Hoppa yfir valmynd
28. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Útskrift Stóriðjuskólans

Forstjóri, góðir starfsmenn, nemendur og kennarar.

Mennt er máttur og í menntun felast tækifæri.

Stóriðjuskólinn stendur á tímamótum, en á þessu ári eru tíu ár frá því að hann var stofnaður. Að meðtöldum þeim sem útskrifast í dag hafa 183 nemendur lokið grunnnámi við skólann.

Í rekstri fyrirtækja skiptir miklu að stjórnendur hafi þann skilning og sýni í verki að hagsmunir starfsmanna eru hagsmunir fyrirtækisins. Þetta hefur Ísal sýnt með menntunarstefnu sinni og ber þar starfsemi Stóriðjuskólans hátt. Stofnað var til skólans af metnaði eins og sýndi sig best í því að hann hlaut Starfsmenntaverðlaunin árið 2000 sem veitt eru af Starfsmenntaráði og Mennt, eins hlaut námsefni skólans og námskrá viðurkenningu menntamálaráðuneytisins árið 2002 sem hluti af námsefni framhaldsskóla. Það hefur lengi verið þörf á því að breyta viðhorfum til starfsmenntunar og hefja hana til vegs og virðingar eins og efni standa til. Með Stóriðjuskólanum eru lögð lóð á þá vogarskál.

Ég sagði áðan að í menntun felist tækifæri. Fyrir starfsfólk sem lýkur námi felast tækifærin í framgangi í starfi með aukinni ábyrgð, áhugaverðari verkefnum og hærri launum. Fyrir vinnustaðinn felast tækifærin í færara starfsfólki sem eykur árangur og bætir vinnustaðinn. Betri vinnustaður eykur starfsánægju og starfsmannavelta verður minni en ella.

Hjá Ísal hefur náðst einstakur árangur í öryggismálum á vinnustað. Þungaiðnaður eins og hér fer fram krefst mikils í öryggismálum. Aðbúnaður, verkferlar og notkun öryggisbúnaðar skipta miklu en ekki síður að öryggisvitund starfsmanna sé rík og viðvarandi. Menntun og stöðug fræðsla er þar lykilatriði. Mér var sagt að fyrir tíu árum hafi vinnuslys verið hér svo algeng að vart hafi liðið slysalaus vika. Nú séu slys hins vegar svo fátíð að þau heyri til undantekninga. Þetta er ómetanlegt fyrir alla.

Mér er kunnugt um að nýlega var stofnuð Miðstöð Íslands um samfélagsábyrgð fyrirtækja undir heitinu Eþikos. Alcan er stofnaðili en markmið Eþikos er að auka þekkingu á samfélagsábyrgð fyrirtækja á Íslandi og efla getu fyrirtækja til að sýna ábyrgð gagnvart samfélaginu, umhverfi sínu og mannréttindum í daglegum rekstri. Með þessu sýna stjórnendur Ísal enn einu sinni að fyrirtækið vill axla ábyrgð, er annt um ímynd sína og hefur til að bera frumkvæði og framsýni sem er virðingarverð. Ég vil líka nefna sérstaklega áherslur Ísal í jafnréttismálum þar sem konur hafa sérstaklega verið hvattar til að sækja um störf, enda hefur hlutfall kvenna af starfsmönnum aukist jafnt og þétt á liðnum árum, úr 13 prósentum árið 2003 í 18 prósent á þessu ári. Vonandi mun þessi þróun halda áfram.

Ísal var fyrsta fyrirtækið hér á landi til að taka upp umhverfisstjórnun samkvæmt alþjóðlega ISO 14001 staðlinum. Fyrirtækið hefur hlotið umhverfisverðlaun umhverfisráðuneytisins en þau eru aðeins veitt þeim fyrirtækjum sem skara framúr í umhverfismálum. Ísal hefur sinnt umhverfismálum sínum einstaklega vel varðandi mengunarvarnabúnað, flokkun úrgangsefna, endurvinnslu, hreinsun frárennslis og svo mætti áfram telja. Þetta er gífurlega mikilvægt í rekstri á þessu sviði – og auðvitað í öllum rekstri.

Stóriðja er umdeild og svo mun örugglega verða áfram. Stóriðjufyrirtæki þurfa að sýna og sanna að þeim sé treystandi og gera sitt allra besta, hvort sem er á sviði umhverfismála, öryggismála, heilbrigðismála eða starfsmannamála. Þau þurfa að sýna og iðka samfélagsábyrgð. Það tel ég að Ísal geri og Stóriðjuskólinn er ein birtingarmynd þess.

Ég óska nemendum og öllum öðrum hér til hamingju með daginn og ég veit að Ísal mun standa áfram vörð um ímynd sína með ábyrgri stjórnun og góðum rekstri.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum