Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp ráðherra á málþingi um margbreytileika fjölskyldugerða

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Ávarp Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra

Góðir gestir.

Ég vil byrja á því að þakka Velferðarvaktinni alveg sérstaklega fyrir að efna til málþings og umræðu um margbreytileika fjölskyldugerða í íslensku samfélagi. Þetta er þörf og áhugaverð umræða um mál sem við þurfum að gefa meiri gaum en gert hefur verið til þessa.

Í almennri umræðu ber fjölskylduna oft á góma og oft er vísað til hennar sem hornsteins samfélagsins. Það er vissulega rétt – en ég held að fólk velti því hins vegar ekki endilega fyrir sér hvað felst í hugtakinu fjölskylda og hvað það er í raun og veru víðtækt.

Pabbi, mamma, börn og bíll er kannski það fyrsta sem fólk hugsar. Við sjáum fyrir okkur karl og konu með tvö eða þrjú börn sem þau eiga saman og í sunnudagsbíltúrum sem farnir eru reglulega syngja þau Allir krakkar á íslensku. Raunveruleikinn er hins vegar mun fjölbreyttari en þessi mynd gefur til kynna.

Það er ekki ólíklegt að foreldrar barnanna í þessari mynd eigi að baki annað samband og barn eða börn úr fyrri sambúð. Þá fjölgar í hópnum. Stundum eru börnin tvö og stundum fimm eftir atvikum. Þarna eru alsystkini og hálfsystkini og foreldrar og uppalendur hvers barns eru ekki bara pabbi og mamma, heldur líka stjúpforeldrar - og ömmu- og afa- galleríið getur orðið býsna fjölskrúðugt. Allt þarf þetta fólk að eiga regluleg samskipti, ræða verkaskiptingu og fyrirkomulag barnauppeldisins með öllu sem því fylgir, skipuleggja skólagönguna, samverustundir, frí, hátíðahöld og svo framvegis og svo framvegis.

Foreldrarnir eru ekki endilega karl og kona, heldur allt eins karl og karl eða kona og kona og ekki er víst að foreldrarnir séu líffræðilegir foreldrar barna sinna, kannski þó annað þeirra – kannski hvorugt. Það er heldur ekkert víst að sungið sé á íslensku í sunnudagsbíltúrnum og ef við gefum okkur að annað foreldrið – eða bæði séu af erlendum uppruna getur það haft veruleg áhrif á fjölskyldumyndina í heild sinni og aðstæður foreldra og barna. Þá eru afar og ömmur og annað skyldfólk trúlega víðsfjarri og auðvitað skiptir það líka máli.

Síðast en ekki síst eru það svo einstæðir foreldrar, einstæðar mæður eða feður – sem ætti kannski heldur að tala um sem einstaka foreldra í ljósi þess vandasama hlutverks að axla ein eða einn ábyrgð á uppeldi barns.

Þegar ég ólst upp fannst mér fjölskyldutengsl annarra aldrei flókin. Reynslan af því að eiga eitt alsystkini, sex hálfsystkini og slatta af stjúpsystkinum hafði vanið mig snemma við að skilja hratt og vel fjölbreytt fjölskyldutengsl. Vorkenndi jafnvel vinum mínum sem áttu ekki nema eitt alsystkin og það skrítnast af öllu: Foreldra sem bjuggu enn saman.

Í þessari yfirferð minni um fjölbreytt fjölskylduform hef ég eflaust gleymt einhverju, en staðreyndin er einfaldlega sú að íslenskar fjölskyldur eru af öllum stærðum og gerðum. Ég held að Íslendingar séu upp til hópa afar opnir fyrir þessari staðreynd og fordómalausir. Það er gott – en það er ekki nóg. Við þurfum að taka þessa staðreynd inn í myndina í allri umfjöllun og við allar ákvarðanir sem varða fjölskylduna. Þess vegna fannst mér nauðsynlegt að rifja upp þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi árið 1997 um sérstaka fjölskyldustefnu. Við þurfum að móta fjölskyldustefnu sem tekur mið af fjölbreytileikanum og vinna við mótun slíkrar stefnu er hafin í velferðarráðuneytinu. Ég er stolt af því og legg áherslu á að vandað verði til verksins.

Það þarf að tryggja grundvallaröryggi fjölskyldunnar efnahagslega, ásamt rétti hennar til öryggis í húsnæðismálum. Húsnæðisstefna er einnig í mótun. Við þurfum að leggja áherslu á jafna ábyrgð foreldra í  heimilishaldi og við umönnun og uppeldi barna sinna. Stofnanir samfélagsins þurf að starfa í samvinnu við fjölskylduna og taka mið af ábyrgð foreldra á börnum sínu. Fjölskyldustefnan þarf að beinast gegn misrétti, meðal annars með tilliti til kynþáttar, trúarbragða, fötlunar eða kynhneigðar. Fjölskyldustefna þarf einnig að snúast um vernd gegn ofbeldi í nánum samböndum og leggja þarf áherslu á að fjölskyldur njóti verndar og stuðnings gagnvart ofneyslu áfengis og annarra fíkniefna.

Við eigum að standa vörð um fjölskylduna í öllum sínum fjölbreyttu myndum og tryggja öryggi hennar, afkomu og lífsgæði eins og nokkur er kostur. Það er skylda.

Góðir gestir. Við höfum margt að ræða í dag. Ég óska þess og er viss um að ráðstefnan í dag verði fróðleg, gagnleg, vekjandi, hvetjandi og skemmtileg.

- - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum