Hoppa yfir valmynd
24. október 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðstefna vinnuverndarvikunnar 2007

Ágætu fundarmenn.

Ávarp félagsmálaráðherra á ráðstefnu vinnuverndarviku 2007Árið 2000 tók Vinnueftirlit ríkisins fyrst þátt í Evrópsku vinnuverndarvikunni með því að standa fyrir formlegri vinnuverndarviku hér á landi sem gert hefur verið á hverju ári.

Sú vinnuverndarvika sem nú fer í hönd ber yfirskriftina „Hæfilegt álag er heilsu best“ en ætlunin nú líkt og áður er að beina athyglinni að álagseinkennum sem starfsmenn finna fyrir við vinnu sína. Eins og við vitum öll er of algengt að starfsfólk finni fyrir líkamlegum álagseinkennum, svo sem höfuðverk, vöðvabólgu, bakverkjum og liðverkjum, sem rekja má til vinnu. Vanlíðan fólks sem á við slík starfstengd álagseinkenni að etja er mikil, svo ekki sem minnst á þann kostnað sem leggst á fyrirtæki og reyndar þjóðfélagið í heild vegna veikinda og fjarvista fólks frá vinnu af þessum sökum. Of mikið álag á starfsmenn leiðir einnig til aukinnar starfsmannaveltu fyrirtækja eins og við þekkjum.

Forvarnir sem eru til þess fallnar að koma í veg fyrir of mikið álag á starfsmenn skipta því miklu máli. Ef þeim er ekki sinnt getur það reynst fyrirtækjum dýrkeypt enda þótt til skamms tíma litið geti það komið út sem sparnaður í rekstrarkostnaði fyrirtækja.

Við höfum átt mikilli velgengni að fagna í efnahagslífi þjóðarinnar hin síðustu missiri þar sem mörg fyrirtæki hafa notið sín og sýnt töluverðan hagnað. Við megum hins vegar ekki gleyma undirstöðuatriðum velgengninnar sem er mannauðurinn, fólkið sem starfar innan fyrirtækjanna og vinnur verkin.

Þrátt fyrir kröfur um aukin afköst og meiri hraða mega fyrirtækin ekki missa sjónar af mikilvægi vinnuverndar.

Erlendir starfsmenn eiga mikinn þátt í því að atvinnulíf okkar Íslendinga hefur blómstrað á undanförnum árum. Við þurfum að huga sérstaklega að velferð þeirra við störf sín og gæta þess að þeir skilji vel þær öryggisreglur sem gilda á vinnustöðunum sem og þær leiðbeiningar sem liggja fyrir um störfin. Við verðum að gæta þess vandlega að erlendir starfsmenn er hingað koma sem ef til vill kunna að vera vanir lakari skilyrðum heima fyrir en hér tíðkast og gera því ekki sjálfir athugasemdir við aðstæður sínar, þurfi ekki að þola lakari aðbúnað, hollustuhætti eða öryggi en reglur okkar gera kröfur um.

Fyrirtæki þar sem starfsmenn eru af mörgu þjóðerni þurfa því að gæta vel að því að vinnuvernd þeirra nái til allra starfsmanna en ekki einungis til þeirra sem tala og skilja íslensku. Þetta getur kallað á ný vinnubrögð á þessu sviði innan fyrirtækjanna en mikilvægt er að vinnuverndarstarfið sé aðlagað vel að breyttum aðstæðum. Ég legg áherslu á að eftirlit Vinnueftirlitsins beinist mjög að vinnuskilyrðum erlendra starfsmanna á komandi missirum.

Í tilefni kvennadagsins á morgun, 24. október, vil ég jafnframt nefna í þessu samhengi umönnunarstörfin sem eru í raun grundvöllurinn að velferðarsamfélagi okkar. Þau störf eru oftar en ekki líkamlega erfið en taka ekki síður á andlega.

Ég hef reyndar miklar áhyggjur af því ástandi sem nú ríkir meðal þessara stétta. Manneklan er víða farin að segja verulega til sín þannig að starfsfólkið býr við mun meira álag en í eðlilegu ástandi. Mér hefur verið tjáð að staðan sé sums staðar svo slæm að fyrr en vari geti menn átt von á því fjöldaflótti bresti á þar sem manneklan hefur verið viðvarandi. Einstaklingarnir sem sinna þessum störfum séu einfaldlega við það að brotna niður andlega og líkamlega. Hvað yrði um velferðarkerfið þá?

Við verðum að huga vel að þessu og vil ég leggja á það áherslu hér að ég tel mjög brýnt að markvisst verði farið í að endurmeta störf þessara kvenna í þeirri von að fleiri sjái sér hag í því að sinna þessum mikilvægum störfum.

Um leið og við verðum að bæta launakjör umönnunarstéttanna verðum við einnig að huga að starfsumhverfi þeirra svo þeim líði sem best í starfi. Við verðum að muna að þrátt fyrir allt er það sem kemur í launaumslagið ekki það eina sem hefur áhrif á starfsánægju fólks heldur einnig gott og heilsusamlegt vinnuumhverfi.

Eyjólfur Sæmundsson forstjóri Vinnueftirlits ríkisinsÁ þessari ráðstefnu hér í dag mun Vinnueftirlit ríkisins veita viðurkenningar til fyrirtækja sem hafa sýnt góða frammistöðu á þessu sviði með því að vinna markvisst að forvörnum, meðal annars með gerð áhættumats vegna líkamlegs álags á vinnustöðum sínum, lögum samkvæmt. Vil ég nota þetta tækifæri hér til að óska þessum fyrirtækjum til hamingju og jafnframt hvetja önnur fyrirtæki að fara að fordæmi þeirra.

Um leið og ég segi þessa vinnuverndarviku setta vonast ég til að sem flest fyrirtæki sjái sér hag í að uppfylla skyldur sínar samkvæmt vinnuverndarlögum og þá sérstaklega um gerð skriflegrar áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem felur bæði í sér gerð áhættumats og áætlun um heilsuvernd. Þótt blásið sé til sérstaks átaks í vikunni þarf vinnan að bættu starfsumhverfi ávallt að vera í gangi. Það þarf stöðugt að vera á vaktinni um að hlutirnir séu í lagi svo öllum líði vel í starfi og fái notið sín sem best.

Gangi ykkur vel.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum