Hoppa yfir valmynd
28. mars 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ávarp velferðarráðherra á málþingi Barnaheilla: Heilbrigðar tennur - mannréttindi eða forréttindi?

Börn
Börn
Málþing Barnaheilla: Heilbrigðar tennur - mannréttindi eða forréttindi. 28. mars 2012
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra, flutt af Önnu Lilju Gunnarsdóttur ráðuneytisstjóra fyrir hans hönd.

Góðir gestir.

Ég mæli fyrir munn velferðarráðherra sem því miður gat ekki verið hér í dag en biður fyrir kveðju sína – og þakka Barnaheillum fyrir að efna til málþings um tannheilsu barna á Íslandi. Málefnið er mikilvægt og umræðan þörf, því margt er hér á annan veg í þessum efnum en best verður á kosið.

Ef við horfum aftur í tímann getum við sagt með réttu að margt hafi áunnist til að bæta tannheilsu þjóðarinnar í gegnum tíðina. Hátt í 70 ár eru liðin frá því að kennsla hófst í tannlækningum á Íslandi (janúar 1945). Á þeim tíma voru aðeins örfáir tannlæknar í landinu og almennt tannheilbrigði landsmanna afar lélegt. Tímamót urðu árið 1974 þegar ríkið fór að taka þátt í greiðslum fyrir tannlækningar í gegnum almannatryggingakerfið.

Í lok níunda áratugarins fram á miðjan þann tíunda má segja að gjörbreyting hafi orðið á tannheilsu íslenskra barna til hins betra. Í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar var tíðni tannskemmda hjá tólf ára börnum langhæst hér á landi í upphafi þess tímabils en var orðin svipuð þegar komið var fram á miðjan tíunda áratuginn. Má eflaust þakka þennan góða árangur miklu átaki í forvarnamálum sem stýrt var af tannheilsudeild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Tannverndarráði þar sem margir lögðu hönd á plóg. Segja má að vitundarvakning hafi orðið almenn í þessum efnum samhliða því að farið var að leggja áherslu á forvarnir ekki síður en tannviðgerðir. Veruleg breyting varð einnig til batnaðar þegar farið var að nota flúor á markvissan hátt til að sporna við tannskemmdum, en almenn notkun flúortannkrems er talin vera ein áhrifamesta aðgerðin til að lækka tíðni tannskemmda.

Því miður fór svo aftur að halla undan fæti hjá okkur og samkvæmt rannsókninni Munnís sem gerð var skólaárið 2004–2005 voru tólf ára börn á Íslandi með tvöfalt fleiri tannskemmdir að meðaltali en börn á sama aldri í Svíþjóð svo eitthvað sé nefnt og eins leiddi könnunin í ljós að rúmlega 38% unglingspilta á Íslandi voru með glerungseyðingu á einhverri tönn.

Árið 2002 lögðust skólatannlækningar af í grunnskólum á Íslandi, en raunar voru skólatannlækningar nær alfarið bundnar við grunnskólana í Reykjavík hin síðari ár. Borgarsjóður og ríkissjóður greiddu fyrir tannlækningar skólabarna að fullu til ársins 1990. Þá tóku gildi lög um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, ríkissjóður yfirtók greiðslu tannlæknakostnaðar skólabarna og skömmu síðar var farið að innheimta greiðslu á hluta kostnaðarins hjá foreldrum og forráðamönnum barna.

Það er full ástæða til að ræða hvort ástæða sé til að taka aftur upp tannlækningar í skólum og jafnframt hvort þær ættu þá einnig að ná til barna á forskólaaldri. Að mínu mati eiga tannlækningar að vera hluti af heilbrigðiskerfinu, hvort sem framkvæmdin er á höndum einkaaðila eða hluti af starfsemi opinberra heilbrigðisstofnana.

Sjúkratryggingar Íslands hafa í umboði velferðarráðuneytisins unnið að því að ná samningum við tannlækna þar sem markmiðið er að auka niðurgreiðslur vegna eftirlits, forvarna og tannviðgerða allra barna að 18 ára aldri og jafnframt að tryggja fjórum árgöngum barna ókeypis forvarnaskoðun. Sem stendur er í gildi samningur við allmarga tannlækna um forvarnaskoðun þriggja, sex og tólf ára barna, en æskilegt væri að börn sem eru 15 ára gætu einnig mætt reglulega í skoðun án endurgjalds.

Það hefur lengi verið yfirlýst markmið heilbrigðisyfirvalda að kostnaðarþátttaka hins opinbera skuli nema allt að 75% af raunkostnaði fyrir allar almennar tannlækningar barna. Eins og staðan er núna, og hefur verið allt of lengi, greiða sjúkratryggingar 75% af kostnaði samkvæmt gjaldskrá sem Sjúkratryggingar Íslands gefa út. Meðan samningslaust er við tannlækna er sú gjaldskrá fjarri raunveruleikanum og í raun greiða foreldrar og forráðamenn að jafnaði meira en helming kostnaðarins við tannlækningar barna sinna. Gjaldskrár tannlækna eru mismunandi enda hafa þeir frjálsar hendur í þeim efnum, óbundnir af samningum.

Góðir gestir

Það er almennt viðurkennd staðreynd að velflestir geta haldið tönnum sínum heilum með hollu mataræði og réttri umhirðu. Undantekningin frá þessu eru þeir sem eru með meðfædda galla á tönnum eða glíma við sjúkdóma sem haft geta áhrif á heilbrigði tannanna.

Við vitum hvað veldur tannskemmdum og hvernig best er að koma í veg fyrir þær. Ábyrgð foreldra og forráðamanna barna í þessum efnum er mikil; jafnt að kenna börnum að bursta tennurnar vel og reglulega kvölds og morgna en líka að beina þeim frá neysluvenjum sem augljóslega stofna tannheilsunni í hættu. Sykuráti Íslendinga hefur lengi verið viðbrugðið og enn sláum við flest met í þeim efnum. Þetta er allra hluta vegna skelfilegur ósiður og skaðræði fyrir tennurnar auk þess sem þetta á stóran þátt í alvarlegri ofþyngd og offitu meðal þjóðarinnar. Sífellt sælgætisát og sykurneysla – samhliða miklu gosdrykkjaþambi sem allt of margir hafa tamið sér – á ekki aðeins sinn þátt í tíðum tannskemmdum heldur einnig í glerungseyðingu sem er verulega útbreitt vandamál á Íslandi svo eftir er tekið meðal annarra þjóða.

Nú er í velferðarráðuneytinu unnið að gerð nýrrar heilbrigðisáætlunar í stað þeirrar sem hefur runnið sitt skeið og er stefnt að því að leggja fram tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisáætlun næsta haust. Þar á að birtast framtíðarsýn í heilbrigðismálum landsmanna ásamt aðgerðaáætlun til ársins 2015 með skýrum og mælanlegum markmiðum. Augljóst er að þar verða sett markmið um lækkaða tíðni tannskemmda og glerungseyðingar hjá börnum og ungmennum. Ég legg sérstaka áherslu á að auka fræðslu til almennings um tannvernd, bæta heimtur barna og ungmenna til tannlækna með samvinnu tannlækna og heilsugæslu og við þurfum jafnframt að sinna tannverndarmálum frá fyrstu árum barna með öflugu eftirliti og fræðslu sem hluta af ung- og smábarnavernd.

Ég vil geta þess sérstaklega að ráðuneytið hefur unnið að því að efla tannvernd í leikskólum í samstarfi við heilsugæsluna og Embætti landlæknis, meðal annars með fræðslu og daglegri tannburstun í leikskólunum, og ég vonast til að þessi vinna skili marktækum árangri.

Velferðarráðuneytið stóð síðastliðið sumar fyrir átaksverkefni þar sem börnum efnalítilla foreldra var veitt tannlæknaþjónusta þeim að kostnaðarlausu. Verkefnið var nauðsynlegt í ljósi aðstæðna og kom mörgum að gagni. Þetta er samt alls ekki æskileg leið til að takast á við þann vanda sem við er að fást heldur neyðarráðstöfun sem við þurfum vonandi ekki að grípa til aftur.

Það eiga að sjálfsögðu ekki að vera forréttindi að hafa heilbrigðar tennur og við verðum að sjá til þess að allir eigi kost á nauðsynlegri tannheilbrigðisþjónustu líkt og gildir um heilbrigðisþjónustu almennt.

Við þurfum að búa mun betur að þessum málaflokki en gert hefur verið hingað til. Megináherslan á að vera á forvarnastarf þar sem allt er gert sem unnt er til að fyrirbyggja tannskemmdir með bættri tannhirðu, heilbrigðari neysluvenjum og reglulegum forvarnaskoðunum og eftirliti hjá tannlæknum. Eins bind ég vonir við að samningar náist fyrr en seinna við tannlækna þannig að niðurgreiðslur hins opinbera vegna tannlækninga barna verði í raun allt að 75% kostnaðarins eins og svo lengi hefur verið stefnt að.

Við eigum að bera okkur saman við nágrannaþjóðirnar og setja okkur það markmið að vera að minnsta kosti ekki eftirbátur þeirra á þessu sviði. Við getum gert miklu betur en nú og við verðum að taka höndum saman og koma tannheilsumálum þjóðarinnar í betra horf. Ég er ekki í vafa um að við náum árangri ef allir leggjast á eitt.  

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum