Hoppa yfir valmynd
13. ágúst 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ávarp velferðarráðherra á Ólafsdalshátíð 12. ágúst

Ólafsdalshátíð 12. ágúst 2012

Ávarp Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra

Ágætu gestir

Það er sérlega ánægjulegt að vera hér með ykkur í Ólafsdal og heiðra minningu frumkvöðulsins Torfa Bjarnasonar og fjölskyldu hans sem hér byggðu upp heilann búnaðarskóla, Ólafsdalsskóla, árið 1880 eða fyrir rúmlega 120 árum og gaman að eiga byggingu hér á staðnum frá 1896. 

Ég vil í upphafi þakka afkomendum Torfa Bjarnasonar og öllu áhugafólki í Ólafsdalsfélaginu, fyrir að varðveita þessa minningu og þennan mikilvæga hluta í mennta- og atvinnusögu landsins, með því að viðhalda og endurbyggja sjálft skólahúsið og jörðina sem slíka, efla fræðslu og stuðla að eflingu atvinnu á svæðinu.  Þetta er ekki auðvelt verk, en líkt og uppbyggingin í upphafi var ekki átakalaus, þá þarf dugnað og útsjónarsemi til að hér geti orðið varanlegur lifandi minnisvarði um þennan kafla mennta- og atvinnusögunnar.

Þá ber að þakka það frumkvæði að halda hér árlega Ólafsdalshátíð, með veglegri dagskrá, hátíð sem er orðin skemmtilegur hluti af sumrinu. 

Þekking, reynsla, menntun og alþjóðlegt samstarf – leiðir til framfara

Ég ætla ekki að rekja sögu staðarins hér því ég veit að aðrir gera það betur en ég. Þegar manni er boðið að flytja ávarp á hátíð sem þessari fylgir því hins vegar skyldan að kynna sér betur söguna og þess vegna las ég meðal annars aftur hundrað ára samtímalýsingu um Torfa skólastjóra Bjarnason í tímaritinu Óðni frá árinu 1912.  

Þegar maður kemur á slíkan stað sem Ólafsdal og kynnist sögu hans reynir maður að setja sig inn í hvað var að gerast á þessum tíma, hvað olli því að einstaklingur tók frumkvæði að merkri uppbyggingu og stofnun skóla.  Það er forvitnilegt að skoða hvar og hvernig Torfi hlaut aðstoð og hvatningu, hvernig hann aflaði sér þekkingar og reynslu og hvernig hlutirnir síðan breyttust og þróuðust í takt við aukna tækni og nýjar kröfur. 

Það er athyglisvert að lesa í Óðni um hvatningu Húnvetninga til hins unga manns, Torfa Bjarnasonar, að koma upp „fyrirmyndarbúi“ og veita því forstöðu.  Í þeim tilgangi var Torfi sendur til Skotlands til námsvistar til að læra af reynslu þarlendra, þar sem fjárrækt þótti standa hvað fremst í heiminum.  Þetta yrði kallað í dag að leita að „best practice,“  þ.e. að sækja sér viðmið við það besta sem gerist í heiminum.  Þetta er nokkuð sem við sem þjóð, starfsgreinar og fyrirtæki þurfa ávallt að temja sér.

Atvinnusagan – sigrar og ósigrar

Saga Torfa Bjarnasonar og skólans í Ólafsdal er gott dæmi úr atvinnusögu okkar í gegnum tíðina. Menn lögðu allt undir, ævistarf sitt og fjármagn, sumir efnuðust, aðrir ekki.

Það er mikilvægt að varðveita atvinnusöguna í gegnum tíðina – vega hana og meta, læra af henni, læra um styrkleika og veikleika íslensks samfélags á hverjum tíma, virða sérstöðuna en nýta þekkingu og reynslu annarra jafnframt.

Við verðum að þora að leita eftir nýjungum, leyfa okkur að gera mistök en halda ávallt ótrauð áfram í leit að bættu  mannlífi og afkomu, sem fléttar saman þá þætti sem helst virðast veita fólki lífsánægju og hamingju.

Hamingja byggist mjög á öryggi, – tilfinningunni að tilheyra einhverjum hópi, eiga vini og félaga, – en einnig að hafa hlutverk og gera gagn, setja markmið og ná árangri svo fátt eitt sé nefnt.  

Munum að hamingjan byggist ekki fyrst og fremst á veraldlegum gæðum, þótt trygg afkoma spili þar stórt hlutverk.

Að þora að leita leiða og vinna sigra – að þora að gera mistök

Það sem oft einkennir slíka eldhuga og frumkvöðla sem Torfa Bjarnason eru meðal annars frumkvæði, kjarkur,  hugmyndaauðgi, óhefðbundin hugsun, óttaleysi við að reyna eitthvað nýtt og viðurkenningin á að alþjóðleg þekking og reynsla er nauðsynleg í okkar uppbyggingu.  Og auðvitað jafnframt hvatning og stuðningur fjölskyldu, vina og annarra.

Það er forvitnilegt að lesa um Jón Sigurðsson forseta, búsettan áratugum saman í Danmörku, í stöðugu sambandi við landa sína, hvetjandi þá til náms og til alþjóðlegra samskipta, til að sækja sér menntun, þekkingu og reynslu, þar sem hana er helst að hafa, flytja hana síðan með sér heim og nýta hana og þróa. 

Þetta er ferill sem oft hefur leitt til þess að við Íslendingar höfum getað nýtt okkur eða endurgoldið þessa þekkingu og reynslu með nýjum og endurbættum hugmyndum, þekkingu og reynslu, með nýjum tækjum og kunnáttu sem hefur þróast við íslenskar aðstæður á hverjum tíma. Þetta á ekki hvað síst við sérþekkingu á afmörkuðum sviðum svo sem í orkumálum, sjávarútvegi og stoðtækjaþjónustu svo eitthvað sé nefnt.

Í leit að betra lífi, tryggri afkomu og kannski gróða – Útrás eða landflótti og mismunandi túlkun á sögunni

Ég nefndi áður ferð Torfa Bjarnasonar til Skotlands til náms. En Torfi fór einnig til Vesturheims með hópi manna,  aðallega til að skoða aðstæður í Ameríku með hugsanlegan flutning í huga eftir harðærin hér á landi.  En hann valdi að búa áfram á Íslandi. 

Margir yfirgáfu Ísland á þessum árum, ótrúlegur fjöldi leitaði að betra lífi í nýju ríki Norður Ameríku. Sumir hafa líkt þessum landflutningum í lok 19. aldar við það sem gerðist nú eftir hrun, gjarnan til að koma höggi á stjórnvöld.  Þannig verða tugprósenta landflutningar að sambærulegum landflótta (sem var milli 1 og 2%) þar sem höfðatalan var sú sama. Látum það liggja  milli hluta.

Það er eftir sem áður gaman að skoða þennan kafla í sögunni, þ.e. landflutningana, í samhengi við umræðuna í dag. Hundruð þúsunda Evrópubúa hafa til dæmis flust á milli landa, meðal annars í atvinnuleit og í leit að viðunandi lífskjörum, en þó er talið að aðeins 3% sæki vinnu annars staðar en í heimalandi sínu. 

Í þessu samhengi er fróðlegt að velta fyrir sér hvernig sagan er sögð og túlkuð á hverjum tíma og hvernig hún verður túlkuð síðar.  

Þannig fluttust 18-19 þúsund útlendingar til Íslands á skömmum tíma, einkum á árunum 2002 – 2008.  Íslendingar önnuðu ekki þeim verkefnum sem sett voru í gang á sama tíma, þensla var gríðarleg.  Íslendingar ætluðu að gleypa heiminn og lögðust í útrás. Stundarhagsmunir og skammtímahugsun réði ríkjum.  Peningagræðgi og skyndigróði var aðal markmiðið. 

Á sama tíma – og þá sérstaklega í aðdraganda hrunsins – voru daglegar fréttir af útrás íslenskra fyrirtækja; yfir þúsund íslenskra bankamanna unnu úti í Evrópu í fjármálastarfsemi, Íslendingar keyptu fyrirtæki, smíðuðu og settu upp flæðilínur út um allan heim með íslensku vinnuafli og settu upp verksmiðjur með ódýrara vinnuafli á öðrum svæðum með styrkjum þarlendra, svo sem í Slóvakíu. Þá voru íslenskir verkfræðingar og sérfræðingar í gangagerð í alls kyns stórum byggingaframkvæmdum á Grænlandi, Jamaíka og víða í Evrópu og flestir eða allir borar Jarðboranna voru í verkefnum erlendis. Eins og áður sagði, þá fluttum við inn fólk á sama tíma. 

Aldrei var minnst á fólksflótta, heldur jákvæða útrás, nýtingu á mannafla og afbragðs sérþekkingu Íslendinga. En hvað gerðist?  Hér hrundi allt, froðan fauk ofan af veitingunum í veislunni og hin raunverulegu verðmæti komu í ljós. Tjöldin féllu. 

Eignamyndunin hafði að meira og minna leyti verið tekin að láni, til dæmis jukust lán heimilanna um yfir 2000 milljarða á fjórum árum!!!

En hvað gerðist svo?  Hver segir og skrifar söguna? Eftir kosningar 2009 kom ný ríkisstjórn. Þá breyttust þeir Íslendingar sem fóru til vinnu erlendis í umræðunni í „landflótta fólk“ sem var hrakið úr landi. Þeir sem reyndu að bjarga sér um vinnu erlendis, voru „á flótta frá Íslandi.“ 

„Ekki benda á mig“ umræðan upphófst og deilan um hvað gerðist?  Hverjum var um að kenna? Hver átti að borga veisluna?  Hugsunarhátturinn, „þetta bjargast einhvern veginn“ og „við erum best í heimi,“ég má allt sem ég kemst upp með“ hafði ekki dugað til annars en að blekkja okkur sjálf. 

Íslenskt samfélagið gliðnaði í sundur í hagsmunabaráttu, baráttu um bætta stöðu eða að halda stöðu sinni.  Baráttan um auðlindir og gæði varð hatrammari og umræðan tók að sveiflast á milli þjóðarrembings og alþjóðahyggju. Traust á stofnanir samfélagsins minnkaði.

Það má kalla grátbroslegt að haft er eftir Torfa Bjarnasyni um skuldsetningu, þar sem hann við stofnun verslunarfélags Dalasýslu, af biturri reynslu hans sjálfs, lagði kapp á „skuldlausa verslun í þeim félagsskap.“ Torfi hafði lært af reynslunni, en höfum við sem þjóð gert það?

Höfum við eitthvað lært? Hvað viljum við læra? Hvert viljum við stefna? Við tölum um mikilvægi jákvæðni og gagnkvæmrar virðingar, en ástundum við slíkt í daglegum samskiptum? 

Við heyrum mikið talað um mikilvægi samstöðu, jafnvel frá aðilum sem hafa alið á sundurþykkju. Þýðir ákallið um samstöðu að sú samstaða eigi að vera um óbreytt ástand eða á það að felast í leit að nýjum og betri leiðum þar sem allir leggja sitt af mörkum?

Hættuleg misskipting í heiminum

Hver hefði trúað því að á sama tíma og í hinum vestræna heimi; Evrópu og Ameríku, var talað um uppgangstíma og góðæri, þá jókst misskiptingin í heiminu meira en nokkru sinni. 

Þorum við að viðurkenna að misrétti og misskipting er ein mesta ógnun við heimsfriðinn og mesta ógnin við hugmyndir um traust og samstöðu?

Þorum við að berjast gegn þessari misskiptingu? 

Erum við tilbúin að skipta uppskerunni og hagnaðinum af auðlindum okkar ágæta lands réttlátlega á milli okkar til að auka jöfnuð?

Hvenær ætlum við til dæmis sem þjóð að læra að það er samhengi á milli skatta og tekna okkar sameiginlegu sjóða og samneyslu og þjónustu? 

Við erum þjóð sem innst inni vill jöfnuð, réttlæti, samstöðu og samneyslu um leið og við sköpum aðstæður til frumkvæðis, áræðis og sífelldrar leitar að bættum kjörum og lífshamingju.  Ræktum þann þátt í þjóðarsálinni.

Svört-hvít umræða

Ég sagði að Ísland þarf meira traust, meiri sátt, afnám misréttis og meira réttlæti – en þorum við að ræða hvernig við náum því fram, eða ætlum við að rífast um hver hefur rétt fyrir sér, mála myndina aðeins svarta og hvíta og gleyma öllu litrófinu? Þannig er því miður ríkjandi umræðuhefð í dag, átök en ekki málefnaleg rökræða.  Þetta þarf að laga.

En aftur að Ólafsdal og atvinnusögunni...

Hvað er atvinna?  Hver eru mörk atvinnugreina? Skipan mála

Ég nefndi að Ólafsdalsskólinn væri hluti af mennta- og atvinnusögu Íslands. Þetta var bændaskóli, sem kenndi fjölþætt bústörf en varð kannski hvað þekktastur fyrir smíði alls kyns jarðyrkjuverkfæra. 

Leiða má að því líkum að þá sem oft síðar hafi mönnum þótt óvarlega farið, ekki mætti breyta út frá venjum, verja þyrfti land, þótt síðar meir færu menn geyst og brutu land, þurrkuðu og nytjuðu, sumt sem við viljum snúa til baka með í dag. 

En er hægt að dæma fortíðina með gleraugum nútíðar, eru mælikvarðarnir réttir og sanngjarnir?

Oft ræðum við um undirstöðuatvinnuvegina, þ.e. þær greinar sem bera uppi megnið af gjaldeyrisöflun okkar og gera okkur kleift að flytja inn nauðsynjavörur sem við getum ekki framleitt og eiga viðskipti með því að láta af hendi vörur eins og margskonar matvöru, fisk og nú síðar að flytja út orkuna okkar með því að selja hana til alls kyns orkufreks iðnaðar. 

Við viljum gjarnan fá sem hæst verð, njóta frelsis til að flytja út vörur og flytja inn vörur á sem lægstu verði... eða hvað? 

Undirstöðuatvinnuvegur hefur gjarnan verið þar sem unnið er með höndunum. En skoðum aðeins betur atvinnuna eða atvinnuvegina í landinu.

Atvinnuvegaráðuneyti – gömul hefðbundin skipting í atvinnugreinar – úreltar hugmyndir um atvinnu og atvinnusköpun

Við höfum flokkað sjávarútveg sem sérstaka atvinnugrein, landbúnað sem aðra atvinnugrein og iðnað sér. Allar þessar atvinnugreinar hafa átt sitt ráðuneyti. Ferðaþjónusta er flokkuð með iðnaði einhverra hluta vegna og við tölum um ferðamannaiðnað. Þjónusta og verslun sem og fjármálastarfsemi átti sitt eigið ráðuneyti um tíma, viðskiptaráðuneyti.

Fyrir nokkrum árum var ráðist í þá breytingu að sameina landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti.  Skömmu síðar voru landbúnaðarskólarnir færðir undir menntamálaráðuneyti. Allt hefur þetta mætt andstöðu af ólíkum ástæðum, en er okkur óhætt að breyta? Fer allt til fjandans við hverja slíka breytingu? 

Hvað þá ef við búum til eitt atvinnuvegaráðuneyti og reynum að einfalda eða jafnvel hætta flokkun í atvinnugreinar þar sem tæknin hefur afmáð svo mörg mörk og ný verkefni eiga sér ekki stað í neinni áður þekktri flokkun. 

Ég geri ekki ráð fyrir að nokkur á mínum aldri hefði getað séð fyrir á sínum skólaárum að þúsundir Íslendinga myndu vinna við tölvur.  Á tímum Torfa Bjarnasonar hefði fyrirbrigðið „Eve on line“ (CCP) þótt galdrar.  Og hvar staðsetjum við slíka atvinnugrein í kerfinu?  Ekki heyrir hún undir landbúnað né sjávarútveg en kannski iðnað... já, samþykkt, þetta er tækni og fer í iðnaðarráðuneytið.  Hvert fara þá þeir sem búa til tölvustjórntækin fyrir brúnna í skipunum eða tölvugreiningartækin og mæli- og stýritækin á flæðilínunum? Er framleiðsla þeirra sjávarútvegur eða iðnaður? 

Matvælaframleiðsla? Hvenær er hún iðnaður og hvenær landbúnaður? Hvað með skógrækt, landgræðslu, hestamennsku, ferðamennsku á vegum ferðaþjónustu bænda?

Veltum við þessu kannski fyrir okkur og skiptum þessu niður vegna hagsmunagæslu ákveðinna atvinnugreina?  Eða viljum við eyða þessum mörkum?

Við eigum að vera óhrædd að nálgast verkefnin með nýjum hætti, reyna að tryggja framgang nýrra atvinnugreina, nýrra verkefna, nýsköpunar og alls kyns skapandi greina, hvaða nafni sem þær kunna að nefnast og hvort og hvernig sem annars væri hægt að flokka þær í hefðbundnar þekktar atvinnugreinar.

Íhaldssemi – framfarir?

Það er vandrataður sá vegur að gæta þess sem við höfum, berjast fyrir því sem við þekkjum best - og þess að opna fyrir nýjungar og framfarir. 

Ísland er fámennt land. Þjóðir eins og Danir, Hollendingar og fleiri tala um sig sem smáþjóðir og þar með erum við örþjóð. Það þýðir ekki að við getum ekki haft áhrif og nýtt okkur smæð okkar og sérstöðu. En það gerum við aldrei með því að einangra okkur og ríghalda í hið liðna, það gerum við með góðri menntun og afburðaþekkingu, sveigjanleika og aðlögunarhæfni. 

Við erum hér stödd á stað sem átti sitt blómaskeið, þjónaði mikilvægum tilgangi, en lifði ekki af breytingarnar sem fylgdu í kjölfarið með nýrri tækni og breyttri búsetu. En staðurinn getur öðlast nýtt hlutverk, með nýrri hugsun, með því að nýta söguna og menninguna og náttúruna til ánægju og fróðleiks. 

Þannig breytast tímarnir og mennirnir með, tækifæri glatast en önnur bjóðast. Við eigum að þekkja þá sögu, vera undirbúin undir breytingar en bera virðingu fyrir því sem við höfum og kunnum best. 

Þetta eru skilaboðin sem mér finnst að saga frumkvöðulsins Torfa Bjarnasonar og saga Ólafsdals eigi að kenna okkur, sem og tilraunir þeirra sem hér hafa tekið höndum saman til að varðveita söguna og minningarnar.

Niðurstaðan – hvað getum við lært?

Lærdómurinn af sögu Ólafsdals er þannig í hnotskurn í mínum huga að menntun, þekking og reynsla er lykillinn að framförum ásamt frumkvæði og áræði.  Þar skiptir tungumálakunnátta miklu, sem lykillinn að alþjóðlegum samskiptum. Þá skiptir ennþá miklu máli að sækja sér viðmið við það besta í heiminum á hverjum tíma og að vanda til verka en vera óhrædd við að gera mistök. 

Það skiptir máli að miðla þekkingu, - hafa gott „samstarf í samkeppni,“ innanlands sem jafnt og á milli landa.

Einangrað Ísland heldur ekki lengi frumkvæði sínu og stöðu í heiminum

Íslendingar verða að hafa kjark, þeir verða að varðveita hið liðna, rækta söguna og menningu þjóðarinnar og byggja upp á framsækinn og víðsýnan hátt. 

Íslendingar hafa fulla ástæðu til að líta björtum augum fram á veginn, þrátt fyrir tímabundnar þrengingar og ýmsar óhjákvæmilegar breytingar.

Ógnir og áhrif Eyjafjallajökulsgoss, stundarörvænting, breyttist í ný tækifæri. 

Það er okkar allra að líta á ógnir og áskoranir dagsins í dag sem spennandi sóknarfæri og tækifæri. 

Megi Ólafsdalsfélagið ná markmiðum sínum, varðveita sögu og menningu og miðla henni til nýrra kynslóða og draga athygli fólks að þessum fallega stað.

- - - - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum