Hoppa yfir valmynd
10. september 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Fjárlagafrumvarpið: Áhersla á almannatryggingar og lífeyrismál

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Alls renna 122,6 milljarðar króna til verkefna á sviði félags- og húsnæðismála árið 2015 samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Þetta er aukning sem nemur 2,841 milljörðum frá þessu ári eða um 2,4%. Bætur lífeyrisþega eru varðar og 650 milljónum varið til hækkunar frítekjumarks á lífeyrissjóðstekjur ellilífeyrisþega.

Neyslu- og rekstrartilfærslur vega þyngst í heildarútgjöldum til félags- og húsnæðismála, eða 92,6%. Þar undir heyra bætur almannatrygginga, atvinnuleysistrygginga og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

„Lífeyrisþegar fengu á þessu ári mikilvægar leiðréttingar á kjörum sínum þegar dregnar voru til baka skerðingar síðustu ríkisstjórnar á greiðslum til þeirra. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs stend ég vörð um þessar leiðréttingar,“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. Að auki er gert ráð fyrir 650 milljóna króna framlagi vegna hækkunar frítekjumarks á lífeyrissjóðstekjur ellilífeyrisþega við útreikning bóta almannatrygginga.

Langstærstur hluti útgjalda til málaflokka sem heyra undir félags- og húsnæðismálaráðherra felast í neyslu- og rekstrartilfærslum og því nær útilokað að ná áformum stjórnvalda um 1,3% hagræðingu án þess að skerða bætur. Því er ráðgert að stytta atvinnuleysisbótatímabilið úr 36 mánuðum í 30, til samræmis við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum. Þessi aðgerð skilar hagræðingu sem nemur rúmum 1,1 milljarði króna.

Minnkandi atvinnuleysi

Jafnt og þétt dregur úr atvinnuleysi sem leiðir til lækkunar á útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Því er spáð að þessi þróun haldi áfram og að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs lækki því á næsta ári sem nemur um 900 milljónum króna.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir ánægjulega þróun á vinnumarkaði og allar líkur á því að hún haldi áfram: „Mestu skiptir að eyða langtímaatvinnuleysi og því legg ég áherslu á að móta sérstök vinnumarkaðsúrræði til að mæta þeim hópum atvinnuleitenda sem mest þufa á aðstoð að halda til að komast í vinnu og virkni. Framlög til vinnumarkaðsúrræða verða aukin um 100 milljónir króna í þessu skyni samkvæmt fjárlagafrumvarpinu og í heildina verða um 600 milljónir króna til ráðstöfunar í slík úrræði árið 2015.“

Málefni fatlaðs fólks

Útgjöld til málefna fatlaðra verða aukin um 75 milljónir króna, þar af verður um 50 milljónum varið í framvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks og um 25 milljónum króna til undirbúnings að sameiningu stofnana sem veita fötluðu fólki þjónustu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum