Hoppa yfir valmynd

12. Yfirlit yfir lagabreytingar

Lagabreytingar vegna tekjuhliðar fjárlagafrumvarpsins:

Lög nr. 90/2003, um tekjuskatt. Lögð verður til tímabundin eins prósentustigs hækkun til eins árs á tekjuskatti lögaðila.

Lög nr. 90/2003, um tekjuskatt. Lagt verður til að tímabundnar útreikningsreglur og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta verði framlengdar óbreyttar um eitt ár.

Lög nr. 129/2009, um umhverfis- og auðlindaskatta. Lagt verður til að fjárhæðir kolefnisgjalds verði hækkaðar um 3,5% til samræmis við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2024.

Lög nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald. Lagt verður til að olíugjald, kílómetragjald og sérstakt kílómetragjald hækki um 3,5% í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2024.

Lög nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Lagt verður til að almennt og sérstakt vörugjald af bensíni hækki um 3,5% í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2024.

Lög nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Lagt verður til að bifreiðagjald hækki um 3,5% í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2024 auk hækkunar á lágmarksfjárhæð gjaldsins sem lagt er á fólksbíla.

Lög nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki. Lagt verður til að áfengis- og tóbaksgjald hækki um 3,5% í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2024.

Lög nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Lögð verður til 3,5% hækkun á sérstöku gjaldi til Ríkisútvarpsins í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2024.

Lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Lögð verður til 3,5% hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2024.

Lög nr. 162/2002, um úrvinnslugjald. Lögð verður til breyting á fjárhæðum úrvinnslugjalda í samræmi við tillögu stjórnar Úrvinnslusjóðs.

Lög nr. 70/2012, um loftslagsmál. Lagt verður til að fjárhæð losunargjalds vegna gjaldskyldrar losunar skv. 4. mgr. 14. gr. verði breytt til samræmis við breytingar á meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. júlí árið áður.

Lög nr. 113/1990, um tryggingagjald. Lögð er til framlenging á afnámi tekna hjá starfsendurhæfingarsjóðum, sem starfræktir eru á grundvelli laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, af almennu tryggingagjaldi.

Lög nr. 89/2019, um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð. Lögð verður til hækkun á gjaldhlutfalli úr 3,5% í 5%. Miðað verði áfram við að 1/3 af gjaldinu fari sem framlag til Fiskeldissjóðs sem er í samræmi við það sem kemur fram í greinargerð með gildandi lögum.

Lagabreytingar vegna gjaldahliðar fjárlagafrumvarpsins:

Lög nr. 91/1987, um sóknargjöld o.fl. Lagt verður til að festa fjárhæð sóknargjalda við 1.107 kr. á einstakling á mánuði en samkvæmt því mun ákvörðuð lækkun sóknargjaldsins nema um 7,1%.

Lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Lögð verður til breyting í því skyni að koma í veg fyrir víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða fyrir árið 2024.

Lög nr. 166/2011, um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Lögð verður til breyting á hlutfalli af álagningarstofni sem gjaldskyldir aðilar skulu greiða miðað við áætlaðan rekstrarkostnað stofnunarinnar fyrir árið 2024 með hliðsjón af áætlaðri stöðu í árslok 2023.

Lög nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og skilavald. Lögð verður til breyting á eftirlitsgjaldi í samræmi við áætlanir Seðlabanka Íslands um rekstrarkostnað við fjármálaeftirlit á árinu 2024.

Lög nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Lögð verður til framlenging á bráðabirgðaákvæðum þar sem kveðið er annars vegar á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2024 og hins vegar að atvinnurekendur, þeir sem stunda sjálfstæða starfsemi og lífeyrissjóðir greiði áfram sama hlutfall af stofni til iðgjalds á árinu 2024, eða 0,10%.

Lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Lögð er til framlenging á ákvæði til bráðabirgða um samanburð á útreikningi kostnaðarþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Lögð verður til framlenging á því að Framkvæmdasjóði aldraðra sé heimilt að verja fé til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða.

Lög nr. 132/2005, um fjarskiptasjóð. Lögð verður til breyting á gildistíma laganna og sjóðnum þar með tryggðar tekjur með framlögum úr ríkissjóði sem til eru komnar vegna gjalda fyrir afnot af tíðnum.

Lög nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Lögð verður til breyting á ákvæði til bráðabirgða í því skyni að koma í veg fyrir víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða fyrir árið 2024.

Lög nr. 100/2007, um almannatryggingar. Lögð verður til breyting á 3. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í því skyni að koma í veg fyrir víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða fyrir árið 2024.

Lög nr. 100/2007, um almannatryggingar. Lögð verður til framlenging á 1. tölul. bráðabirgðaákvæðis um frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna.

Lög nr. 49/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Lögð verður til framlenging um eitt ár á II. bráðabirgðaákvæði sem kveður á um heimild til að nota fé ofanflóðasjóðs til að taka þátt í greiðslu kostnaðar við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða.

Lög nr. 73/1972, höfundalög, Lögð verður til breyting á tollnúmerum til að tryggja að rétthafar fái þær bætur sem þeim eru ætlaðar í ákvæðinu. Þá verður lagt til að í bráðabirgðaákvæði verði kveðið á um bætur vegna áranna 2022 og 2023 vegna óleiðréttra tollskrárbreytinga þau árin.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum