Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fimmtíu ára afmæli Áss styrktarfélags

Góðir gestir.

Mér er það sérstakt fagnaðarefni að fá tækifæri til þess að ávarpa ykkur í tilefni af því að 50 ár eru liðin síðan Styrktarfélag vangefinna var stofnað. Félag sem allar götur síðan hefur verið í fararbroddi fyrir nýjum hugmyndum og viðhorfum í málefnum þroskaheftra og sjálft tekið frumkvæði að margvíslegum nýjungum í þjónustu við fatlað fólk. Það er einmitt í samræmi við nýja tíma, nýjar hugmyndir og viðhorf að félagið hefur breytt hinu rótgróna heiti sínu í Ás styrktarfélag. Til þess hefur þurft framsýni, kjark og þor og hefur ugglaust ekki verið með öllu sársaukalaust. Mér þykir hið nýja heiti vel til fundið.

Frumkvöðlahlutverk styrktarfélagsins er vissulega markvert og lofsvert. Með stofnun þess má segja að hafist hafi skipuleg barátta foreldra og annarra aðstandenda þroskaheftra barna og fullorðinna fyrir hagsmunum þeirra sem nú hefur borið slíkan árangur að líkja má við byltingu.

Þar hefur félagið ósjaldan verið í fararbroddi og átt drjúgan hlut að máli, bæði eitt og sér og í samstarfi við önnur hagsmunasamtök fatlaðra og stjórnvöld.

Þar er fyrst til að taka að félagið kom á fót fyrsta dagvistarheimilinu fyrir fötluð börn hér á landi í Lyngási árið 1961 til þess að stuðla að því að þau gætu alist upp með eðlilegum hætti hjá foreldrum sínum í stað stofnanavistunar. Þar var staðið myndarlega að verki eins og æ síðan í verkefnum félagsins, byggt veglegt hús og ráðið vel menntað og sérhæft fólk til starfa þegar í upphafi. Það er vert að minnast þess hér, því ég er ekki viss um að margir geri sér grein fyrir því, að Lyngás var ekki einungis kærkomið dagvistarúrræði fyrir þroskaheft börn og fjölskyldur þeirra.

Lyngás er í rauninni tákn um fyrsta skrefið sem stigið var hér á landi í takti við þá nýju hugmyndafræði sem var að byrja að ryðja sér til rúms í nágrannalöndum okkur og fól í sér samskipan og blöndun fatlaðs fólks. Sú hugmyndafræði bar með sér þá kröfu að fötluð börn skyldu eiga þess kost að alast upp hjá fjölskyldum sínum í stað þess að eyða ævi sinni á sérstökum stofnunum. Það liðu raunar allmörg ár þar til þessi hugmyndafræði var viðtekin í lögum. Það gerðist ekki fyrr en 1979 með lögum um aðstoð við þroskahefta. Að þessu leyti var styrktarfélagið í raun langt á undan sinni samtíð.

Styrktarfélagið var einnig í fararbroddi þegar það stofnaði til fyrsta sambýlisins á höfuðborgarsvæðinu árið 1976, nokkrum árum áður en gert var ráð fyrir slíku úrræði í íslenskum lögum. En félagið hefur greinilega verið vel tengt við systurfélög sín í öðrum löndum, fylgst vel með framvindunni þar og jafnframt mótað eigin hugmyndir.

Fyrstu sambýlin hér á landi mörkuðu upphafið að því að fatlað fólk eignaðist eiginlegt heimili líkt og aðrir þegnar þjóðfélagsins. Það var afar mikilvægur liður byltingarinnar sem ég minntist á áðan. Miðað við kröfur dagsins var að vísu nokkuð þrengra á þingi á þessu fyrsta sambýli félagsins en nú þegar sjálfsagt þykir að fatlað fólk eigi sér heimili sem er sambærilegt við það sem almennt gerist, fullbúna íbúð með friðhelgi heimilis síns og einkalíf eins og vera ber.

Í þeim efnum var styrktarfélagið einnig í fararbroddi því rúmir tveir áratugir eru liðnir frá því að það stóð fyrir því að fólk sem bjó á sambýlum flytti í sjálfstæðar íbúðir í almennum íbúðahverfum og nyti þar þess stuðnings sem það þarfnaðist. Ég veit að íbúar í Langagerði, næsta íbúðakjarna styrktarfélagsins, verða ekki sviknir í þessum efnum.

Enn eitt málefni vil ég nefna sem Ás styrktarfélag hefur haft frumkvæði að og gengið þar á undan með lofsverðu fordæmi. Það er verkefni sem félagið hefur tekið þátt í undanfarið með fleiri Evrópuþjóðum og hefur þann tilgang að efla sjálfsvitund fullorðins þroskahefts fólks um sjálfsmynd sína og kynferði.

Að baki því liggur réttur þess fólks til þess að lifa kynlífi, mynda sambönd, stofna til sambúðar og eignast börn eins og aðrir þegnar samfélagsins. Þetta er þeim mun lofsverðara framtak að því leyti að hér er á ferðinni málefni sem hefur í raun verið feimnismál í samfélaginu. Styrktarfélagið hefur engu að síður haft kjark til þess að takast á við það. Ég fagna þessu framtaki sem hefur meðal annars falið í sér kannanir á aðstæðum og gerð fræðsluefnis og ég vænti þess að áfram verði unnið að þessu verkefni.

Góðir gestir.

Ás styrktarfélag er fjórði stærsti rekstraraðili í þjónustu við fatlað fólk hér á landi. Félagið er sjálfseignarstofnun og hefur í gegnum árin komið á fót umfangsmiklum rekstri. Það hefur notið velvilja og einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki hafa átt drjúgan þátt í að styðja við starf þess. Í dag veitir félagið hátt á þriðja hundrað manns þjónustu í formi búsetu, dagþjónustu og vinnu. Árið 2001 urðu tímamót í sögu félagsins þegar undirritaður var þjónustusamningur milli þess, félagsmálaráðuneytisins og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík.

Mér er það sérstök ánægja að geta þess að nú í vikunni var samningurinn endurnýjaður með undirritun þeirra aðila sem að honum standa. Í þeim samningi eru margvíslegar nýjungar sem einkum lúta að þeim stefnumiðum sem kynnt eru í drögum að stefnu félags- og tryggingamálaráðuneytisins um þjónustu við fötluð börn og fullorðna 2008–2010. Þar er meðal annars að finna ákvæði um framtíðarsýn og markmið í málaflokknum, mat á þjónustu og árangri og gæðakerfi.

Öll þessi ákvæði eru nýlunda í stefnumörkun ráðuneytisins í málefnum fatlaðra og eru til þess fallin að skýra ábyrgð, skerpa áherslur og stuðla að því að tryggja gæði í þjónustu við fatlað fólk. Með skýrri stefnumótun getur ráðuneytið einnig með markvissari hætti deilt verkefnum á milli þeirra aðila sem sjá um framkvæmd þjónustunnar. Það er fagnaðarefni að endurnýja slíkan samning við félag sem stendur svo vel og myndarlega að þeim verkefnum sem það tekur að sér.

Til þess að tryggja framgang og framþróun stefnumótunarinnar þurfa allir að halda vöku sinni. Möguleikarnir hafa heldur aldrei verið fleiri og því dýrmætt að nýsköpunin leiði þangað sem stefnan vísar til.

Í félags- og tryggingamálaráðuneytinu er með markvissum hætti unnið að fjölda verkefna sem stuðlað geta að góðri framkvæmd þjónustu við fatlað fólk. Í því sambandi vil ég vekja athygli á nokkrum atriðum.

Nú í maí geri ég ráð fyrir því að ný reglugerð um búsetu fatlaðra sjái dagsins ljós. Í reglugerðinni munu verða nýjungar sem vonandi gera allt verklag við framkvæmd þjónustunnar auðveldara og aðgengilegra.

Í væntanlegri reglugerð er gert ráð fyrir því að allir sem æskja þjónustu eigi kost á þjónustumati og á grundvelli þess verði gerð þjónustuáætlun sem tryggi að alltaf sé verið að veita þjónustu í samræmi við þarfir hverju sinni. Við gerð þjónustuáætlunar er gert ráð fyrir öflugu samráði milli þeirra sem veita þjónustuna og síðast en ekki síst við þann sem notar hana. Einnig verða í þessari reglugerð skýrari ákvæði um alla fjármálaumsýslu í þjónustu við fatlað fólk í búsetu.

Í mörg ár hefur það verið baráttumál hagsmunasamtaka fatlaðra og fagfélaga að betur sé hugað að réttindum fatlaðra. Eru nú að störfum tveir starfshópar í ráðuneytinu. Annars vegar hópur sem fjallar um réttindagæslu fatlaðra og hins vegar hópur sem vinnur að fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun. Störf þessara hópa ganga vel og von er á stöðuskýrslu varðandi samning Sameinuðu þjóðanna nú um mánaðamótin.

Þá mun yfirfærsla ábyrgðar á sértækri þjónustu við fatlaða til sveitarfélaga sem stefnt er að um áramótin 2010–2011 vonandi auðvelda alla aðkomu notenda að þjónustu og tryggja skýra ábyrgð og skyldur þeirra aðila sem að framkvæmd eiga að koma.

Ég vil einnig í þessu samhengi ítreka þá afstöðu mína að forsenda uppbyggingar og bættrar þjónustu er að umönnunarstörfin verði metin að verðleikum og launuð samkvæmt því. Ríkisstjórnin ætlar sér að ná árangri í þessum efnum og ég treysti því að aðilar vinnumarkaðarins taki þátt í því með stjórnvöldum í komandi kjarasamningum.

Ég vil að lokum óska Ási styrktarfélagi til hamingju á þessum merku tímamótum. Þá hef ég fyrst og fremst í huga gjöfult og farsælt starf að málefnum fatlaðs fólks þar sem frumkvæði félagsins hefur margsinnis orðið til þess að marka ný spor sem hafa orðið öðrum, meðal annars stjórnvöldum, til fyrirmyndar. Þrátt fyrir hálfrar aldar afmæli eru engin ellimerki á félaginu – það er síungt. Það má meðal annars sjá á ítarlegri og framsækinni stefnumótun þess sem nær allt til ársins 2010.

Í tilefni 50 ára afmælis Styrktarfélagsins hef ég ákveðið að veita félaginu styrk til starfseminnar að fjárhæð 1.000.000 kr. Til þess að halda í heiðri mikilvægu og óeigingjörnu starfi starfsmanna félagsins fyrr og nú er það mín ósk að þessir fjármunir verði nýttir til starfs- og endurmenntunar starfsmanna.

Ég vil þakka ykkur fyrir gjöfult og farsælt starf og samstarf og óska ykkur til hamingju með þennan merka áfanga.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum