Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

17. mars 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Háskóladagurinn - 21. febrúar í Ráðhúsi Reykjavíkur

21. febrúar - Ráðhús Reykjavíkur

Kæru gestir.

Af öllum tíðum þykir mér mest til um framtíðina.

Það er ekki langt síðan ég stóð i sömu sporum og þið sem komið hingað í dag til að velta fyrir ykkur framtíðinni; eða eins og einu sinni var sagt: hvað þið ætlið að verða.

Hvað ætlar maður að verða? Ég held að viðhorfið til náms hafi breyst mikið. Ég held að við viðurkennum flest að öll ævin er stöðugt nám, stöðug áskorun; við verðum ekki heldur erum.

Á síðustu árum hefur mikið verið rætt um menntun sem fjárfestingu og starfsfólk sem mannauð. Í þessum orðum felst mjög ákveðið viðhorf til fólks og menntunar. Menntun er merkilegt fyrirbæri. Hún þjónar bæði manneskjunni og samfélaginu. Hún gerir hvort tveggja ríkari og þegar ég segi ríkari þá er ég ekki endilega að tala um peninga.

Það eru merkileg tímamót þegar maður velur sér nám. Margir eru spenntir. Aðrir fyllast kvíða, finnst erfitt að velja sér braut, finnst ákvörðunin vera afdrifarík, jafnvel endanleg. En fyrst og fremst er það gleðilegt að hafa val – og hafa úr mörgu að velja.

Og það er sannarlega úr mörgu að velja. Háskóladagurinn er frábært framtak. Það er mikils virði, ekki bara fyrir þá sem ætla að hefja háskólanám, heldur líka okkur hin sem höfum lokið því, að sjá alla þá grósku sem er í íslenskum háskólum; alla þá möguleika sem eru fyrir ungt fólk; alla þá fjölbreytni sem á í framtíðinni eftir að auðga líf okkar og samfélag.

Við lifum á merkilegum tímum. Sjötta október var okkur sagt að við stæðum á barmi þjóðargjaldþrots. Og vissulega eru erfiðir tímar. Verkefni okkar allra er að byggja upp að nýju.

Það er mjög mikilvægt að við byggjum upp fjölbreytt og lýðræðislegt samfélag. Fjölbreytt og góð menntun leikur þar stórt hlutverk. Í dag munu kvikna margar hugmyndir, sumar um íslenska háskóla, aðrar um einhvern þeirra norrænu háskóla sem kynntir eru í Norræna húsinu í dag.

Dagurinn í dag snýst um framtíðina. Hann snýst um ungt fólk sem tekur stefnu. Það að taka ákveðna stefnu, velja ákveðið fag, þýðir þó ekki að maður sé bundinn við það alla ævi. Það fylgir manni hins vegar alltaf og styður í hverju sem maður tekur sér fyrir hendur. Það er kannski erfitt að rökstyðja í fljótu bragði að sérþekking á glæpasögum gagnist í starfi menntamálaráðherra - en hún gerir það nú samt.

Til hamingju með daginn.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum