Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 5. - 11. apríl 2003

Fréttapistill vikunnar
5. - 11. apríl 2003


Ráðherra fagnar nýgerðu samkomulagi við Öryrkjabandalagið um aldurstengingu grunnlífeyris örorkubóta

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra ræddi nýgert samkomulag við Öryrkjabandalagið í ávarpi sem hann flutti í tilefni upphafs Evrópuárs fatlaðra 5. apríl s.l. og sagði meðal annars: ,,Eitt af því ánægjulegasta sem hefur komið í minn hlut að gera sem tryggingamálaráðherra var að handsala samkomulag við formann Öryrkjabandalagsins um að aldurstengja grunnlífeyri örorkubóta og tvöfalda þennan hluta bótanna frá næstu áramótum þegar búið er að ganga frá og hnýta alla tæknilega enda málsins. Þetta var ánægjulegast af því ég hafði komist að þeirri niðurstöðu að með þessari breytingu færðumst við nær hinu síbreytilega markmiði um réttlæti. Þetta var ánægjulegast vegna þess að samkomulagið mun koma þeim mest til góða sem lengst allra þurfa að glíma við fötlun sína og þetta var ánægjulegast vegna traustsins sem ég tel að hafi tekist með yfirvöldum tryggingamála og fulltrúa Öryrkjabandalags Íslands." Ráðherra ræddi um samhjálp sem einn af hornsteinum íslensks samfélags og þá grundvallarhugsun að allir landsmenn eigi sameiginlegt almanna- og sjúkratryggingakerfi þegar heilsufar eða aðrar aðstæður hamla tekjuöflun og sagði það sameignlega ábyrgð allra að tryggja fötluðum lágmarksframfærslu og þannig möguleika á að eiga hlutdeild í lífsgæðum nútíma þjóðfélags. Ráðherra sagði enn fremur: ,,Hluti þessarar samábyrgðar er að skapa fötluðum skilyrði til atvinnuþátttöku eftir því sem geta hvers og eins leyfir. Þar á ég við að tryggja fötluðum hæfingu og endurhæfingu, að hvetja atvinnurekendur til að ráða fatlaða til vinnu, og tryggja að einstaklingurinn sjái hag í því að vinna, ekki aðeins félagslega heldur einnig fjárhagslega."
ÁVARPIÐ...

Gildistaka nýrrar reglugerðar um viðvörunarmerki á tóbaki og hámark skaðlegra tóbaksefna
Tekið hefur gildi ný reglugerð nr. 236/2003 um viðvörunarmerkingar á tóbaki og mælingar og hámark skaðlegra tóbaksefna. Reglugerðin er samin í kjölfar breytinga á lögum um tóbaksvarnir nr. 6/2002 sem samþykkt voru á Alþingi 10. mars sl. vegna innleiðingar á tilskipun 2001/37/EB sem stefnir að samræmingu stjórnvaldsfyrirmæla um merkingar tóbaksvöru og hámark tjöru sem sígarettur mega gefa frá sér. Fyrsta til ellefta grein reglugerðarinnar um merkingar eru samhljóða ákvæðum eldri reglugerðar nr. 719/2002 sem nú fellur úr gildi. Viðbótarákvæði í nýju reglugerðinni eru um hámark tiltekinna skaðlegra efna sem sígarettur, markaðssettar hér á landi, mega gefa frá sér og ákvæði um mælingar og prófanir þeirra efna. Einnig er í nýju reglugerðinni kveðið á um að ráðherra geti í samráði við landlækni krafist þess að innflytjendur geri ýmsar aðrar prófanir til að meta magn annarra efna sem tóbaksvörur gefa frá sér til að meta áhrif þeirra á heilsufar. Frá 30. september 2003 er bannað að hafa á umbúðum tóbaksvara heiti, vörumerki eða annan texta eða tákn sem gefur í skyn að varan sé ekki eins skaðleg og aðrar tóbaksvörur. Tóbaksframleiðendum og innflytjendum er skylt að leggja fram skrá yfir innihaldsefni ásamt ýmsum eiturefnafræðilegum upplýsingum.
REGLUGERÐIN...

Eftirlit með einkareknum skurðstofum
Landlæknisembættið hefur í samvinnu við Svæfinga- og gjörgæslulæknafélag Íslands gefið út gæðastaðal fyrir svæfingar og deyfingar á einkareknum skurðstofum og tekur hann gildi 1. janúar 2004. Frá þeim tíma skulu einkaskurðstofur fullnægja staðlingum um útbúnað og framkvæmd aðgerða. Frá þessu er sagt á heimasíðu landlæknisembættisins. Eftirlit með einkareknum skurðstofum verður í höndum þriggja manna nefndar á vegum landlæknisembættisins. Henni er ætlað að gera vettvangskönnun á nýjum skurðstofum fyrir opnun þeirra og mæla með eða á móti starfsleyfi. Á sama hátt mun nefndin fjalla um endurnýjun starfsleyfa.
NÁNAR...

Geðheilbrigðisþjónusta við börn og ungmenni verður stóraukin
Ríkisstjórnin hefur samþykkt endanlegar tillögur um að stórauka geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni. Málið var lagt fyrir ríkisstjórnarfund í vikunni og hefur verið til skoðunar síðan. Með samþykktinni er geðheilbrigðisþjónusta við börn og unglinga sett sem forgangsmál á þessu sviði. Tillögurnar fela meðal annars í sér stækkun unglingadeildar BUGL í samræmi við fyrri ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Gert er ráð fyrir að stækkuð legudeild unglinga fái inni þar sem nú er göngudeild og þannig fást 6 - 8 viðbótarlegurými. Í öðru lagi er gert ráð fyrir breytingu á vinnufyrirkomulagi göngudeildarinnar þannig að hún geti í auknum mæli sinnt þjónustu við börn og unglinga með geðraskanir utan sjúkrahússins sem búa utan höfuðborgarsvæðisins. Þá er einnig gert ráð fyrir aukinni þjónustu við börn í heimahúsum á höfuðborgarsvæðinu þannig að þeim sé kleift að vera sem lengst utan stofnana. Miðað við gefnar forsendur verður kostnaður vegna aukinnar geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni rúmar 70 milljónir í ár og um 76 milljónir króna á næsta ári, eða samtals um 150 milljónir króna á næstu tuttugu mánuðum.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
11. apríl 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum