Hoppa yfir valmynd
16. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Þing Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra

Jóhanna ávarpar þing SjálfsbjargarGóðir gestir.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég fæ tækifæri til að ávarpa þing Sjálfsbjargar sem ráðherra, áður sem félagsmálaráðherra, nú sem félags- og tryggingamálaráðherra. Ég þakka gott boð um að segja hér nokkur orð því margt brennur mér á hjarta í málefnum fatlaðra. Það er líka góð viðbót fyrir ráðuneyti mitt að hafa frá áramótum tekið við ábyrgð á lífeyrishluta almannatryggingakerfisins því í mörgum málaflokkum og ekki síst í málefnum fatlaðra er það nánast nauðsyn til að geta unnið vel í þágu hópsins. Ég sé í þessu mörg tækifæri og hyggst nýta þau til að stuðla að úrbótum og nýjungum í málefnum fatlaðra.

Það var formaður Sjálfsbjargar sem bað mig um að ávarpa þingið og ræða um það helsta á döfinni í málefnum fatlaðra, einkum hreyfihamlaðra, því eins og hann orðaði það: „Væri auðvitað af nógu að taka hjá ráðuneytinu um þessar mundir í tengslum við þær breytingar sem eru í gangi varðandi málefni fatlaðra.“ Þetta má til sanns vegar færa. Það er af nógu að taka og ég hef sterka tilfinningu fyrir því að í samfélaginu sé meðvindur og frjór jarðvegur fyrir nýjar áherslur sem styðja raunverulega uppbyggingu samfélags fyrir alla.

Fatlaðir hafa svo sannarlega þurft að berjast fyrir réttindum sínum í gegnum tíðina. Þeir hafa mátt berjast gegn fordómum og fyrir sjálfsögðum mannréttindum eins og viðurkenningu fyrir réttinum til þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra. Sem betur fer hefur þessi barátta skilað miklu á liðnum árum og áratugum.

Alþjóðlegir sáttmálar og skuldbindingar gegna æ ríkara hlutverki í því að tryggja mannréttindi og ekki síður að stuðla að viðhorfsbreytingum og styðja við baráttu minnihlutahópa. Í árslok 2006 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna nýjan alþjóðasamning til að vernda og efla réttindi og virðingu einstaklinga með fötlun. Ég ætla ekki að rekja efni samningsins hér en þar eru talin öll helstu atriði sem eiga að tryggja fötluðum réttindi í samfélaginu til jafns við aðra og lýst þeim hindrunum sem víkja þarf úr vegi. Sáttmáli eins og þessi veitir stjórnvöldum mikilvægt aðhald, er þeim hvatning til að gera betur og leiðarvísir við mótun og framkvæmd stefnu, ekki aðeins í þeim atriðum sem teljast til málefna fatlaðra í þröngum skilningi, heldur í málefnum fatlaðra í þeim skilningi að samfélagið allt varðar fatlaða og málefni fatlaðra eru málefni samfélagsins alls.

Nú er á lokastigi gerð skýrslu með framkvæmdaáætlun um aðgang fatlaðra að samfélaginu, unnin í samvinnu sjö ráðuneyta og fulltrúa hagsmunasamtaka fatlaðra undir forystu félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Þar er tekið á öllum áherslum samnings Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og leiðum til að hrinda þeim í framkvæmd. Ég vonast til að geta kynnt þessa áætlun áður en langt um líður.

Af mörgum mikilvægum atriðum alþjóðasamningsins nefni ég sérstaklega skyldu ríkja til að breyta lögum og koma í veg fyrir hvers kyns venju eða framkvæmd er orsakar mismunun fatlaðra gagnvart öðrum hópum. Þetta tel ég nauðsynlegt að skoða sérstaklega og velti þar ekki síst fyrir mér sérlögum um málefni fatlaðra og réttmæti þeirra. Er mögulegt að með þeim leggjum við grundvöll að aðskilnaðarstefnu og mismunun og stöndum í vegi fyrir þátttöku fatlaðra í samfélaginu til jafns við aðra?

Markmið laganna eru skýr, það er að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Vel má vera að enn sé þörf fyrir sérlög til að vinna að þessum markmiðum og verði eitthvað áfram. Ég vonast þó til að í framtíðinni verði fötluðum sem öðrum tryggður þessi réttur jafnt í orði og verki með almennum lögum. Framtíðarsýn mín er sú að réttindi og þjónusta verði tryggð fólki í samræmi við einstaklingsbundnar þarfir en ekki á grundvelli tiltekinnar flokkunar og sérstakra laga um ákveðna hópa. Trúlega höfum við enn ekki náð svo langt að þetta sé mögulegt en að því hljótum við að stefna.

Ef við tölum um veruleikann sem við búum við í dag og sérstaka löggjöf um málefni fatlaðra þá verður hið minnsta að tryggja að lögin séu mótuð að þörfum fatlaðra en ekki að fatlaðir þurfi að laga sig að ramma laganna. Sérlögin mega heldur ekki verða til þess að hagsmunir fatlaðra séu fyrir borð bornir eða gleymist við almenna lagasetningu.

Fyrir þennan fund í dag las ég skýrslu Sjálfsbjargar fyrir starfstímabilið 2006–2008 og skoðaði einnig helstu stefnumál sem birt eru á heimasíðu landssambandsins. Ég verð að lýsa aðdáun minni á því hvað starfsemin er kraftmikil og vel skipulögð og hvað Sjálfsbjörg hefur skýra og mótaða sýn í einstökum málaflokkum. Það sýnir sig líka að landssambandið fylgist vel með þróun málefna fatlaðra í öðrum löndum og ekki skal undir höfuð leggjast að nefna stofnun félags um fötlunarrannsóknir sem er stórmerkilegur vettvangur fyrir faglega umræðu og leið til að miðla upplýsingum og innleiða nýjungar.

Öll sú vinna sem fram fer á vegum Sjálfsbjargar er ómetanleg, ekki aðeins fyrir fatlaða sjálfa heldur líka fyrir stjórnvöld og þá sem starfa að málaflokknum. Það eru ávallt notendur þjónustu sem þekkja hana best og vita gerst um eigin þarfir. Ég vil hlusta á sjónarmið notenda og vinna með þeim og þá skiptir miklu að áherslur þeirra séu settar fram á skýran máta. Það finnst mér svo sannarlega eiga við hér.

Frá áramótum hefur ráðuneyti mitt farið með lífeyrishluta almannatrygginga. Okkur hefur tekist að framkvæma fyrstu stóru áfangana sem kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þegar þær aðgerðir verða allar komnar til framkvæmda á þessu ári munu greiðslur almannatrygginga vegna lífeyristrygginga og félagslegrar aðstoðar hækka um 9 milljarða króna á ársgrundvelli eða um rúm 17% ef miðað er við síðasta ár.

Nefni ég þar afnám skerðingar bóta vegna tekna maka, hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna lífeyrisþega, sérstakar greiðslur til aldraðra sem ekkert eða lítið hafa úr lífeyrissjóðum og að frítekjumark er sett á fjármagnstekjur og greiðslur öryrkja úr lífeyrissjóðum. Frítekjumark á fjármagnstekjur er 90.000 krónur á ári sem þýðir að fyrstu 90.000 krónurnar sem fólk fær í fjármagnstekjur skerða ekki bætur lífeyrisþega. Setning frítekjumarks á lífeyrissjóðstekjur örorkulífeyrisþega tekur gildi 1. júlí.

Frítekjumarkið verður 300.000 krónur og hefur þau áhrif að lífeyrissjóðstekjur öryrkja að 300.000 krónum á ári munu ekki skerða tekjutryggingu eða heimilisuppbót örorkulífeyrisþega. Taka má dæmi af örorkulífeyrisþega sem býr einn og hefur eina milljón króna á ári í lífeyrissjóðstekjur. Við setningu frítekjumarksins munu bætur hans hækka um tæplega 23.500 krónur á mánuði milli mánaðanna desember 2007 og júlí 2008. Um helmingur allra örorkulífeyrisþega eða um 7.000 manns mun njóta frítekjumarksins í formi hærri bóta frá Tryggingastofnun.

Mikilvægur áfangi til að einfalda kerfið og gera það réttlátara er að um næstkomandi áramót verður afnumið það óréttláta fyrirkomulag sem nú er að viðbótarlífeyrissparnaði fólks sem skerðir bætur almannatrygginga og það svo harkalega að viðbótarlífeyrissparnaður getur bara af þeim sökum lækkað um næstum helming.

Öll þessi atriði tryggja betur mannréttindi lífeyrisþega og að samfélagið fái notið krafta þeirra. Framundan er vinna við að tryggja lágmarksviðmið í framfærslu lífeyrisþega sem liggja á fyrir 1. júlí næstkomandi sem taka á mið af lægstu launum í nýgerðum kjarasamningum.

Af einstökum málum vil ég nefna sérstaklega bifreiðamál hreyfihamlaðra sem ég veit að ykkur eru ofarlega í huga. Samkvæmt frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi munu bifreiðarstyrkir, svokallaðir hærri styrkir, flytjast til félags- og tryggingamálaráðuneytisins en uppbætur vegna kaupa á bifreiðum og vegna reksturs bifreiða, svokallaðir bensínstyrkir, heyra nú þegar undir það.

Þegar þessi mál verða komin að fullu til mín er ég staðráðin í því að endurskoða reglugerð um bifreiðamál hreyfihamlaðra og mun gera það í fullu samráði við Sjálfsbjörgu og Öryrkjabandalag Íslands. Ég veit að fjárhæðir uppbóta og styrkja hafa ekki hækkað í mörg ár og það þarf að endurskoða þann tíma sem líður milli úthlutana og mögulega stytta hann.

Ég er reiðubúin að ræða hvort rétt sé að útvíkka skilgreiningu á hugtakinu „hreyfihömlun“ og sömuleiðis að skoða mögulegar breytingar á skilyrðum fyrir styrk sem nú byggjast á því að viðkomandi eða annar heimilismaður hafi ökuréttindi, nokkuð sem getur komið sér illa til dæmis fyrir ungt fólk sem býr á sambýlum.

Svo má velta fyrir sér allt öðru fyrirkomulagi, til dæmis að binda greiðslur til hreyfihamlaðra einstaklinga ekki við ökutæki heldur tengja hann einstaklingum sem uppfylla tiltekin skilyrði. Þeim væri þá í sjálfsvald sett hvernig þeir nýttu sér þær greiðslur. Hér leyfi ég mér að hugsa upphátt og þætti gott að heyra ykkar sjónarmið.

Þessi hugmynd má kannski tengja hugmyndafræði um notendastýrða þjónustu sem rutt hefur sér til rúms hjá nágrannaþjóðum okkar og tilraunir eru hafnar með hér á landi. Þessi mál hafa töluvert verið skoðuð í félags- og tryggingamálaráðuneytinu í ljósi reynslu hinna Norðurlandaþjóðanna.

Mér finnst þetta áhugaverð leið til þess að efla og bæta þjónustu við fólk í heimahúsum og vil skoða möguleika á fleiri tilraunaverkefnum til að afla þekkingar og reynslu af þessu fyrirkomulagi og meta kosti þess og galla.

Enn eitt mál sem ég vil geta um sérstaklega er ákvörðun um stofnun sérstakrar þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda hér á landi sem ykkur er eflaust öllum kunnugt um. Miðstöðinni, sem mun heyra undir félags- og tryggingamálaráðuneytið, er ætlað að annast alla sérfræðiþjónustu við blinda, sjónskerta og daufblinda, sem og við aðstandendur þeirra, og aðra þá aðila sem starfa með eða styðja við hinn blinda eða sjónskerta. Sjónstöð Íslands verður lögð niður og flutt í heild sinni til þjónustumiðstöðvarinnar og Blindrabókasafninu verður breytt í Hljóðbókasafn.

Í ráðuneytinu er nú unnið að undirbúningi vegna nýrrar stofnunar, verið er að móta henni stefnu og starfsreglur og vinna að nauðsynlegum lagabreytingum en miðað er við að hún taki til starfa 1.janúar 2009.

Mörgu þarf að breyta og margt þarf að bæta. Starfsendurhæfing og leiðir til að tryggja fötluðum atvinnu við hæfi eru meðal verkefna sem ég vil leggja í mikinn kraft. Í stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar kemur fram að fylgt skuli eftir tillögum örorkumatsnefndar um stóraukna starfsendurhæfingu og nýtt matskerfi varðandi örorku og starfsgetu. Jafnframt verði komið til móts við þann hóp sem er með varanlega skerta starfsgetu. Stefnt verði að því að færa ábyrgð á lögbundinni þjónustu við aldraða og fatlaða frá ríki til sveitarfélaga.

Að öllum þessum málum er unnið í félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Ég hef ráðið til mín verkefnisstjóra til þess að byggja upp starfsendurhæfingu og tengja saman þá sem koma að þessum málum á einhvern hátt.

Ég vil að hvar sem fólk býr á landinu bjóðist kostir til starfsendurhæfingar og leiðir til að efla vinnugetu þeirra sem búa við örorku.

Áherslur nú snúast um að endurhæfing standi fólki til boða í þeirra eigin umhverfi og síðast en ekki síst að horft sé á getu fólks og styrkleika fremur en vangetu og veikleika. Þetta er ný og mannlegri sýn með miklu ríkari áherslu en áður á þarfir hvers og eins sem býr við skerta starfsgetu. Markmiðið er að virkja einstaklinginn sjálfan, hvetja hann og búa honum betri aðstæður til að hafa sjálfur áhrif á framvinduna. Þetta mun tvímælalaust breyta viðhorfum og bæta árangur þeirra sem búa við skerta starfsorku.

Ríki og aðilar vinnumarkaðarins eiga sameiginlega að koma upp starfsendurhæfingarneti sem vinnur sem ein heild og mér heyrist að fyrir því sé ágætur hljómgrunnur. Breytingar á almannatryggingakerfinu sem þegar hafa verið gerðar eða eru í bígerð eru einnig nauðsynlegar í tengslum við atvinnumál lífeyrisþega.

Það gengur ekki að skerðingarákvæði og víxlverkanir kerfa leiði til þess að fólk sem vill og getur unnið gerir það ekki af því að skerðingarákvæði gera ávinning þess að engu. Þess vegna legg ég mikið kapp á breytingar sem færa okkur út úr þessum fráleitu aðstæðum.

Nú liggur fyrir alþingi frumvarp um lagabreytingu þar sem lagt er til að á tímabilinu 1. júlí 2008 til 1. janúar 2009 geti öryrkjar valið um að hafa 100.000 króna frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar. Með þessu getur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar aflað atvinnutekna allt að 100.000 krónum á mánuði án þess að þær skerði tekjutryggingu. Hér er um mikla hækkun frítekjumarksins að ræða en í dag skerðist tekjutrygging vegna atvinnutekna umfram 327.000 krónur á ári eða um 27.000 krónur á mánuði. Þann 1. janúar 2009 er gert ráð fyrir að nýtt örorkumatskerfi hafi öðlast gildi og komi í stað þessa frítekjumarks. Ég bind vonir við að þessi hækkun frítekjumarks muni leiða til aukinna atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega og hafa þannig í för með sér hærri tekjur þeim til handa.

Á ráðstefnu sem nýlega var haldin um lífeyriskerfi framtíðarinnar kynnti ég í fyrsta sinn hugmynd að nýrri stofnun velferðar- og vinnumála þar sem sameinaðar væru Tryggingastofnun ríkisins og Vinnumálastofnun. Markmiðið væri að byggja upp eina velferðarstofnun þar sem allir þræðir sem eflt geta einstaklinga og tryggt framlag þeirra til samfélagsins yrðu fléttaðir saman á uppbyggilegan hátt, ásamt því að tryggja viðunandi lífeyri í samspili við lífeyrissjóðina. Sameining þessara grundvallarstoða velferðar í landinu mun aðeins fara fram með þátttöku og samráði stjórnenda og starfsfólks þeirra, enda er það fólkið sjálft sem býr yfir þekkingunni og reynslunni sem væri grundvöllurinn að slíkum breytingum.

Ég hef þegar sett á laggirnar vinnuhóp sem hefur það verkefni að kanna möguleika á uppbyggingu nýrrar velferðarstofnunar þar sem horft verður til framtíðar og meðal annars litið til þess sem best hefur verið gert í öðrum löndum á þessu sviði eins og til dæmis í Noregi.

Ég vil að undirbúningur að uppbyggingu slíkrar nýrrar og öflugrar velferðarstofnunar verði unninn samhliða þeirri vinnu sem þegar er á fullri ferð í verkefnisstjórn sem vinnur að einföldun almannatryggingakerfisins. Þetta er í grundvallaratriðum framtíðarsýn mín við endurreisn almannatryggingakerfisins.

Ég óska ykkur góðs þings og ég óska eftir góðu samstarfi við ykkur að þeim fjölmörgu málum sem framundan eru við endurbætur og frekari uppbyggingu á íslenska velferðarkerfinu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum