Hoppa yfir valmynd
24. október 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp félagsmálaráðherra við afhendingu styrkja úr Jafnréttissjóði

Ágætu gestir.

Sá atburður sem við erum viðstödd hér í dag er í mínum huga tákn um framsýni og ný vinnubrögð. Það hefur lengi sætt gagnrýni að ekki hafi verið til nægilegar rannsóknir á sviði jafnréttismála en vandaðar rannsóknir og samanburðarrannsóknir eru lykill að stefnumótun og vinnubrögðum sem hafa áhrif.

Í tilefni af 30 ára afmælisdegi Kvennafrídagsins fyrir ári síðan og um leið til að undirstrika samstöðu með konum um land allt ákvað ríkisstjórnin að setja á laggirnar nýjan sjóð, Jafnréttissjóð. Markmið sjóðsins er að tryggja að hér á landi verði unnar vandaðar kynjarannsóknir en sérfræðingar telja að rannsóknir á því sviði geti verið undirstaðan að bættri stöðu kvenna og breyttri karlamenningu og þar af leiðandi stuðla að framgangi jafnréttis kynjanna. Var ákveðið að úthlutað yrði úr sjóðnum árlega á Kvennafrídeginum sem er í dag 24. október.

Mér finnst sjálfum slæmt sem stjórnmálamanni að þurfa að taka ákvarðanir um verkefni og fjárveitingar án þess að fyrir liggi hvaða árangri megi reikna með að við náum með þeim. Auðvitað er það ekki svo að við getum alltaf vitað það fyrirfram og við verðum líka að leyfa okkur að vinna að þróun og nýsköpun. En rannsóknir sem grundvallast á íslensku samfélagi og íslenskum veruleika eiga sér ekki langa sögu og því finnst mér sérstaklega ánægjulegt að eiga hér hlut að máli í dag.

Menn renna nokkuð blint í sjóinn við ný verkefni eins og þetta. Það var því mjög gott að heyra hve margar frambærilegar umsóknir bárust stjórn sjóðsins. Þær sýna okkur glöggt að hér á landi starfa margir góðir sérfræðingar á sviði kynjarannsókna, konur jafnt sem karlar. Þá var ánægjulegt að sjá hve margt ungt fólk er að hasla sér völl á þessu sviði við hlið þeirra sem eldri og reyndari eru. Góð blanda þar á ferð.

Við stofnun jafnréttissjóðsins var ákveðið, að minnsta kosti fyrst um sinn, að lögð yrði sérstök áhersla á stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Það á bæði við um launajafnrétti og samhæfingu fjölskyldu- og atvinnulífs og þá einkum áhrifa frá fæðingarorlofskerfinu okkar, sem hefur vakið athygli víða um heim vegna mikillar þátttöku feðra.

Niðurstaða nýrrar viðamikillar launarannsóknar sem félagsmálaráðuneytið fékk í hendur í síðustu viku sýna að það var rétt að leggja sérstaka áherslu á þetta svið. Við sáum þar að viss stöðnun virðist ríkja varðandi launajafnrétti en á sama tíma eru ýmsar vísbendingar um jákvæðar breytingar, meðal annars með tilkomu feðraorlofsins. Við eigum að nota öll tæki til þess að færa okkur fram á veginn og ég hlakka til að hlýða á niðurstöður þeirra rannsókna sem nú eru að hefjast með styrkjum úr þessum nýja jafnréttissjóði að ári liðnu.

Um leið og ég vil óska þeim sem munu hljóta styrk hér í dag innilega til hamingju og velfarnaðar í störfum sínum vil ég nota þetta tækifæri til að óska konum sérstaklega til hamingju með daginn. Mér finnst nú heldur ekki úr vegi að óska körlum einnig til hamingju þar sem það er skoðun mín að sá helmingur landsmanna hafi ekki síður haft hag af jafnréttisbaráttunni þótt ef til vill hafi komið fram á öðrum sviðum en hjá konum, sem minnir okkur á það að jafnrétti varðar okkur öll.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum