Hoppa yfir valmynd
13. mars 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Markviss áætlun um betri heilbrigðisþjónustu

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra

Grein eftir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra
Birtist í Morgunblaðinu 13. mars 2014.

Íslensk heilbrigðisþjónusta er um margt afar góð og skorar jafnan hátt í alþjóðlegum samanburði. Engu að síður eru ýmsar brotalamir sem þarf að bæta, sóknarfæri sem þarf að nýta og úrbætur sem eru nauðsynlegar til að takast á við margvíslegar áskoranir sem snúa að heilbrigðiskerfinu í nútíð og framtíð. Við verðum líka að horfast í augu við þá staðreynd að útgjöld til heilbrigðismála fara ört vaxandi hér og alls staðar í hinum vestræna heimi. Spár OECD gera ráð fyrir að útgjöld til heilbrigðisþjónustu muni margfaldast á næstu áratugum verði ekkert að gert.

Öxin á veggnum

Til er saga af ungum manni sem kom gestur á bæ og felldu hann og heimasætan hugi saman. Ákveðið var að skála fyrir framtíð hjónaleysanna. Stúlkan og foreldrar hennar fóru í kjallarann eftir víni, opnuð spons á vínámu og létu renna í könnu. Þá sáu þau öxi hangandi á vegg og örvingluðust yfir afdrifum ófæddra barna tilvonandi hjóna ef börnin skyldu eiga erindi í kjallarann og öxin detta í höfuð þeirra. Unga manninn tók að lengja eftir þeim, fór að vitja þeirra og fann þau þá sitjandi í kjallaranum, umflotin víni, aðgerðalaus og lömuð af ótta við hina skelfilegu framtíðarsýn.

Framtíð heilbrigðisþjónustunnar

Látum ekki fara fyrir okkur eins og fólkinu í dæmisögunni. Látum ekki öxina hanga yfir höfðinu á okkur, tökum hana niður af veggnum.

Þarfir fjöldans fyrir þjónustu heilbrigðiskerfisins hafa breyst mikið á liðnum áratugum. Helstu heilsufarsógnir eru nú faraldur ósmitnæmra, langvinnra sjúkdóma sem margir teljast til svokallaðra lífsstílssjúkdóma. Ástæða er til að ætla að breytingar á sjúkdómabyrðinni og nýjar lýðheilsuógnir kalli á endurskoðun, nýjar nálganir og lausnir.

Á liðnum árum hefur farið fram umfangsmikil greiningarvinna á styrkleikum og veikleikum íslenska heilbrigðiskerfisins. Ég nefni sérstaklega vinnu sem fram fór í velferðarráðuneytinu á árunum 2011 – 2012 með aðstoð erlends ráðgjafafyrirtækis og aðkomu hátt í 100 sérfræðinga á ýmsum sviðum heilbrigðiskerfisins. Á þessum grunni liggja fyrir skýrar tillögur um verkefni sem hrinda þarf í framkvæmd til að styrkja og bæta heilbrigðiskerfið og gera það betur í stakk búið til að mæta þörfum landsmannan fyrir heilbrigðisþjónustu í nútíð og framtíð á skilvirkari hátt.

Verkefnið Betri heilbrigðisþjónusta 2013-2017

Frá því ég settist í stól heilbrigðisráðherra hef ég farið yfir fyrirliggjandi greiningar og tillögur að úrbótum í heilbrigðiskerfinu og rætt við sérfræðinga um bestu leiðir til að hrinda mikilvægum verkefnum í framkvæmd. Niðurstaða liggur fyrir og verkefnin sem um ræðir hafa nú verið formgerð undir vinnuheitinu; Betri heilbrigðisþjónusta 2013-2017. Flest verkefnanna eru mörgum kunnugleg og hafa lengi verið til umfjöllunar. Vandinn er einkum hve hægt hefur miðað. Þess vegna ákvað ég að setja fram heildstæða áætlun með skýru skipulagi um stjórnun og verklag. Síðast en ekki síst legg ég áherslu á að verkefnin séu unnin í samhengi hvert við annað þannig að framkvæmd og innleiðing þeirra sé samhæfð og stefni að einu marki, þ.e. betri heilbrigðisþjónustu.

Verkefnin í hnotskurn

Í stuttu máli snúast verkefnin um yfirsýn og stjórn á því hvernig heilbrigðisþjónustan er notuð þannig að ávallt séu valin rétt úrræði miðað við þjónustuþörf og að yfirsýn og samhæfing tryggi samfellu og komi í veg fyrir tví- eða margverknað. Við eigum þá vafasömu sérstöðu meðal nágrannaþjóða að beita lítið sem ekkert markvissri stjórnun á því hvert fólk sækir sér heilbrigðisþjónustu. Þessu fylgja margvíslegir annmarkar: Þetta er ekki í þágu sjúklinga, þetta stuðlar að ómarkvissri þjónustu, þetta ýtir undir sóun og dregur úr skilvirkni. Þetta vitum við og höfum vitað lengi og því tel ég ekkert að vanbúnaði. Samhliða fleiri verkefnum er lykillinn að úrbótum innleiðing þjónustustýringar. Undirbúningur er hafinn og þar mun heilsugæslan gegna meginhlutverki.

Önnur stór verkefni eru sameining heilbrigðisstofnana til að efla faglegan og fjárhagslegan styrk þeirra. Innleiðing hreyfiseðla og verkefni um stórbætta upplýsingagjöf og ráðgjöf til notenda heilbrigðiskerfisins mun efla möguleika fólks á því að vera virkir þátttakendur í meðferð og að taka ábyrgð á eigin heilsu eftir föngum. Endurskoðun á greiðsluþátttöku sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu er fyrst og síðast spurning um sanngjarnt og réttlátt greiðslukerfi sem er gegnsætt og auðskiljanlegt. Samtengd Rafræn sjúkraskrá er stórt og mikilvægt mál fyrir margra hluta sakir. Hæst ber aukið öryggi sjúklinga, samhæfðari þjónusta og aukin skilvirkni. Loks er það endurskoðun á fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar til að byggja skynsamlega hvata inn í kerfið, meta árangur á nýjan hátt miðað við ávinning af þjónustunni og ákveða rekstrarframlög til heilbrigðisþjónustu út frá íbúafjölda á viðkomandi þjónustusvæði og ýmsum lýðfræðilegum og félagslegum þáttum.

Bætt þjónusta – Betra starfsumhverfi – Betri nýting fjármuna

Ég er viss um að með innleiðingu þeirra verkefna sem unnið er að undir samheitinu Betri heilbrigðisþjónusta, muni ekki aðeins takast að bæta heilbrigðisþjónustuna, heldur einnig að nýta betur þá fjármuni sem við höfum úr að spila. Síðast en ekki síst er markmiðið að bæta starfsumhverfi heilbrigðiskerfisins sem er nauðsynlegt til að tryggja mönnun þess og vilja hjá okkar færasta fagfólki til að starfa innan þess.

Kynning og upplýsingar

Þann 30. janúar var haldinn fjölmennur fundur í Norræna húsinu þar sem verkefni Betri heilbrigðisþjónustu voru kynnt fyrir stjórnendum stofnana heilbrigðiskerfisins, auk fulltrúa háskólasamfélagsins og fleiri aðilum. Viðtökur voru góðar og auðfundið að það er frjór jarðvegur fyrir umbætur. Annar fundur var haldinn í vikunni með fulltrúum hagsmunasamtaka sjúklinga- og aðstandenda. Verkefni verða kynnt frekar eftir því sem þeim vindur fram og á vef velferðarráðuneytisins má einnig nálgast upplýsingar um verkefnið Betri heilbrigðisþjónusta á vefslóðinni: www.velferdarraduneyti.is

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum