Hoppa yfir valmynd
21. júní 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Fjármögnun Landspítala tengd umfangi veittrar þjónustu

Bjarni Benediktsson, Katrín E Hjörleifsdóttir, Páll Matthíasson og Kristján Þór Júlíusson - mynd

Samningur um innleiðingu framleiðslutengdrar fjármögnunar Landspítala sem byggist á alþjóðlega DRG flokkunarkerfinu1 var undirritaður í dag. Markmiðið er að tryggja árangursríka heilbrigðisþjónustu og hagkvæma nýtingu fjár. Samningurinn grundvallast á stefnu heilbrigðisráðherra á sviði sjúkrahúsþjónustu. Samningsaðilar eru Sjúkratryggingar Íslands og Landspítalinn.

Helstu markmið eru:

  • Gegnsærri aðferðir við fjármögnun þar sem þjónustan er kostnaðargreind.
  • Skynsamlegri úthlutun fjármagns í heilbrigðiskerfinu og betri nýting fjármuna.
  • Aukin skilvirkni og bætt eftirlit með gæðum og hagkvæmni þjónustunnar.
  • Að skilja betur á milli hlutverka kaupanda og seljanda þjónustunnar.

Þessi fjármögnunaraðferð er nýmæli hér á landi en hefur tíðkast lengi víða erlendis, m.a. í sjúkrahúsrekstri annars staðar á Norðurlöndunum. Mikil undirbúningsvinna hefur farið fram síðustu ár innan Landspítalans í tengslum við flokkun og skráningu samkvæmt DRG-kerfinu og er sú vinna forsenda samningsins sem undirritaður var í dag.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að þessi breytta fjármögnunaraðferð muni bæta allar forsendur við úthlutun fjár til Landspítala: „Þetta mun stuðla að auknum gagnkvæmum skilningi í samskiptum aðila vegna fjármögnunar sjúkrahússins og efla faglega og fjárhagslega stjórnun, hvort sem í hlut eiga stjórnendur Landspítala eða heilbrigðisyfirvöld“ sagði ráðherra við undirritun samningsins í dag.

Afkastamiðuð framlög byggð á raunverulegum kostnaði

Framleiðslutengd fjármögnun felur í sér að í stað þess að byggja fjármögnun sjúkrahúss alfarið á föstum fjárlögum sem ákveðin eru ár fram í tímann, er meginhluti fjármögnunarinnar byggður á ítarlegri kostnaðargreiningu þeirra verka sem þar eru unnin og teljast til klínískrar starfsemi. Með því eiga framlögin að samræmast raunverulegum kostnaði þannig að auðvelt verði að sjá hvernig fjármunum er varið og hvernig þeir nýtast. Við fjármögnun Landspítala er gert ráð fyrir að meginhluti rekstrarins verði framleiðslutengdur (þ.e. klíníski hlutinn), en verkefni sem t.d. tengjast hlutverki hans á sviði kennslu og vísinda, stofnkostnaður, meiriháttar viðhald o.fl. verða fjármögnuð samkvæmt föstum fjárlögum, auk sértekna og gjafa.

Fastur og breytilegur hluti framleiðslutengdrar þjónustu

Samningur Landspítala og Sjúkratrygginga Íslands miðast við að framleiðslutengd fjárframlög til sjúkrahússins verði tvíþætt og skiptist í fastar greiðslur (40%) og breytilegar greiðslur (60%). Breytilegi hlutinn reiknast út frá umfangi þjónustunnar, þ.e. fjölda verka og DRG-greiðslueininga sem að baki liggja. Fasti hlutinn tekur mið af áætluðu umfangi þjónustunnar, þ.e. fjölda verka sem samið er um fyrirfram. Fastar greiðslur verða greiddar fyrirfram, 1. dag hvers mánaðar en breytilegu greiðslurnar fara fram samkvæmt bráðabirgðauppgjöri hvers liðins mánuðar og síðan með heildaruppgjöri að ári liðnu.

Dæmi um skiptingu á heildarumfangi rekstrar Landspítala og fjármögnun samkvæmt breyttu kerfi:

80% framleiðslutengd fjármögnun (DRG) 20% óháð framleiðslu
Fastur hluti (40%) miðast við umsamda áætlaða framleiðslu. Ríkisframlag óháð DRG fjármögnun + styrkir, gjöld og gjafir til að fjármagna kennslu, rannsóknir, o.fl. verkefni, auk stofnkostnaðar og viðhaldsverkefna.
Breytilegur hluti (60%) miðast við raunframleiðslu.

Gildistími og endurskoðun samningsins

Samningurinn gildir frá 1. janúar þessa árs og verður endurskoðaður á komandi hausti. Á þessu ári er unnið eftir samningnum til reynslu og hann mun því ekki hafa fjárhagsleg áhrif á rekstur Landspítala. Stefnt er að því að árið 2017 komi samningurinn að fullu til framkvæmda.


1) DRG (Diagnosis Related Groups) er heiti alþjóðlegs flokkunarkerfis sem notað er á sjúkrahúsum til að búa til einsleita sjúklingaflokka sem hver um sig tekur mið af sjúkdómsgreiningu sjúklings, aðgerðum, meðferðum, kyni, aldri og eðli útskriftar. Hver flokkur er verðlagður sem gerir kleift að skilgreina allan kostnað að baki hverri aðgerð/meðferð og sjá nákvæmlega hvernig fjármunum er varið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum