Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðstefnan „Réttindi barna við skilnað“

Forseti Íslands. Ágætu ráðstefnugestir.

Ég vil þakka fyrir að fá þetta tækifæri til að vera með ykkur hér í dag á degi feðra sem félagsmálaráðuneytið beitti sér fyrir að yrði komið á hér á landi. Ég vil jafnframt þakka ykkur fyrir þá áhugaverðu dagskrá sem þið hafið hér sett saman og fyrir það að setja málefni barna á dagskrá á degi feðra. Það ber vott um rétta forgangsröðum hjá ykkur.

Málaflokkar félagsmálaráðuneytisins eru fjölbreyttir og áhugaverðir en að mínu mati er ekkert svið mikilvægara en málefni barna og fjölskyldna þeirra. Með velferð barna og unglinga leggjum við grunn að framtíð okkar allra og samfélagsins í heild. Þessi mál eiga að vera í forgangi og við stjórnmálamennirnir eigum að sýna það í verki.

Ég er því afar ánægð með að hafa náð fram því forgangsmáli mínu að hér á landi yrði í fyrsta sinn samþykkt og unnið samkvæmt heildstæðri aðgerðaáætlun í þágu barna og ungmenna. Þetta hafa önnur Norðurlönd gert og þetta áttum við að vera búin að gera fyrir mörgum árum.

Þetta er í samræmi við áherslur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að málefni yngstu og elstu kynslóðanna séu forgangsmál ríkisstjórnarinnar og hún mun leggja áherslu á að auka jöfnuð með því að bæta kjör þeirra hópa sem standa höllum fæti. Sérstakur kafli í stefnuyfirlýsingunni ber yfirskriftina „Barnvænt samfélag“.

Þegar hefur verið skipaður samráðshópur fulltrúa félagsmála-, heilbrigðis- og tryggingamála-, dóms- og kirkjumála-, fjármála- og menntamálaráðuneyta undir forystu Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu, sem ætlað er að fylgja áætluninni eftir og samræma aðgerðir stjórnvalda. Það er ærið verkefni og þegar eru nokkur mikilvæg verkefni komin í framkvæmdafarveg.

Í aðgerðaáætluninni er meðal annars gert ráð fyrir því að á samráðsvettvangi ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga verði mótaðar tillögur til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Lögð verður á það áhersla að tillögurnar varði meðal annars styttri og sveigjanlegri vinnutíma og hvernig tryggja megi að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum vegna veikinda eða fötlunar.

En hvernig er nútímafjölskyldan? Hvernig getum við nálgast barnið í nútímafjölskyldunni og velferð þess?

Eins og kunnugt er hefur orðið mikil breyting á fjölskyldugerð hér á landi og annars staðar að undanförnu. Þær breytingar hljóta að kalla á nýjar áherslur innan og utan fjölskyldna. Hin nýja aðgerðaáætlun endurspeglar áherslur á fjölskylduvænt samfélag og jafnvægi milli hagsmuna barnsins og réttinda foreldra. Þetta jafnvægi er sérstaklega viðkvæmt við skilnað foreldra sem staðið hafa saman að uppeldi barna sinna í hjónabandi eða sambúð. Við þær aðstæður verða foreldrar að skilgreina hlutverk sín upp á nýtt, finna nýja verkaskiptingu eða nýtt jafnvægi þar sem hagsmunir barnsins eru settir í öndvegi. Ekki leikur vafi á því að umfjöllun um breytta fjölskyldugerð og samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs verður eitt mikilvægasta viðfangsefni okkar á næstu árum og áratugum. Við erum að ganga í gegnum miklar breytingar og þá meðal annars viðhorfsbreytingar á milli kynslóða.

Við verðum líka að velta því fyrir okkur hvort og þá hvernig breytt fjölskyldugerð kann að kalla á breytingar á löggjöf. Sterkir kraftar togast á í samfélaginu í dag, annars vegar á milli áherslu á jafna stöðu foreldra í uppeldishlutverkinu og hins vegar þeirrar staðreyndar fjöldi foreldrar búa nú sitt í hvoru lagi. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni var fjöldi skilnaðarbarna hér á landi á síðast liðnu ári tæplega 1.200. Á árabilinu 1997–2006 eru alls um 17.800 börn skráð sem skilnaðarbörn hjá Hagstofu Íslands. Þar af bjuggu 739 hjá körlum og 17.066 hjá konum. Þetta eru athyglisverðar tölur svo ekki sé meira sagt.

Við getum spurt okkur hvort nægileg áhersla sé lögð á hagsmuni barnsins umfram jafnrétti foreldranna við þessar breyttu aðstæður? Nú er rætt um hugtökin „sameiginlega“ forsjá og „skipta“ forsjá. Mæta ákvæði barnalaganna í dag, um lausn ágreiningsmála og um forsjá og umgengni, þörfum og hagsmunum barna og foreldra? Hvaða áhrif hefur sameiginleg forsjá foreldra á vinnu í barnaverndarmálum? Þetta eru stórar spurningar sem við verðum að leitast við að svara.

Við viljum tryggja að börn alist upp við ást, umönnun og öryggi og það hvílir á okkur sú skylda að gæta vel að andlegri og félagslegri líðan barns sem verður fyrir því að foreldrar þess skilji, hvort tveggja meðan þetta á sér stað en ekki síður alla ævi barnsins á enda. Þetta verðum við að tryggja bæði með löggjöf sem tekur mið af hagsmunum barnsins og rétti þess til að þekkja báða foreldra sína og með markvissri aðstoð sem byggð er upp í kringum þær lausnir sem lögin bjóða hverju sinni. Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að sérstök áhersla verði lögð á að bæta heilsu og líðan barna og ungmenna, á forvarnir og fræðslu í samfélaginu um andlega og félagslega líðan. Ég vil leggja sérstaka áherslu á að við skoðun líðan barna eftir skilnað foreldra og með hvaða hætti er hægt að styðja við samveru fjölskyldumeðlima í þessum aðstæðum á þann hátt sem kemur börnunum best. Þá stendur einnig til að bjóða foreldrum uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni sem hæfi mismunandi þörfum barns. Þarna er mikilvægt að taka tilliti til þeirra foreldra sem annast umönnun barna sinna án þess að búa saman og með hvaða hætti er hægt að þjálfa foreldra til að höndla þann veruleika án þess að missa sjónar á hagsmunum barnsins.

Ágætu ráðstefnugestir.

Í aðgerðaáætlun í þágu barna og ungmenna sem ég hef hér nefnt er kveðið sérstaklega á um einstæða og forsjárlausa foreldra og ég hef lagt ríka áherslu á að staða þessara hópa verði skoðuð en á það hefur skort að mínu mati. Þetta eru viðkvæmir hópar og rannsóknir sýna að mikil hætta er á að þau börn sem búi við lakastar aðstæður séu börn einstæðra foreldra. Við vitum að álag á þessum hópum er gífurlegt í því hraða nútímasamfélagi sem við búum í, þar sem kröfurnar ætla allt um koll að keyra. Mér finnst óásættanlegt að ekki sé reynt að jafna aðstæður barna í samfélaginu almennt og hér er hópur sem okkur ber skylda til að skoða sérstaklega. Reyndar er það svo að eftir lagabreytingu í júní 2006 skal forsjá vera sameiginleg við skilnað eða sambúðarslit nema foreldrar semji um annað eða úrskurður sé á annan veg. Þess vegna er tæpast lengur rétt að tala um forsjárlausa foreldra. Héðan í frá hljóta skilgreiningarnar að byggjast á lögheimili barnanna en ekki eru enn komin fram góð orð.

Ég hef skipað nefnd sem ætlað er að fjalla um stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og réttarstöðu barna þeirra. Ég mun jafnframt fela nefndinni að fjalla um réttarstöðu stjúpforeldra og aðstæður þeirra og málefni foreldra sem eru með sameiginlegt forræði en hafa annað lögheimili en börn þeirra. Þau álitamál varða meðal annars margvísleg réttindi tengd lögheimilisskráningu og meðlagsgreiðslum. Hér erum við að tala um mikinn fjölda fólks og sem dæmi má nefna að á síðastliðnu ári voru rúmlega 11 þúsund karlar meðlagsgreiðendur með rúmlega 19 þúsund börnum og 497 konur með 707 börnum.

Mjög hefur skort á upplýsingar um þennan hóp og stöðu hans hér á landi og það sætir í raun furðu. Ég hef ítrekað spurst fyrir um margvíslegar mikilvægar upplýsingar varðandi þennan hóp og lagði fram beiðni um skýrslu um stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra til fyrrverandi félagsmálaráðherra. Ég varð fyrir mjög miklum vonbrigðum með hve rýr skýrslan reyndist vera en meginskýringin er sú að opinberar upplýsingar um stöðu þessara hópa liggja nánast engar fyrir. Það er afleitt og úr því vil ég að verði bætt.

Í hinni nýskipuðu nefnd eiga sæti, auk tveggja fulltrúa félagsmálaráðherra, fulltrúar frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands - Rannsóknarsetri í barna- og fjölskylduvernd, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Heimili og skóla, Félagi einstæðra foreldra, Félagi stjúpfjölskyldna og Félagi um foreldrajafnrétti. Ágúst Ólafur Ágústsson alþingismaður er formaður nefndarinnar, en upplýsingar um aðra nefndarmenn eru aðgengilegar á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins.

Meginverkefni hinnar nýskipuðu nefndar verður að kanna fjárhagslega og félagslega stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og stjúpforeldra, að skipuleggja og vinna að söfnun upplýsinga um þessa hópa foreldra og stöðu þeirra, að fara ítarlega yfir réttarreglur sem varða umrædda hópa og að gera tillögur til mín um hugsanlegar úrbætur í málefnum þessara hópa á grundvelli löggjafar og/eða tiltekinna aðgerða.

Ég vil meðal annars að það verði skoðað ofan í kjölinn hvort það geti verið að börn einstæðra foreldra búi almennt við lakari kjör en önnur börn og að í framhaldinu fjallað um það hvaða leiðir séu til úrbóta. Margt bendir til þess að þessi hópur búi við lakari húsnæðisaðstæður og séu stór hópur á leigumarkaði. Húsnæðismálin brenna því á þessum hópi nú sem aldrei fyrr þegar bæði leiga og húsnæðisverð hefur rokið upp úr öllu valdi. Þá er líklegt að stór hluti forsjárlausra foreldra búi við bága stöðu en þeir eru æ stærra hlutfall þeirra sem leita eftir fjárhagsaðstoð og félagslegri þjónustu sveitarfélaganna. Sömuleiðis má draga ályktanir af því hve stór hópur meðlagsgreiðenda er í vanskilum en á síðastliðnu ári voru 7 þúsund af 12 þúsund meðlagsgreiðendum í vanskilum með meðlög og skulduðu um 14 milljarða króna. Af þessum 7 þúsund voru 4 þúsund í alvarlegum vanskilum og skulduðu um 11 milljarða króna. Á þessu máli verður að taka og skoða meðal annars hvernig hægt er að bæta stöðu meðlagsgreiðenda.

Ég vænti mikils af þeim öfluga hópi sem skipar nefnd um einstæða og forsjárlausa foreldra og tillögum hans.

  

Ágætu ráðstefnugestir.

Ég ætla að ljúka orðum mínum á því að ítreka þakkir fyrir ykkar mikilvæga framlag til umræðu um barnið og líðan þess. Þið sýnið að þið eruð reiðubúin að setja barnið í forgang og tryggja að það séu aðstæður þess sem skipti mestu og að allar okkar ákvarðanir eigi að taka með hliðsjón af því. Ég er reiðubúin að leggja mitt lóð á vogarskálarnar með ykkur þannig að við getum unnið að þeim úrbótum sem við erum sammála um að tryggi hagsmuni barnsins. Í mínum huga er fátt jafn mikilvægt.

Ég óska ykkur góðs gengis í ykkar störfum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum