Hoppa yfir valmynd
13. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Sambandsstjórnarfundur Landssambands eldri borgara

Ágætu fulltrúar.

Það er mér alveg sérstök ánægja að fá tækifæri til að ávarpa sambandsstjórnarfund Landssambands eldri borgara og hitta hér fyrir fulltrúa stjórnarinnar sem koma að víðs vegar af landinu.

Ég veit að það eru viðamikil mál sem eru ykkur ofarlega í huga eins og sést á dagskrá fundarins þar sem fjallað verður um atvinnumál eldri borgara, velferðarmál og kjaramál.

Atvinnumál og kjör eldri borgara eru auðvitað nátengd hjá þeim sem vilja og geta verið á vinnumarkaði. Málefni þessa hóps hafa mikið verið til umræðu að undanförnu og þá einkum í tengslum við reglur um skerðingar á greiðslum almannatrygginga vegna tekna. Ég veit að Stefán Ólafsson mun fjalla ítarlega um þessi mál hér á eftir og ég ætla því aðeins að fjalla í grófum dráttum um áherslur mínar í þessum efnum.

Íslendingar hafa lengi haft algjöra sérstöðu í vestrænum samanburði vegna mikillar þátttöku miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði. Í aldurshópnum 60–64 ára er atvinnuþátttaka hér á landi rúm 80% samanborið við 50–60% meðal þeirra þjóða sem næstar okkur koma. Árin 2006–2007 voru rúm 40% fólks á aldrinum 65–71 árs á vinnumarkaði.

Í mars í fyrra var birt viðhorfskönnun um aukna atvinnuþátttöku eldri borgara á aldrinum 65–71 árs sem unnin var af Rannsóknamiðstöð Háskólans á Bifröst fyrir Rannsóknasetur verslunarinnar með stuðningi verkefnisstjórnar 50+ sem starfar á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Þar kom meðal annars fram að 53,4% þeirra eftirlaunaþega sem ekki eru í vinnu hefðu áhuga á atvinnuþátttöku ef það myndi ekki skerða ellilífeyri þeirra. Fleiri kannanir hafa leitt það sama í ljós.

Ég tek þessar niðurstöður alvarlega. Ég styð ekki kerfi sem hrekur af vinnumarkaði fólk sem hefur áhuga og vilja til að leggja fram starfskrafta sína. Ég tel að slíkt kerfi sé óskynsamlegt og óhagstætt samfélaginu heild og ákveðnar breytingar séu því nauðsynlegar. Mín skoðun er sú að tekjutengingar eigi rétt á sér en þær mega ekki vera þannig að fólk eigi enga möguleika á að auka við tekjur sínar. Þess vegna vinn ég að því að hækka frítekjumörk og draga úr skerðingum með því móti.

Nýlega var haldin mjög fróðleg fjölþjóðleg ráðstefna undir yfirskriftinni lífeyriskerfi framtíðarinnar þar sem fjallað var um endurmat norrænu velferðarríkjanna á lífeyriskerfum sínum, um nýlegar breytingar á þeim og um framtíðarhorfur. Við Íslendingar stöndum vel að vígi með lífeyriskerfi okkar sem enn er að eflast og styrkjast. Samspil þess og almannatryggingakerfisins verður hins vegar að endurskoða.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru sett fram metnaðarfull markmið um að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja og einfalda almannatryggingakerfið. Að þessu er unnið af krafti og þegar hefur hluta markmiðanna verið hrint í framkvæmd. Enn er mikilvægri vinnu ólokið við einföldun kerfisins og lít ég þar mjög til samspils við lífeyrissjóðakerfið sem getur ráðið úrslitum um bætt kjör lífeyrisþega, jafnt aldraðra og öryrkja til lengri og skemmri tíma litið.

Þessi kerfi mega ekki vinna gegn hvoru öðru. Endurkröfur sem lífeyrisþegar hafa fengið eru til skammar og hafa skapað óöryggi meðal þeirra sem eru lakast settir. Það gengur ekki að hækkun bóta almannatrygginga verði umsvifalaust að engu því þá skerðast lífeyrissjóðsgreiðslur og öfugt.

Við verðum að vinna saman sem einn maður til þess að koma í veg fyrir þessa víxlverkun. Ég hef ítrekað rætt þessi mál við forsvarsmenn lífeyrissjóðanna hér á landi og aðila vinnumarkaðarins og finn fyrir samstarfsvilja.

Okkur ber skylda til þess að líta á framtíðaruppbyggingu lífeyriskerfa almannatrygginga og lífeyrissjóðanna sem eina heild þar sem hagsmunir lífeyrisþega eru í forgrunni. Það er sannarlega von mín að framundan séu árangursríkar viðræður stjórnvalda og lífeyrissjóðanna um sameiginlega framtíðaruppbyggingu.

   

Góðir gestir.

Ég hef farið með lífeyrishluta almannatrygginga frá áramótum. Okkur hefur tekist að framkvæma fyrstu stóru áfangana sem kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þegar þær aðgerðir verða allar komnar til framkvæmda á þessu ári munu greiðslur almannatrygginga til lífeyrisþega hækka um 9 milljarða króna á ársgrundvelli eða um rúm 17% ef miðað er við síðasta ár.

Hækkanirnar eru löngu tímabærar og fela margar í sér afnám á áratuga óréttlæti. Nefni ég þar afnám skerðingar bóta vegna tekna maka, hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna lífeyrisþega og fjármagnstekna og sérstakar greiðslur til aldraðra sem ekkert eða lítið hafa úr lífeyrissjóðum og að frítekjumark er sett á greiðslur öryrkja úr lífeyrissjóðum.

Mikilvægur áfangi í átt að því að einfalda kerfið tekur gildi um næstu áramót þegar skerðingaráhrif viðbótarlífeyrissparnaðar á bætur almannatryggingar verða afnumin. Í núverandi kerfi eru skerðingaráhrifin svo taumlaus að þau geta numið allt að þriðjungi sparnaðarins.

Öll þau atriði sem ég hef nefnt tryggja betur mannréttindi lífeyrisþega og að samfélagið fái notið krafta þeirra. Framundan er vinna við að tryggja lágmarksviðmið í framfærslu lífeyrisþega sem liggja á fyrir 1. júlí næstkomandi sem taka á mið af lægstu launum í nýgerðum kjarasamningum. Þar liggur næsti áfangi í því að bæta kjör lífeyrisþega.

Í þessu sambandi er óhjákvæmilegt að fara nokkrum orðum um þá gagnrýni sem komið hefur fram um að ríkisstjórnin hafi með aðgerðum sínum í kjölfar samninga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins farið á svig við fyrri yfirlýsingar eða samkomulag ríkisstjórna við aldraða og öryrkja. Fulltrúar Framsóknarflokksins hafa meira að segja gengið svo langt að kalla þetta „drottinsvik“ í opinberri umræðu.

Þó ég svo gjarnan vildi og tel að gera þurfi enn betur í að lyfta kjörum lífeyrisþega í þessu landi, ekki síst þeirra sem hafa verstu kjörin, liggur það fyrir að aðgerðir þessarar ríkisstjórnar hafa verið í fullu samræmi við lög, fullu samræmi við þær yfirlýsingar sem ríkisstjórnin hefur gefið og staðreyndin er reyndar sú að aðgerðir þessarar ríkisstjórnar ganga mun lengra en yfirlýsingar fyrri ríkisstjórnar gáfu tilefni til. Þær ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar af núverandi ríkisstjórn eru þess valdandi að milljarðar króna renna til lífeyrisþega umfram þær skuldbindingar sem fyrri ríkisstjórnir Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kváðu á um. Fullyrðingar um annað eru beinlínis rangar því hvergi í umræddum yfirlýsingum, hvorki frá 2002 eða 2006 er til dæmis kveðið á um að lægstu bætur almannatrygginga eigi að fylgja hækkun dagvinnutryggingar? Það er ástæða til að halda til haga að á árunum 1995–2007 hefur lágmarkslífeyrir aðeins einu sinni haldið í við lágmarkslaun og það var árið 2007.

Það er vissulega rétt að lægstu bætur almannatrygginga einar og sér hafa dregist aftur úr dagvinnutryggingunni nú um stundir ef miðað er við síðasta ár, en ég ítreka í því sambandi að endurbætur á lífeyriskerfinu eru ekki búnar. Næsti áfangi er 1. júlí og þá er beinlínis vísað til þess að horfa eigi til þróunar lægstu launa. Ég bendi einnig á að með því að tryggja þeim sem ekki hafa haft neinar tekjur úr lífeyrissjóðum, andvirði 25.000 krónur frá ríkissjóði eins og gert verður frá og með 1. ágúst, erum við að lyfta tekjum þeirra ellilífeyrisþega sem hafa hingað til haft lægsta lífeyrinn og færa þá upp að hlið þeirra sem hafa notið lífeyristekna samhliða lífeyri Tryggingastofnunar. Þó heildartekjur þessa hóps séu ekki háar er staðreyndin sú að aldrei á síðastliðnum tólf árum hafa tekjur þeirra ellilífeyrisþega sem tilheyra honum og hafa því lægstar tekjurnar verið hærri en þær verða frá og með 1. ágúst.

Auk þessa hafa ýmsar aðrar aðgerðir okkar að sjálfsögðu lyft tekjum fjölmargra sem hingað til hafa verið á lægstu bótum almannatrygginga og ég fullyrði því að áður en árið er allt hafi tekjur þeirra verst settu meðal lífeyrisþega fengið einhverjar mestu kjarabætur sem um getur í langan tíma. Um það þurfum við vonandi ekki að deila þegar árið verður gert upp.

 

Góðir fundarmenn.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um lífeyrismálin, enda mun Stefán fara frekar í saumana á þeim hér á eftir. Þjónusta við aldraða sem þurfa aðstoð og stuðning vegna þverrandi krafta og heilsu er annað mál sem liggur þungt á mörgum. Um síðustu áramót varð að veruleika mál sem eldri borgarar hafa lengi sett á oddinn, það er að heildarábyrgð á málaflokknum var flutt frá heilbrigðisráðuneytinu til félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

Í þessu felst viðurkenning á því að málefni aldraðra eru ekki fyrst og fremst heilbrigðismál heldur varða almenn samfélags- og velferðarmál. Ég nefni að málefni fatlaðra hafa verið skilgreind á þá lund með ríkri áherslu á að fatlaðir eigi sama rétt og allir aðrir til samfélagsþátttöku á öllum sviðum eins og mögulegt er. Það sama á að gilda um aldraða og að því mun ég vinna.

Eins og öldrunarþjónustan hefur verið byggð upp hvetur hún ekki til þess að þjónusta sé veitt á því þjónustustigi sem best hæfir. Hún er ekki í samræmi við þarfir notendanna og hún er ekki í samræmi við skynsamlegar kröfur um nýtingu fjármuna.

Ég tel að öldrunarþjónusta væri best komin á hendi sveitarfélaganna og þá á ég við að þau taki að sér alla þjónustuna en ekki einstaka hluta hennar.

Sveitarfélögin vilja þjónusta íbúa sína sem best og það á að vera þeirra hagur að gera svo. Ef þau bæru heildarábyrgð á þjónustu við aldraða myndu þau skipuleggja hana skynsamlega og í betra samræmi við þarfir íbúanna en nú er. Að mínu mati ætti að fela sveitarfélögunum ábyrgð á heilsugæslu og öldrunarstofnunum. Þannig væri þjónustukeðjan samfelld og notendum ekki sífellt vísað á milli kerfa með óljósa og illa skilgreinda ábyrgð. Reynslan frá Akureyri hefur sýnt okkur að þetta fyrirkomulag gefur góða raun og ég tel að við eigum að byggja á þeirri reynslu.

Jafnframt því sem fram kemur í stefnu ríkisstjórnarinnar að stefnt skuli að því að flytja lögbundna ábyrgð á málefnum aldraðra til sveitarfélaga er lögð áhersla á að hraðað skuli uppbyggingu 400 nýrra hjúkrunarrýma. Mitt hlutverk er að útfæra þessa stefnu og hvernig skuli staðið að framkvæmd hennar í þeim efnum sem heyra undir ráðuneyti mitt.

Eins og þið vitið trúlega mörg fékk ég til liðs við mig hóp fólks sem gjörþekkir málaflokkinn þegar ljóst var að hann yrði fluttur til félags- og tryggingamálaráðuneytisins til að vinna að tillögum um útfærslur. Í tillögum hópsins er lögð áhersla á að samþætt og fjölbreytt einstaklingsbundin þjónusta verði byggð upp í hverju sveitarfélagi í þágu eldri borgara og þá jafnvel í mörgum smærri kjörnum innan sveitarfélaga. Jafnframt er kveðið á um nýjar áherslur í öruggri sjálfstæðri búsetu og nýjar áherslur í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Byggt er á því að þjónusta við aldraða verði í framtíðinni veitt á grundvelli einstaklingsbundinnar þarfar og síðast en ekki síst er þar kveðið á um bætta upplýsingaþjónustu við aldraða um þá þjónustu og þau úrræði sem liggja fyrir á hverjum stað á hverjum tíma.

Rauði þráðurinn í tillögunum er að styðja aldraða til sjálfstæðrar búsetu á eigin heimili sem lengst með viðeigandi stuðningi í samræmi við þarfir hvers og eins. Jafnframt að hverfa skuli frá því fyrirkomulagi á stofnanaþjónustu við aldraða sem hingað til hefur tíðkast.

Viðurkennt er að þótt vel takist til að stórefla þjónustu við aldraða í heimahúsum munu ávallt verða einhverjir sem þurfa meiri hjúkrun og umönnun að staðaldri en unnt er að veita á einkaheimilum fólks. Þeirra þörfum þarf að mæta á öðrum forsendum en hingað til og gera hjúkrunarheimili þannig úr garði að þau uppfylli eins og kostur er þær kröfur sem við öll gerum til heimilislegra aðstæðna og réttinum til persónufrelsis og friðhelgi einkalífs. Veigamikill liður í þessu er að hverfa frá núverandi fyrirkomulagi á greiðsluþátttöku aldraðra fyrir dvöl á hjúkrunarheimilum sem ég get svo sannarlega tekið undir að er ótækt, en vasapeningafyrirkomulagið nánast sviptir eldri borgara sjálfstæði sínu.

Jafnframt því að hraða uppbyggingu 400 nýrra hjúkrunarrýma, og þá á þeim forsendum sem ég nefndi hér að framan, er eitt mikilvægra verkefna að fækka fjölbýlum á hjúkrunarheimilum og færa aðstæður til nútímalegs horfs. Til að mæta fækkun vegna breytinganna er þörf fyrir rúm 400 hjúkrunarrými til viðbótar. Gróflega áætlað nemur kostnaður við breytingar fjölbýla í einbýli og áform um fjölgun hjúkrunarrýma allt að 17 milljörðum króna. Til að takast á við þetta stóra verkefni er nauðsynlegt að nota fjölbreyttari fjármögnunarleiðir en hingað til hefur verið gert og allar mögulegar leiðir til þess eru í vinnslu í ráðuneytinu.

Við uppbyggingu hjúkrunarrýma þarf að huga sérstaklega að þörfum heilabilaðra. Samkvæmt hjúkrunarmælingum á hjúkrunarheimilum eru tæp 65% aldraðra með heilabilun af einhverju tagi og 24% þess hóps eru með Alzheimer.

Ekki er þörf fyrir hjúkrunarrými á sérstökum heilabilunareiningum fyrir nema hluta þessa hóps en við vitum að heilabiluðum mun fjölga ört á næstu árum og verðum að taka tillit til þess í áformum okkar um uppbyggingu.

Eitt grundvallaratriði á ég ónefnt, afar mikilvægt verkefni sem verður að taka föstum tökum, en það er að tryggja fullnægjandi mönnun í öldrunarþjónustu. Til að svo geti orðið verður að taka launastefnu í þessum geira til gagngerrar endurskoðunar. Ég minni á að þetta er líka jafnréttismál því starfsfólk í öldrunarþjónustu er að langstærstum hluta konur og við getum ekki látið það viðgangast að stórum stéttum kvenna sé haldið niðri í launum.

Uppbygging öldrunarþjónustu þarf að byggjast á metnaði þannig að við sýnum í verki að við berum virðingu fyrir málaflokknum. Þannig bætum við aðstæður aldraðra og bætum jafnframt starfsumhverfi þeirra sem vinna í öldrunarþjónustu.

Sem betur fer höfum við enn á að skipa mörgu góðu fagfólki í öldrunarþjónustu með lengri eða skemmri menntun að baki eða mikla starfsreynslu. Það hafa verið settar á fót áhugaverðar námsleiðir fyrir starfsfólk í umönnunarstörfum og nefni ég þar sérstaklega nám félagsliða og einnig framhaldsnám fyrir sjúkraliða í öldrunarþjónustu. Það hefur hins vegar skort á að fólk sjái sér hag í að afla sér þessarar menntunar og einnig að þeir sem það gera skili sér til starfa á þessum vettvangi. Við þurfum að sýna í verki að við metum störf fólks í öldrunarþjónustu að verðleikum og við þurfum að skapa umhverfi sem hvetur fólk til náms, jafnt til að sækja sér faglegan styrk, aukna starfsánægju og betri kjör.

Við byggjum ekki upp öfluga öldrunarþjónustu án starfsfólks og það er staðreynd sem verður að taka alvarlega.

Verkefnin framundan eru því ærin og ég er full tilhlökkunar að takast þau á hendur. Ég vonast eftir góðu samstarfi við ykkar öflugu samtök og er bjartsýn á að saman takist okkur að bæta kjör og aðbúnað aldraðra á næstu misserum og árum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum