Hoppa yfir valmynd
19. september 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Úrskurðarnefndir sameinaðar í eina úrskurðarnefnd velferðarmála

Unnið að úrskurði
Unnið að úrskurði

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, kynnti ríkisstjórn í dag lagafrumvarp þar sem lagt er til að sjö úrskurðar- og kærunefndir á málefnasviði ráðuneytisins verði sameinaðar í eina úrskurðarnefnd velferðarmála. Markmiðið er hagræðing og aukin skilvirkni.

Nefndirnar sem fyrirhugað er að sameina eru; kærunefnd barnaverndarmála, kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, kærunefnd húsamála, úrskurðarnefnd almannatrygginga, úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála og úrskurðarnefnd fæðingar - og foreldraorlofsmála.

Kærum til þessara nefnda hefur fjölgað mikið á síðustu árum og voru samtals rúmlega 900 á síðasta ári. Fjármagn hefur ekki verið aukið til nefndana í samræmi við fjölgun mála sem hefur leitt til þess að afgreiðslutími þeirra hefur lengst og ekki hefur verið hægt að kveða upp úrskurði innan lögbundins tímafrests.

„Þetta varðar mikilvæg réttindi borgaranna“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. „Það hafa ítrekað verið gerðar athugasemdir við langan afgreiðslutíma en með hagræðingu af sameiningu nefndanna og rúmum 39 milljónum króna í auknar fjárheimildir samkvæmt fjárlagafrumvarpinu bind ég vonir við að stytta megi verulega bið eftir úrskurðum. Markmiðið er að tryggja betur óháða og vandaða endurskoðun stjórnvaldsákvarðana innan ásættanlegs tíma.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum