Hoppa yfir valmynd
17. mars 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðstefna um eflingu foreldrahæfni

Ágætu ráðstefnugestir.

Félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur á löngum ferli sínum sem stjórnmálamaður lagt mikla áherslu á málefni barna. Hún er því afar stolt af því að hafa átt forystu um að hér á landi yrði í fyrsta sinn samþykkt og unnið samkvæmt heildstæðri aðgerðaáætlun í þágu barna og ungmenna. Sem þingmaður flutti Jóhanna ítrekað tillögur um heildarstefnumótun í málefnum barna og ungmenna og því var hennar fyrsta verk þegar hún tók við embætti félagsmálaráðherra að leggja slíka áætlun fyrir Alþingi.

Sérstakur kafli í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar ber yfirskriftina „Barnvænt samfélag“ og þar segir að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir markvissum aðgerðum í þágu barna og barnafjölskyldna á Íslandi. Í því skyni verði mótuð heildstæð aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna er byggist meðal annars á rétti þeirra eins og hann er skilgreindur í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í samræmi við stefnuyfirlýsinguna var þegar á fyrstu dögum Jóhönnu í félagsmálaráðuneytinu unnin og lögð fyrir Alþingi tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

Ég vek athygli á því að með þessari aðgerðaáætlun er í fyrsta sinn lögð fram heildstæð áætlun um að styrkja stöðu barna og ungmenna hér á landi. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það að undanfarin ár hefur ítrekað verið fjallað um málefni barna og unglinga á vettvangi stjórnvalda án þess að mikið hafi út úr því komið, því miður. Þessu vill félags- og tryggingamálaráðherra breyta með fulltingi góðs samverkafólks.

Aðgerðaáætlunin gildir til fjögurra ára, frá árinu 2007 til 2011, en hún er afar heildstæð og yfirgripsmikil. Hún skiptist í sex málasvið sem varðar börn og hefur hvert um sig að geyma skilgreind markmið. Hér gefst ekki tími til að fjalla um áætlunina að öðru leyti en því sem lýtur að eflingu foreldrahæfni. Þó er rétt að taka fram að aðgerðaáætluninni er ætlað að vera vegvísir allra ráðuneyta næstu árin og í henni kemur bæði fram stefna stjórnvalda og þau meginverkefni sem unnið verður að á því kjörtímabili sem nú er nýhafið.

Starfandi er samráðshópur fulltrúa ráðuneyta félags- og tryggingamála, heilbrigðismála, dóms- og kirkjumála, fjármála og menntamála sem ætlað er að fylgja áætluninni eftir og samræma aðgerðir stjórnvalda, en hún er í daglegu talin nefnd „barnanefndin“.

Ákvæði aðgerðaáætlunarinnar er varða eflingu foreldrahæfni eru í reynd tvíþætt. Annars vegar er barnanefndinni ætlað að gera tillögur um með hvaða hætti skuli bregðast við tilmælum Evrópuráðsins frá árinu 2006 til ríkisstjórna aðildarríkjanna um stefnu til eflingar foreldrahæfni. Hins vegar er að finna sérstakan kafla í aðgerðaráætluninni um stuðning við foreldra í uppeldisstarfi.

Tilmæli Evrópuráðsins um eflingu foreldrahæfni boða nýja sýn til að styrkja stöðu barna með því að gera meginreglur barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna ásamt bestu þekkingu í uppeldisfræðum að aðgengilegu verkfæri fyrir foreldra við uppeldi barna sinna. Einn aðalhöfundur þessara tilmæla er raunar Bragi Guðbrandsson, formaður barnanefndarinnar, en hann vann að gerð þeirra um árabil á vegum Evrópuráðsins og ætti því barnanefndin að vera vel í stakk búin til að leysa þetta verkefni aðgerðaáætlunarinnar.

Í 2. kafla aðgerðaáætlunarinnar sem fjallar um stuðning við foreldra í uppeldisstarfi er meðal annars kveðið á um að fæðingarorlof verði lengt á kjörtímabilinu. Þá er sérstaklega kveðið á um að unnið skuli að því að foreldrum standi til boða uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni, óháð búsetu, með sérstökum námskeiðum sem hæfa mismunandi æviskeiðum í lífi barnsins.

Þetta ákvæði í aðgerðaáætluninni er í anda tilmæla Evrópuráðsins um stefnu til eflingar foreldrahæfni sem ég vék að áðan. Kjarni þessarar hugsunar er að fjárfesta í börnum gegnum foreldrana. Í stað þess að einblína á möguleika samfélagsstofnana til að mæta þörfum foreldranna, sem í sjálfu sér er góðra gjalda vert, þurfum við fleiri sjónarhorn.

Möguleikar foreldranna til að mæta þörfum barnanna hafa ekki hlotið þá athygli sem þeir verðskulda. Samt búa foreldrarnir yfir eiginleikum sem taka öðru fram í umönnun og uppeldi barna. Stjórnvöld geta hlúð að þessum eiginleikum, hjálpað foreldrum við að rækta þá og þroska þannig að þeir nýtist börnunum betur en ella.

Barnaverndarstofa hefur á undanförnum árum oft vakið athygli á rannsóknarniðurstöðum sem sýna fram á annmarka stofnanaþjónustu til að mæta einstaklingsbundnum þörfum, hvort heldur það er á sviði umönnunar, meðferðar eða persónulegrar þjónustu. Þetta á vissulega við um stofnanadvalir barns, ekki síst á sviði meðferðar vegna hegðunarerfiðleika, vímuefnaneyslu eða geðraskana. Þótt tímabundinn árangur náist oft á meðan meðferð varir kemur í ljós að sá meðferðarárangur tapast gjarnan þegar frá líður.

Annars vegar getur þetta stafað af ónógri eftirfylgd. Hins vegar að foreldrunum hefur ekki verið sinnt þannig að þeir séu í stakk búnir til að framkvæma þær breytingar á lífsvenjum og uppeldisaðferðum sem nauðsynlegar eru til að tryggja hagstæðari skilyrði.

Þessu til viðbótar er mönnum ljósara en fyrr að undirrót þess vanda sem börnin eiga við að stríða eiga sér lengri sögu en svo að dvöl á stofnun í einhverjar vikur, mánuði eða jafnvel ár ræður ekki úrslitum. Þar sannast hið fornkveðna að lengi býr að fyrstu gerð.

Vandað uppeldi barnsins í frumbernsku og snemmtæk íhlutun með öflugum stuðningi við foreldra er líklegri til að skila varanlegri árangri en nokkuð annað. Þess vegna varðar mestu að efla færni foreldra til að skynja og skilja þarfir barnsins í bernskunni og til að bregðast við og eiga aðgang að viðeigandi aðstoð þegar með þarf.

Í þessu felst kjarninn í nýjum áherslum aðgerðaáætlunar í málefnum barna um stefnu til eflingar foreldrahæfni.

Í þessum anda telur félags- og tryggingamálaráðherra að við þurfum á að halda fjölbreyttari meðferðarúrræðum fyrir börn og ungmenni sem eiga við hegðunar- og vímuefnavanda að stríða.

Á undanförnum árum hefur Barnaverndarstofa lagt fram tillögur um nýjar leiðir í þessum efnum. Fyrst og fremst er þar um að ræða svonefnda fjölþáttameðferð, sem oft er nefnd MST, en hún felst í meðferð sem veitt er barni og foreldrum þess innan fjölskyldunnar, í nánasta umhverfi barnsins, svo sem í skóla og félagahóp.

Barnaverndarstofu hafa nú verið veittar 50 milljónir króna á þessu ári til að hrinda MST-verkefninu í framkvæmd í samræmi við aðgerðaáætlunina. Aðrar aðferðir sem gerðar hafa verið tillögur um eru byggðar á hliðstæðum grunni, til dæmis foreldrafærniþjálfunin PMT og svonefnt meðferðarfósturúrræði, og standa vonir til að unnt verði að hrinda þeim í framkvæmd áður en langt um líður.

Ástæða er til að geta þess sérstaklega að nokkur sveitarfélög hafa á síðustu árum átt lofsvert frumkvæði í þeim efnum sem hér um ræðir.

Í Hafnarfirði hefur foreldrafærniþjálfuninni PMT verið hrint í framkvæmd og fagfólkið þar þjálfar nú kollega sína í mörgum öðrum sveitarfélögum.

Reykjanesbær hefur hrint í framkvæmd hinni svonefndu SOS-uppeldisfræðslu sem stendur foreldrum allra tveggja ára barna í sveitarfélaginu nú til boða. Samhliða er fagfólki, til dæmis á leikskólum, veitt þessi uppeldisfræðsla í því skyni að stuðla að samræmingu uppeldisaðferða foreldranna og leikskólans þar sem barn dvelur.

Það er von og trú félags- og tryggingamálaráðherra að aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum barna verði til þess að efla þetta brautryðjendastarf og önnur hliðstæð á komandi árum.

Að þessu mæltu flyt ég ráðstefnugestum góðar óskir félags- og tryggingamálaráðherra um gagnlegan fund og árangursrík störf í framhaldi hans.

Málefni barna hafa verið sett í forgrunn og framundan er tími til að skapa.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum