ráðuneytum, auk starfsfólks.

Þetta starf og stefnumótunin byggð á því hefur leitt til nýrrar nálgunar með áherslu á að draga úr stofnanaþjónustu, færa þjónustuna í auknum mæli út í samfélagið, laga hana betur að þörfum notenda og samfélags, efla þverfaglegt starf og auka eftirfylgni meðferðar og stuðnings með aukinni samvinnu við velferðarsvið sveitarfélaga, heilsugæslu og hagsmunasamtök notenda.

Meðal þess sem bent var á í niðurstöðum starfsdagsins um stefnumótun geðsviðs var að nálgun sem byggist á virðingu fyrir notendum þjónustunnar og er tilbúin til að laga sig í sífellu að nýjum þörfum er miklu líklegri til að ná því markmiði að vera sannkölluð almannaþjónusta. Þessi orð sjást nú í verki og ég held að árangurinn sé ótvíræður.

Ég veit að starf ykkar er erfitt og það hlýtur að vera mikið álag að ganga í gegnum róttækar skipulags- og áherslubreytingar samhliða kröfum um sparnað og niðurskurð. Eflaust er orðið stutt í ystu þolmörk þar sem lengra verður ekki gengið öðruvísi en að þjónustan bíði hnekki. Ég er vongóður um að á það muni ekki reyna og að leiðin liggi senn upp á við.

Kreppan hefur hvassar tennur og bítur fast en hún hefur líka leitt til mikilvægrar endurskoðunar og orðið okkur hvati að ýmsum breytingum í samfélaginu sem munu aðeins leiða til góðs þegar fram í sækir.

Í velferðarkerfinu er unnið að sameiningu stofnana og tilflutningi verkefna til þess að nýta betur þekkingu og mannafla, fyrirbyggja skörun verkefna og auka samfellu í þjónustu. Unnið er að gagngerri endurskoðun almannatryggingakerfisins, fyrir dyrum standa umfangsmiklar breytingar á fyrirkomulagi greiðsluþátttöku hins opinbera í lyfjakostnaði og skömmu fyrir áramót skilaði starfshópur mér skýrslu með tillögum um eflingu heilsugæslu í landinu sem verið er að vinna frekar með í ráðuneytinu.

Það er geysilega mikilvægt að öll þjónusta við einstaklinga sé veitt á réttum forsendum á réttum tíma og réttum stað. Fagfólk á hverjum stað á að fást við þau verkefni sem það kann best og gerir best í ljósi sérþekkingar sinnar og menntunar. Þannig tryggjum við best hagsmuni notenda og stuðlum jafnframt að markvissri uppbyggingu þekkingar og reynslu þar sem hún nýtist best. Uppbygging þriggja stiga þjónustukerfis byggist á þessari hugsun og þar með áherslan á heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu þaðan sem fólki er vísað í sérhæfðari þjónustu eftir þörfum. Þetta gerir miklar kröfur til heilsugæslunnar um breiðan þekkingargrunn og getu til þess að greina og fást við fjölbreytt vandamál einstaklinga.

Góðir gestir.

Geðsvið Landspítala er í örri þróun og það er ánægjulegt og áhugavert að sjá hve vel gengur að raungera nýjar og breyttar áherslur sviðsins í þjónustu við notendur. Allt er hægt ef fyrir hendi er sterkur vilji, skýr stefna og skilgreind markmið. Það hafið þið sýnt og ég vil þakka ykkur fyrir ómetanlegt starf.

Og þar sem ég vitnaði í Hóratíus í upphafi er vel við hæfi að grípa aftur til fleygra orða hans „carpe diem“, þ.e. nýttu daginn, því það veit ég að þið gerið, jafnt á málþinginu í dag sem aðra daga. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum