Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Kynbundinn launamunur: Aðferðir til úrbóta

Ágætu ráðstefnugestir.

Ráðstefnan sem er að hefjast hér í dag er hluti af samstarfsverkefni aðildarríkja Evrópusambandsins og þeirra ríkja sem mynda Evrópska efnahagssvæðið undir yfirskriftinni Evrópuár jafnra tækifæra. Evrópuárið er mikilvægur liður í því að skapa viðspyrnu fyrir ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu við að hrinda í framkvæmd markmiðum sem sett eru í svonefndum mismununartilskipun Evrópusambandsins. Þessar tilskipanir eru tvær. Önnur fjallar um afnám mismununar í atvinnulífinu. Hin um aðgerðir gegn hvers kyns mismunun sem til dæmis byggir á kyni, kynþætti og uppruna.

Mér finnst miður að þurfa að viðurkenna að íslensk stjórnvöld hafa ekki fram til þessa treyst sér til að bæta mismununartilskipununum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gera þær þar með að gildandi rétti á öllu svæðinu – ekki aðeins í aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Á vegum félagsmálaráðuneytisins hefur verið starfandi síðastliðin tvö ár nefnd sem hefur það hlutverk að setja fram tillögur um það hvernig megi endurspegla efni mismununartilskipananna í íslensku lagaumhverfi. Ákveðið hefur verið að setja aukinn kraft í starf nefndarinnar þannig að vænta megi tillagna frá henni innan ekki langs tíma.

Tilskipanirnar um aðgerðir gegn mismunun bættust við aðrar af sama meiði. Benda má á tilskipanir Evrópusambandsins um rétt til jafnra launa fyrir jafnverðmæta vinnu. Ein fjallar um aðgang að störfum, starfsþjálfun og stöðuhækkunum. Loks má nefna tilskipun um sönnunarbyrði í málum sem eiga rót að rekja til mismununar vegna kynferðis. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur skipað nefndir sem eru vettvangur skoðanaskipta fulltrúa aðildarríkjanna um framkvæmd á þessum og öðrum tilskipunum sem snerta mismunun. Íslendingar hafa tekið virkan þátt í starfi þeirra. Rétt er að leggja áherslu á að framkvæmd tilskipana um jafnréttismál er einnig viðfangsefni Evrópuárs jafnra tækifæra.

Á undanförnum árum og áratugum hafa verið framkvæmdar margar kannanir á launum karla og kvenna. Þær hafa allar staðfest viðvarandi kynbundinn launamun, og svo virðist sem árangur hafi verið lítill sem engin síðastliðin tólf ár í því að draga úr kynbundnum launamun.

Ég hef lengi verið talsmaður þess að mikilvægt sé að afnema svokallaða launaleynd á íslenskum vinnumarkaði. Ég er þeirrar skoðunar að sú samningsbundna launaleynd sem hefur verið við lýði hér á landi, og færst í vöxt ef eitthvað er hin síðustu ár, hafi átt stóran þátt í því að viðhalda kynbundnum launamun. Í launaleyndinni og alls kyns duldum og ósýnilegum greiðslum hefur launamisréttinu verið viðhaldið.

Samþykki Alþingi frumvarp til nýrra jafnréttislaga verður stigið mikilvægt skref til að afnema launaleyndina. Þar er lagt til að launafólki verði tryggður réttur til að skýra frá launakjörum sínum ef það svo kýs. Þetta er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í vor. Ég bind einnig miklar vonir við það ákvæði jafnréttisfrumvarpsins sem kveður á um að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála verði bindandi fyrir málsaðila.

Í frumvarpi mínu sem nú liggur fyrir Alþingi er lagt til að Jafnréttisstofu verði veittar ríkari heimildir til að hafa eftirlit með framkvæmd laganna að viðlögðum dagsektum í vissum tilvikum. Þetta tel ég mjög mikilvægt til að auka líkur á því að jafnréttislögin nái markmiðum sínum. Í frumvarpinu er einnig lagt til að virkara eftirlit Jafnréttisstofu með því að fyrirtæki og stofnanir með fleiri en 25 starfsmenn setji sér jafnréttisáætlanir og framkvæmdaáætlanir á grundvelli þeirra. Leggja ber áherslu á að markmið jafnréttisáætlunar skili sér í starfsmannastefnunni.

Jafnréttisáætlanir eiga ekki að vera sýndaráætlanir sem dregnar eru fram í dagsljósið þegar það þykir henta að bregða upp einhverjum sýndarveruleika í jafnréttismálum. Fyrirtæki og stofnanir eiga að nýta sér þær til að greina stöðuna á vinnustöðunum, setja sér markmið í átt að frekara jafnrétti og leita lausna á þeim vandamálum sem koma fram, þar á meðal að tímasetja aðgerðir til að jafna launamun kynjanna.

Hins vegar sýnir reynslan okkur að á þessu sviði gerir lagasetning ein og sér ekki kraftaverk. Lög eru hins vegar nauðsynlegur grunnur sem hægt er að byggja á en meira þarf til. Vilji forsvarsmanna fyrirtækja og stofnana til að jafna stöðu kvenna og karla á vinnustöðum þeirra er lykilatriði og grundvöllur þess að koma megi á jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Fyrir nokkru sat ég fund norrænna jafnréttisráðherra í Finnlandi. Á þeim fundi kynnti framkvæmdastjóri Norrænu rannsóknastofnunarinnar í kynjafræðum niðurstöður nýrrar rannsóknar sem sýnir að fjöldi kvenna í stjórnum fyrirtækja í Finnlandi hefur áhrif á afkomu fyrirtækjanna. Rannsóknin sýnir að fyrirtæki undir stjórn kvenna skila 10% meiri arði en fyrirtæki undir stjórn karla, en þessi rannsókn náði til 14.000 fyrirtækja, þ.e. allra fyrirtækja í Finnlandi með fleiri en tíu starfsmenn. Þetta kemur heim og saman við rannsókn sem gerð var af Catalyst í Bandaríkjunum þar sem fram kom að þar sem konur stjórna þá er afkoma fyrirtækja betri og arðsemi eigin fjár meiri.

Hér á landi eigum við sannarlega langt í land með að viðunandi jafnræði ríki milli kynjanna í stjórnun fyrirtækja. Já, við eigum því miður mjög langt í land með að nýta til forystustarfa á vinnumarkaðnum þann auð sem býr í krafti kvenna. Á sama tíma eru konur meirihluti þeirra sem útskrifast úr háskólum og standa sig þar einstaklega vel.

Tími aðgerða og raunverulegs árangurs í þessum efnum löngu runninn upp og stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er skýr og afdráttarlaus um að til þess er ætlast að árangur náist á yfirstandandi kjörtímabili.

Óútskýrður kynbundinn launmunur hjá ríkinu á að minnka um helming fyrir lok kjörtímabilsins. Leita á leiða til að eyða þessum launamun á almennum vinnumarkaði. Endurmeta á kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta. Jafna á stöðu kvenna og karla í nefndum og stjórnunarstöðum á vegum ríkisins og síðast en ekki síst segir í stjórnarsáttmálanum að tryggður verði réttur launafólks til að skýra frá launakjörum sínum ef það svo kýs.

Markmiðin eru því meitluð í stein og í mínum huga er ein af mikilvægustu mælistikunum á árangur núverandi ríkisstjórnar, árangur hennar ofangreindum málum.

Þrír starfshópar hafa þegar verið settir til þessara verka á vegum félagsmálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis og eru þeir skipaðir einvala einstaklingum, fulltrúum allra helstu hagsmunaaðila sem koma að þessum málum.

Formenn starfshópanna, þau Jón Sigurðsson, Lára V. Júlíusdóttir og Ólöf Nordal ásamt sérstökum fulltrúum mín og fjármálaráðherra, skipa síðan samráðsnefnd sem samræmir starf hópanna og tryggir að þeir vinni í takt. Samráðsnefndin hélt sinn fyrsta fund í gær, en auk formanna starfshópanna munu Gunnar Björnsson, Rannveig Rist og Svafa Grönfeldt vinna með nefndinni.

Ég hef miklar væntingar til starfa þessa góða fólks og ég veit að það á ég sameiginlegt með fleirum.

Það hefur blásið mér bjartsýni í brjóst að samtök launafólks og forystumenn þeirra hafa lýst yfir einbeittum vilja og ásetningi að nýta komandi kjarasamninga til að taka á þessu máli. Ég trúi því og treysti að atvinnurekendur séu sama sinnis.

Góðir ráðstefnugestir.

Evrópuár jafnra tækifæra hefur vakið athygli á þeim sem líða fyrir misrétti og er vel. Þá hefur árið náð tilgangi sínum. Síðan er verkefnið að bregðast við og bæta úr því sem miður hefur farið. Einn liðurinn í þeirri viðleitni er sú ráðstefna sem hér er að hefjast.

Á Evrópuári jafnra tækifæra höfum við einnig undirstrikað og vegsamað kosti og mikilvægi fjölbreytileikans fyrir umhverfi okkar og samfélag. Þau skilaboð hafa ef til vill sjaldan átt brýnna erindi við okkur en einmitt í dag, á tímum alþjóðavæðingar og þróunar til einsleitni í heiminum.

Jöfn tækifæri karla og kvenna til áhrifa í íslensku samfélagi eru ekki bara réttlætis- og mannréttindamál heldur felast í fjölbreytileika kynjanna sóknarfæri sem öll fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og stjórnvöld ættu að nýta sér, hugsandi um eigin hag og umbjóðenda sinna.

Jafnréttisbaráttan er þess vegna og hefur alltaf verið, barátta fyrir bættum hag og betri framtíð, ekki bara kvenna heldur samfélagsins alls. Tækifærin bíða okkar og nú reynir á hvort við berum gæfu til að nýta þau.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum