Hoppa yfir valmynd
14. mars 2001 Heilbrigðisráðuneytið

10. - 16. mars 2001

Fréttapistill vikunnar
10. - 16. mars 2001



Fimmtán sóttu um stöðu framkvæmdastjóra Heyrnar og talmeinastöðvar Íslands

Umsóknarfrestur um stöðu framkvæmdastjóra Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands rann út 7. mars sl. Alls bárust 15 umsóknir um stöðuna. Umsækjendur eru: Snorri F. Welding, Bjarni Frímann Karlsson, Ingólfur H. Ingólfsson, Sigurður Karlsson, Björn Baldursson, Helgi Hróðmarsson, Guðmundur Guðmarsson, Sigríður Snæbjörnsdóttir, Reynir Kristjánsson, Birgir Guðjónsson, Þór Gunnarsson, Þórey Eyþórsdóttir, Guðjón Ingvi Stefánsson, Hafdís Gísladóttir og Ólafur Als. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipar framkvæmdastjóra Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar til fimm ára í senn, að fengnum tillögum stjórnar, sbr. 2. gr. laga nr. 35/1980.

Notkun geðdeyfðarlyfja á Norðurlöndum er hvergi meiri en á Íslandi
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur tekið saman upplýsingar um notkun geðdeyfðarlyfja á Íslandi með samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir fyrir árin 1990 - 1999, reiknað í skilgreindum dagskömmtum á hverja 1000 íbúa á dag (DDD/1000 íbúa/dag). Líkt og áður nota Íslendingar mun meira af geðdeyfðarlyfjum en nokkur önnur Norðurlandaþjóð. Svíar koma næstir Íslendingum en engu að síður er notkun Íslendinga á þessum lyfjum næstum 30% meiri en í Svíþjóð. Á árunum 1990 - 1999 hefur notkun geðdeyfðarlyfja farið ört vaxandi hjá öllum Norðurlandaþjóðunum, en þó mest á Íslandi þar sem aukningin nemur um 253%. Ekki liggja fyrir tölur um notkun geðlyfja árið 2000 nema á Íslandi. Samkvæmt þeim eykst notkunin enn, eða um 12% árið 2000 miðað við árið á undan. Stór hluti lyfjanotkunarinnar er í flokki N06AB sem nýjustu og dýrustu lyfin fylla. Engin auljós skýring er á því hvers vegna notkun geðdeyfðarlyfja er meiri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Þá er athyglisvert að nýju geðdeyfðarlyfin koma hér að mestu sem hrein viðbót, en annarsstaðar hefur notkun eldri lyfja heldur minnkað við tilkomu nýjun lyfjanna.
Sjá samantekt >

Þjónustusamningar um rekstur nýrra heilsugæslustöðva í Reykjavík í bígerð
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur beint því til stjórnenda Heilsugæslunnar í Reykjavík að undirbúa rekstur næstu nýju heilsugæslustöðvarinnar miðað við að sjálfstæðir rekstraraðilar verði fengnir til að bera ábyrgð á starfseminni og að gerður verði við þá þjónustusamningur. Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn á Alþingi 14. mars sl. Ráðherra sagðist þar helst hafa í huga heilsugæslusvæðið í Voga- og Heimahverfi, en einnig annars staðar á höfuðborgarsvæðinu þar sem vaxandi þörf er fyrir nýjar heilsugæslustöðvar. Tveir þjónustusamingar eru í gildi innan Heilsugæslunnar í Reykjavík. Annar samningurinn er við Heilsugæsluna í Lágmúla um rekstur heilsugæslustöðvar fyrir hluta borgarinnar. Hinn samningurinn er við Læknavaktina sem hefur tekið að sér vaktþjónustu í Reykjavík, Kópavogi, Seltjarnarnesi, Garðabæ, Hafnarfirði og Bessastaðahreppi. Auk þess hefurLæknavaktin tekið að sér að hafa opna bráðamóttöku um kvöld og helgar og annast jafnframt umfangsmikla þjónustu í síma. Er í þjónustusamningnum gert ráð fyrir að hún geti létt nætursímtölum af vakthafandi heilsugæslulæknum í 14 læknishéröðum þar sem aðeins einn læknir starfar. Ráðherra sagðist í svari sínu telja sjálfsagt að styðja við mismunandi rekstrarform en að eðlilegt væri að það væri gert undir stjórn þeirra stofnana sem ábyrgar eru fyrir þjónustunni.

Réttur ellilífeyrisþega til tekjutryggingar - breyting á lögum um almannatryggingar samþykkt á Alþingi
Atkvæði voru greidd á Alþingi 15. mars sl. um frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar er varða rétt ellilífeyrisþega til tekjutrygginar. Meirihluti heilbrigðis- og trygginganefndar lagði fram breytingatillögu með lögunum þar sem skerpt var á því að þeir sem ekki hafa sótt um tekjutryggingu en eiga rétt á henni geta sótt um hana og notið sama réttar og aðrir þeir sem lögin taka til. Frumvarpið var samþykkt með breytingatillögu heilbrigðis- og trygginganefndar og taka lögin gildi 1. apríl 2001.
Skoða lögin >

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
16. mars 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum