Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

05. október 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp mennta-og menningarmálaráðherra á Vísindavöku 25. september 2009

Vísindavaka -Listasafn Reykjavíkur Hafnarhúsinu

Ágætu gestir:
Það er mér sönn ánægja að vera hér í dag og ávarpa Vísindavöku sem er tileinkuð evrópskum vísindamönnum og haldin samtímis í helstu borgum Evrópu.
Markmiðið með Vísindavöku og atburðum henni tengdum er að færa vísindin nær almenningi, kynna manneskjurnar á bak við rannsóknirnar og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs fyrir samfélagið í heild. Jafnframt má segja að verkefnið sem slíkt sé nokkurs konar ímyndarherferð fyrir vísindi og vísindamenn og er öllum fræðigreinum gert jafnhátt undir höfði, hugvísindum jafnt sem raunvísindum. Vísindavökunni er ætlað að höfða til ólíkra þjóðfélagshópa.  Sérstök áhersla er lögð á að kynna heim vísinda fyrir börnum og unglingum eins og þið sjáið þegar þig gangið hér um sýninguna á eftir. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að í ár taka allir háskólar landsins þátt, auk fjölda fyrirtækja og stofnana, og er ánægjulegt að sjá hve mikinn metnað vísindamennirnir leggja í að kynna starf sitt fyrir gestum Vísindavökunnar.

Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á að styðja vísindi og rannsóknir,  enda liggur þar undirstaða framþróunar íslensks þjóðfélags.  Framlög hins opinbera til rannsókna og kennslu í háskólum hafa aukist mikið síðustu árin,  og þótt eitthvað dragist nú saman tímabundið vegna efnahagsástandsins,  vil ég minna á  að  framlög til opinberra samkeppnissjóða á sviði rannsókna og tækniþróunar munu haldast óbreytt. Samkeppnissjóðir hafa mikilvægu hlutverki að gegna í samfélaginu til að örva og ýta undir rannsóknir í landinu – því hef ég reynt að standa um þá vörð. 

Í þessu samhengi nefni ég Rannsóknasjóð sem styrkir grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir í háskólum, stofnunum og fyrirtækjum.   Rannsóknarnámssjóð sem veitir styrki til rannsóknartengds framhaldsnáms nemenda við háskóla. Nýsköpunarsjóður námsmanna hefur það hlutverk að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í háskólum til sumarvinnu í krefjandi rannsóknarverkefni.  Á  hverjum tíma eru  jafnframt reknar svokallaðar markáætlanir þar sem lögð er áhersla á að styrkja skilgreind fræða- eða vísindasvið um ákveðinn tíma.  Íslenskir vísindamenn taka líka virkan þátt í alþjóðlegu rannsóknastarfi á grundvelli samninga sem stjórnvöld eða stofnanir standa fyrir.
 
Mörg þau verkefna sem hér eru sýnd hafa fengið stuðning frá einhverjum þessara samkeppnissjóða, enda hafa þau verið valin á grundvelli strangs gæðamats. 

Lokaorð:
Til hamingju með daginn vísindamenn. Á Vísindavöku fáið þið tækifæri til að kynna rannsóknir ykkar og viðfangsefni fyrir almenningi og vil ég hvetja gesti til að taka sér tíma til að skoða það sem hér er í boði í kvöld.  Vísindavakan er stærsti viðburður sinnar tegundar og hér kennir ýmissa grasa.  Sjö háskólar kynna fræðasvið sín og ótrúlega metnaðarfull rannsóknaverkefni, allt frá Vísindavefnum góðkunna til merkra rannsókna á sviði hugvísinda og heilbrigðisvísinda, auk þess sem fremstu fyrirtæki og stofnanir landsins á sviði rannsókna og þróunar eru hingað komin til að gefa fólki innsýn í starf sitt. Ég vil að lokum þakka Rannís, sem sér um skipulag og framkvæmd Vísindavökunnar á Íslandi.

Hér með lýsi ég Vísindavöku 2009 setta.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum