Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Afhjúpun minnisvarða um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur

Góðir gestir.

Það er ekki að ástæðulausu að minnisvarðanum um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur var valinn staður hér við Þingholtsstræti. Þegar Bríet kom fyrst suður til Reykjavíkur sem ung stúlka leigði hún herbergi í húsi hér við götuna. Þar skrifaði hún sína fyrstu blaðagrein og þar samdi hún sinn fyrsta fyrirlestur um hagi og réttindi kvenna sem hún flutti undir lok árs 1887. Þar með varð hún fyrst kvenna til að ganga fram fyrir skjöldu og tala opinberlega fyrir kvenréttindum. Í þessu sama húsi bjó Hannes Hafstein síðar ráðherra og móðir hans Kristjana en samvinna þeirra Bríetar og Hannesar átti síðar eftir að skila kvennabaráttunni stórmerkum áföngum.

Það var hér við þessa götu sem Bríet settist að ásamt manni sínum Valdimar Ásmundssyni í húsinu númer 18. Þar ól hún börnin sín tvö upp og þar vann hún fyrir þeim eftir að hún varð ekkja, meðal annars með því að leigja út hverja skonsu. Úr Þingholtsstræti 18 stýrði hún útgáfu Kvennablaðsins um áratugaskeið, þar var Kvenréttindafélagið stofnað og þar var lagt á ráðin um stofnun fyrsta verkakvennafélagsins á Íslandi sem síðar hlaut nafnið Framsókn.

Bríet var þó ekki eina kvenréttindakonan sem bjó við þessa götu. Hér bjuggu Sigríður Hjaltadóttir Jensson sem var einn af stofnendum Kvenréttindafélagsins, hér bjó Kristín Vídalín Jakobsson formaður Hringsins sem átti eftir að leggja framboðshreyfingu kvenna mikið lið og hér bjó Jónína Jónatansdóttir fyrsti formaður Verkakvennafélagsins Framsóknar.

Eflaust hefur margt verið spjallað í eldhúsum og stofum við þessa kvenréttindagötu. En það var ekki bara talað, það var framkvæmt.

Það hefur eflaust verið létt yfir Bríeti og samstarfskonum hennar fyrir nákvæmlega 100 árum.

Kvenréttindafélagið hafði starfað frá því í lok janúar og niðri á Alþingi var verið að ræða frumvarp sem veitti giftum konum kjósenda í Reykjavík og Hafnarfriði kosningarrétt og kjörgengi til sveitastjórna. Það var samþykkt 22. nóvember 1907. Kvenfélög bæjarins hófu þegar í stað umræður um hvernig koma mætti konum inn í bæjarstjórnina í Reykjavík. Konur urðu að eignast rödd og hafa áhrif. Þær þurftu að sýna og sanna að þær vildu ekki bara mannréttindi, þær ætluðu að nýta þau til góðra verka.

Eftir árangurslausar viðræður við ýmis karlafélög bæjarins kom í ljós að ekkert þeirra var reiðubúið til að tryggja konum örugg sæti. Þar með var teningunum kastað, konur urðu að bjóða fram sjálfar.

Í lok janúar á næsta ári verða 100 ár liðin frá því að fyrstu konurnar voru kjörnar í bæjarstjórn Reykjavikur. Bríet Bjarnhéðinsdóttir var ein þeirra. Bríet var þeirrar skoðunar eins og svo margir aðrir að leið kvenna til aukinna réttinda og jafnrar stöðu í þjóðfélaginu lægi um menntaveginn. Það varð því að opna öll þau hlið sem voru konum lokuð á menntabrautinni. Það var búið að opna eina menntaskólann, hvað mátti bæta í barnaskólunum, spurði Bríet.

Öll börn voru skyldug til að ganga í skóla en sátu þau þar við sama borð? Fyrsta tillagan sem Bríet lagði fram í bæjarstjórn fjallaði um jafnrétti til náms.

Hún lagði til að hafin yrði sundkennsla fyrir stúlkur og var það samþykkt. Þetta var ekki bara spurning um jafnrétti, heldur heilbrigði, útiveru og hrausta líkama. Síðan hafa drengir og stúlkur setið við sama borð hvað varðar kennslu í leikfimi og sundi. Þetta var lítið skref en mikilvægt.

Við trúum því enn og vitum að menntun er afar mikilvæg og að skólinn getur lagt mikið af mörkum við að ala börn upp í anda jafnréttis og lýðræðis. Við vitum þó að enn er pottur brotinn og að verulega þarf að taka á hvað varðar jafnréttisuppeldi. Náms- og starfsval er enn mjög kynskipt hér á landi sem þýðir að hæfileikar fólks eru ekki að nýtast sem skyldi.

Kynbundið náms- og starfsval ýtir undir launamisrétti og lakari stöðu kvenna þar sem hefðbundin kvennastörf hafa löngum verið til færri fiska metin en hefðbundin störf karla. Þessu þarf að breyta.

Það er því gleðilegt að geta skýrt frá því að nú er að fara af stað samvinnuverkefni margra aðila um jafnréttisfræðslu í leikskólum og grunnskólum. Verkefnið verður unnið í skólum í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og á Akureyri.

Það eru félagsmálaráðuneytið, Jafnréttisstofa og Jafnréttisráð sem eru aðilar að verkefninu ásamt fyrrnefndum sveitarfélögum. Margir aðilar styrkja verkefnið enda verður æ fleirum ljóst að jafnrétti kynjanna kemur ekki af sjálfu sér. Það verður að vinna að því með markvissum aðgerðum.

Jafnréttisfræðsluverkefnið verður tvíþætt. Annars vegar verður komið upp vefsíðu þar sem kennarar og aðrir sem að verkefninu vinna geta leitað sér upplýsinga og leiðbeininga. Hins vegar verða leik- og grunnskólar fengnir til að taka að sér tilraunaverkefni sem byggjast á því efni sem verður að finna á vefsíðunni.

Það er von þeirra sem að verkefninu standa að það muni ýta undir jafnréttisfræðslu í skólum og að innan þess verði til verkfæri sem duga kennurum og nemendum til að þróa hugarfar jafnréttis og sýna það í reynd.

Það var löngu tímabært að minnast Bríetar Bjarnhéðinsdóttur með því að reisa henni og öðrum brautryðjendum kvenréttindabaráttunnar minnisvarða. Við minnumst þeirra þó best með því að halda verki þeirra áfram og tryggja konum og körlum jöfn tækifæri. Við verðum að sjá til þess að konur sitji við sama borð og karlar þegar kemur að völdum og virðingu.

Megi minning Bríetar Bjarnhéðinsdóttur verða okkur öllum áminning um að halda ótrauð áfram í átt til samfélags jafnréttis og jöfnuðar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum