Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Ávarp heilbrigðisráðherra á ráðstefnu Íslenska heilsuklasans

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Gæti heilbrigðistengd starfsemi orðið ein af undirstöðuatvinnugreinum Íslands á næstu áratugum? Um þetta fjallaði ráðstefna sem efnt var til undir merkjum Íslenska heilsuklasans, fimmtudaginn 13. febrúar 2014. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra flutti ávarp á ráðstefnunni.


Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Ágætu gestir.

Ég þakka fyrir boð á þennan fund um heilbrigðistengda starfsemi þar sem aðilar á ólíkum sviðum þessarar starfsemi leiða saman hesta sína til að fá skarpari sýn á tækifæri og nýsköpun. Það er löngu tímabært að fólk á þessu sviði setjist niður, beri saman bækur sínar, stilli saman strengi og hugi að möguleikum til samvinnu þar sem það hentar.

Vonandi verður fundurinn í dag til þess að marka brautina að markvissri sókn jafnt innanlands sem utan. Tækifærin eru vissulega til staðar – það vitum við öll þótt ekki geri allir sér grein fyrir því. Og hvernig má annað vera. Umræðan um heilbrigðismál hér á Íslandi hefur fyrst og síðast snúist um ríkisrekstur heilbrigðisþjónustunnar. Margir mega ekki heyra á það minnst að einkafyrirtæki hasli sér völl í heilbrigðisþjónustunni eða tengdri starfsemi. Svo eru þeir til sem gera sér ekki grein fyrir mikilvægi einkarekstrarins – vita ekki að íslenskt heilbrigðiskerfi kemst ekki af án öflugs einkaframtaks á þessum sviði sem öðrum.

Ég hef stundum haft það á tilfinningunni að heilbrigðistengd starfsemi á vegum einkaaðila – allt frá þjónustu til tæknifyrirtækja, frá lyfjaframleiðslu til rannsókna – hafi orðið að hornkerlingum í hugum sumra íslenskra stjórnmálamanna og jafnvel fjölmiðla. Það sé ekki litið á þessi fyrirtæki sem gríðarlega mikilvægan hluta af íslensku heilbrigðiskerfi, viðskipta- og atvinnulífi. Þessu skulum við í sameiningu breyta.

Ég segi við ykkur hér í dag: Ég skal leggja ykkur lið í að byggja upp heilbrigðistengda starfsemi hér á landi enda sannfærður um tækifærin séu fyrir hendi um allt land.

Almenn og opinber umræða um heilbrigðismál hér á landi hefur um langt skeið einkennst af úrtöluröddum, bölsýni og bölmóði. Það er mikið fjallað um heilbrigðiskerfi á hverfanda hveli, fjársvelti og atgervisflótta og þar fram eftir götunum. Veruleikinn er ekki svona slæmur. Staðreyndirnar segja okkur að heilbrigðisþjónusta hér á landi er með því besta sem gerist í alþjóðlegum samanburði þrátt fyrir mögur ár að undanförnu.

Við eigum alla kosti til sóknar og við sjáum þess víða stað. Það voru til dæmis gleðileg tíðindi sem bárust frá Landspítala í vikunni þar sem um helmingi fleiri sóttu um lausar stöður lækna á lyflækningasviði en auglýst hafði verið eftir. Við erum að auka fjármuni inn í heilbrigðiskerfið til mikilla muna á þessu ári, sjúkrahúsin geta nú hafið langþráðar endurbætur á tækjakosti og við sjáum strax að staðan er að breytast til hins betra. Það smitar út í umhverfið, eykur þekkingarstig og framleiðni.

En heilbrigðismál og heilbrigðisþjónusta eru auðvitað svo ótal margt annað en heilsugæsla og sjúkrahús eða heilbrigðisþjónusta utan heilbrigðisstofnana. Þetta vill oft gleymast.

Gróskumikil starfsemi og nýsköpun fer fram á sviði heilbrigðisrannsókna hér á landi og hátæknigreinar láta æ meira að sér kveða, meðal annars með þróun og framleiðslu lyfja, lækningatækja og stoðtækja. Það er vöxtur og gróska á ýmsum sviðum heilbrigðistengdrar þjónustu og það er tvímælalaust ástæða til að einbeita sér að því hvort og hvernig megi bæta vaxtarskilyrðin enn frekar á þessum akri.

Góðir gestir.

Það liggur stór spurning fyrir þessum fundi sem við svörum kannski ekki með beinum orðum strax í dag – það er hvort heilbrigðistengd starfsemi geti orðið ein af undirstöðuatvinnugreinum Íslands á næstu áratugum? Í hjarta okkar vitum við að svarið liggur fyrir ef rétt er haldið á spilunum.

Ég hef sagt það áður – og ítreka það hér, að þótt heilbrigðisþjónusta á Íslandi sé um margt afar góð og skori jafnan hátt í alþjóðlegum samanburði er engu að síður margt sem má bæta og þarf að bæta.

Við verðum líka að horfast í augu við þá staðreynd að útgjöld til heilbrigðismála fara ört vaxandi, ekki aðeins hér á landi heldur alls staðar í hinum vestræna heimi. Spár OECD gera ráð fyrir að útgjöld til heilbrigðisþjónustu muni margfaldast á næstu áratugum verði ekkert að gert. Þörf fyrir umræðu, nýja sýn og nýja nálgun er því alls ekki bundin við Ísland, heldur snýst um framtíð heilbrigðisþjónustu víða um lönd. Þarfir fjöldans fyrir þjónustu heilbrigðiskerfisins hafa breyst mikið á liðnum áratugum. Helstu heilsufarsógnir nútímans eru faraldur ósmitnæmra, langvinnra sjúkdóma sem margir hverjir teljast til svokallaðra lífsstílssjúkdóma. Það er ástæða til að ætla að breytingar á sjúkdómabyrðinni og aðrar lýðheilsuógnir en þær sem áður voru meginvandi heilbrigðiskerfisins kalli á endurskoðun, nýjar nálganir og nýjar lausnir.

Við stöndum því frammi fyrir miklum áskorunum á komandi árum og áratugum. Þeim áskorunum verðum að mæta með því að virkja hugvit einstaklinganna, með því að nýta fjármunina enn betur meðal annars með því að innleiða samkeppni og aukna kröfu um meiri framleiðni.

Góðir gestir.

Við Íslendingar segjum stundum að neyðin kenni naktri konu að spinna  – og þótt ég tali ekki um neyð í íslenska heilbrigðiskerfinu er engu að síður ástæða til að hafa þetta gamla máltæki og sannindi þess í huga. Meira vinnur vit en strit og því eru góðar líkur á því að ef margir leggja saman þekkingu sína, hugvit og sköpunarkraft finnist nýjar leiðir, nýjar lausnir og ný tækifæri.

Við eigum alla möguleika á að byggja upp öfluga atvinnustarfsemi á sviði heilbrigðisþjónustu og tengdrar starfsemi, þar sem í boði eru góð störf fyrir vel menntað fólk. Vaxtarsprotarnir eru víða – á Siglufirði, Ísafirði, höfuðborgarsvæðinu og raunar um allt land.

Grunnurinn er þekkingin, - hugvitið og frumkvæðið - sem þarf að virkja jafnt innan hins ríkisrekna heilbrigðiskerfis sem innan einkafyrirtækja.

Ég er því bjartsýnn á framtíðina og segi við ykkur hér að lokum: Ég skal vera öflugur liðsmaður ykkar með það að markmiði að Íslandi verði skipað á fremsta bekk meðal þjóða í heilbrigðisþjónustu, rannsóknum og framleiðslu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum