Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

19. október 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra á svæðisþingi tónlistarskóla fyrir tónlistarskóla á Suðurlandi og Suðurnesjum 25. september 2009


Ágætu þinggestir

Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni með að haldin séu svæðisþing fyrir tónlistarskóla á sex stöðum um land allt í haust sem sýnir glöggt þá grósku sem er í starfsemi tónlistarskólanna. Mér skilst að skipuleggjendur séu ánægðir með hvernig til hefur tekist með svæðisþingin og það er mér mikil ánægja að fá að ávarpa eitt svæðisþinganna.

Á svæðisþingunum hefur verið farið yfir ýmis mikilvæg málefni tónlistarskóla, kynntar niðurstöður úr könnun á starfsemi tónlistarskólanna og fjallað um stöðu og framtíðarhlutverk Listaháskóla Íslands gagnvart kennurum og stjórnendum tónlistarskóla. Þá hafa drög að frumvarpi til laga um tónlistarskóla verið til umfjöllunar á þingunum og tel ég afar mikilvægt að samantekt af þeirri umræðu verði send til ráðuneytisins til skoðunar í tengslum við frekari vinnu við frumvarpið, en ég mun koma nánar að frumvarpinu hér á eftir.

Síðast en ekki síst hefur áhugaverð hugmynd að uppskeruhátíð tónlistarskóla verið kynnt á svæðisþingunum og mér skilst að tekin hafi verið ákvörðun um að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd. Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni með þessa hugmynd og hvet tónlistarskóla til að nýta sér þetta tækifæri til að kynna fjölbreytta starfsemi sína og afrakstur rækilega fyrir nærsamfélagi skólans og vona að uppskeruhátíð af þessu tagi nái að festast í sessi hér á landi á næstu árum. Það verður gaman að fylgjast með hvernig þessi uppskeruhátíð þróast.

Hér á landi fer fram metnaðarfullt skólastarf allt frá leikskóla til framhaldsskóla í samræmi við gildandi aðalnámskrár og víða er unnið að áhugaverðum sprotaverkefnum sem vakið hafa verðskuldaða athygli. Skapandi starf er t.d. í hávegum haft í leikskólum og víða er blómleg listmenntun í grunnskólum og í tengslum við félagsstarf nemenda, gjarnan í góðu og nánu samstarfi við tónlistarskóla og menningarstofnanir. Í framhaldsskólum er víða öflug listmenntun og félagsstarf á því sviði. Hins vegar er alltaf hægt að gera betur þótt ljóst sé að almenna skólakerfið eitt og sér getur ekki veitt nemendum alla nauðsynlega listmenntun, samstarf við listaskóla, menningarstofnanir og listamenn þarf að vera órjúfanlegur þáttur í listmenntun.

Nú er loks að ljúka heildarútgáfu á aðalnámskrá tónlistarskóla sem staðið hefur yfir mörg undanfarin ár. Fyrst kom almenni hluti aðalnámskrár tónlistarskóla út árið 2000 og greinanámskrár hver af annarri í kjölfarið. Nú síðast hefur aðalnámskrá tónlistarskóla, rytmísk tónlist sem er síðasti greinarhluti aðalnámskrár tónlistarskóla verið í vinnslu. Kristín Stefánsdóttir og Sigurður Flosason stýrðu verkinu fyrir menntamálaráðuneytið eins og öðrum fyrri aðalnámskrám og fengu með sér ýmsa tónlistarmenn, s.s. Agnar Má Magnússon, Hilmar Jensson, Róbert Þórhallsson, Matthías Hemstock, Kristjönu Stefánsdóttur, Ólaf Jónsson og Óskar Einarsson. Námskrárdrögin hafa undanfarið verið til kynningar á námskrárvefsvæði ráðuneytisins og hefur hagsmunaaðilum og almenningi gefist kostur á að senda athugasemdir og ábendingar um námskrána. Mjög fáar athugasemdir bárust og á næstunni mun ráðuneytið staðfesta námskrána og senda auglýsingu um gildistöku hennar til birtingar í Stjórnartíðindum. Námskráin verður að því loknu eingöngu birt á námskrárvef ráðuneytisins í samræmi við verklag ráðuneytisins um birtingu aðalnámskráa. Vil ég nota tækifærið og þakka öllum sem komið hafa að útgáfu aðalnámskrár tónlistarskóla á undanförnum árum.

Árið 2006 gaf UNESCO út niðurstöður frá heimsráðstefnu um listmenntun undir heitinu Vegvísir fyrir listfræðslu (Roadmap for Arts Education). Árið 2006 voru einnig birtar niðurstöður úttektar á listmenntun í 60 löndum sem Anne Bamford var fengin til að stýra fyrir hönd UNESCO og fleiri aðila en Anne er forstöðumaður The engine Room, Wimbledon School of Art í London. Heiti bókarinnar er The Wow Factor: Global research compendium on the impact of the arts in education og fjallar hún bæði um menntun í listgreinum og einnig um menntun með hjálp lista. Í kjölfarið á útkomu bókarinnar hafa ýmis lönd, þ.á m. Holland, Belgía og Danmörk, fengið Anne til að taka út listmenntun í þessum löndum.

Vorið 2008 ákvað menntamálaráðuneytið að láta fara fram heildarúttekt á listgreinakennslu í íslenskum skólum, bæði almennum skólum og sérskólum sem kenna listgreinar. Úttektin var gerð veturinn 2008 – 2009. Ráðuneytið fékk Anne Bamford til að gera úttektina og drög að skýrslunni hafa nú borist ráðuneytinu . Skýrslan kemur út í næsta mánuði og verður hún þýdd á íslensku og kynnt sérstaklega. Einnig er rétt að greina frá því að prófessor Anne Bamford verður aðalfyrirlesari á stórri alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin verður hér í byrjun desember, Innovation and Creativity in the hands of the young, á vegum menntamálaráðuneytisins, norrænu ráðherranefndarinnar og Evrópusambandsins.

Tilgangurinn með rannsókn AnneBamford var að safna saman ýtarlegum upplýsingum um gæði list- og menningarkennslu í íslenskum skólum sem m.a. væri hægt að nýta þegar að því kæmi að semja nýjar aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og tónlistarskóla. Rannsóknin gekk út frá eftirfarandi spurningum:

Hvað er gert í listgreinakennslu og hvernig er það gert?

Hver eru gæði listgreinakennslu á Íslandi?

Hverjir eru möguleikarnir og hver er ögrunin núna og í framtíðinni?

Skýrslan er happafengur og í henni er mikinn fróðleik að finna. Það er ýmislegt í henni sem kemur á óvart og kallar fram fleiri spurningar eins og góð verk gera gjarnan. En erfiðasti bitinn er eftir. Hvernig ætlum við að nýta okkur þá vitneskju sem þar kemur fram? Til þess þarf ég liðsinni ykkar og annarra listgreinakennara og skólafólks almennt.

Höfundur skýrslunnar kemst að þeirri niðurstöðu að listgreinakennsla á Íslandi sé á mjög háu stigi og gengur meira að segja svo langt að segja að hún sé víða á heimsmælikvarða. Kennarar séu vel menntaðir og almennt séu næg efni til þess að halda uppi mikilli og góðri kennslu í listgreinum. Hún minnist ekki síst á tónlistarkennslu og tónlistarkennara í því sambandi. Ég vil segja ykkur þetta strax. Anne Bamford hrósar viðmælendum sínum fyrir hvað vel var tekið á móti henni og hversu gott henni þótti að vinna með því fólki sem hún átti viðtöl við.

Ekki er hægt annað en að gleðjast yfir úttektinni en höfundurinn bendir líka á margt sem betur mætti fara og þörf er að ræða. Og til þess var leikurinn gerður að ræða og bæta. Mig langar að segja ykkur frá nokkrum atriðum sem vöktu athygli mína og ætla að gera tvennt að umræðuefni hér, tónlistarkennsluna og kennaramenntunina.

Víkjum fyrst að kennaramenntuninni.

Höfundur skýrslunnar leggur mikla áherslu á að gera þurfi greinarmun á menntun í listum og menntun í gegnum listir, education in the arts og through the arts. Skólar þurfi að beina sjónum að menntun í listum og listrænum og skapandi leiðum í öðrum greinum. Leggja þurfi meiri áherslu í skólakerfinu að því að vinna með sköpun, skólar þurfi bæði að bjóða upp á góða kennslu í listgreinum en líka að sköpun í öðrum greinum. Íslenskir nemendur séu flinkir og öruggir þegar kemur að því að vinna að list sinni en þeir séu ekki eins öruggir að segja frá, lýsa því sem þeir eru að gera og koma fram. En þetta á ekki bara við um listgreinakennslu hér á landi þetta á við um fleiri greinar. Það er talað um tjáningu í íslensku og erlendum tungumálum sem virðist oft vera látin sitja á hakanum.
Anne Bamford heldur því fram að skilgreining á listum sé fremur þröng í skólastarfi, hún sé miklu víðari úti í þjóðfélaginu. Hún bendir á nauðsyn skapandi skólastarfs og að beita skapandi auga í ýmsum greinum, ekki bara listgreinum. Láta ekki sérstaka listaskóla eina um slíkt. Hún minnist á að rannsóknir skorti mjög í listgreinum, m.a. tónlist, og að lítið samstarf virðist milli kennaramenntunarstofnana og Listaháskólans. Mikil þörf sé á rannsóknum í tónlist, rannsaka þurfi til dæmis áhrif hóp- og einstaklingskennslu bæði í hljóðfærakennslu og söng og gæði menntunar í þessum greinum. En ég ætla ekki að fara lengra út í þá sálma hér.

En hvað segir höfundur um tónlistina?

Menntun í tónlistarskólum er mjög góð að mati höfundar, flinkir kennarar og kennsla í háum gæðaflokki en einblínt sé um of á klassíska tónlist, eða hefðbundna eins og höfundur orðar það, samkvæmt evrópskri hefð. Námskráin byggi einnig á þeirri hefð. Djassi og popptónlist sé ekki gefinn mikill gaumur þótt vissulega sé ný aðalnámskrá í rytmískri tónlist spor í rétta átt. En þrátt fyrir þetta sé mikill meiri hluti þeirrar tónlistar sem gefinn er út á Íslandi popp eða rokk. Þetta kemur engum á óvart en er áhugavert að íhuga í þessu samhengi.

Anne bendir á að þótt halda megi því fram að góður grunnur í hefðbundinni tónlist leiði til nýjunga og betri lagasmíð í popp- og rokk tónlist sé fátt sem staðfesti það enda takmarkaðar rannsóknir til. Þó er það svo að ein vinsælasta hljómsveit landsins um þessar mundir er samansett af ágætlega menntuðu tónlistarfólki. Hvers vegna er það?

Er það kannske vegna þess að þau kunna vel til verka og kunna að nýta sér þann grunn sem þau hafa fengið til að byggja ofan á? Ef til vill mætti líka spyrja er ekki menntun alltaf til góðs? Getur það ekki farið saman að mennta fólk, kenna því hefðbundnar aðferðir og velja sér efni, gefa því frjálsar hendur? Hvenær má sleppa? Af hverju er gítarinn svona vinsæll, gæti það verið vegna fyrirmyndanna, vegna verðsins á hljóðfærinu eða lagavalsins? Getur verið að þetta eigi eftir að breytast með tilkomu ungra listamanna eins og Víkings Heiðars og Elfu Rúnar sem bæði leika á svokölluð hefðbundin hljóðfæri? Og geta þar að auki ýmislegt annað svo sem að spila fótbolta? Ég velti því fyrir mér. En þetta umræðuefni eruð þið betur í stakk búin til að ræða. Hitt veit ég að um þetta eru skiptar skoðanir.

Anne leggur mikla áherslu á að nauðsynlegt sé að tónlistarskólar og almennir skólar vinni nánar saman og það yrði öllum til góðs. Og tónlistarskólar vinni með almennum skólum í hverfinu. Líka er minnst á að lítið samstarf sé á milli tónlistarskóla almennt. Væri ef til vill akkur í því að fá skóla sem ekki einskorðast við myndlist eða tónlist heldur kenndi ýmsar greinar? Anne hefur orð á því að tónlist, myndlist og handmennt sé skipaður hærri sess en t. d. dansi og leiklist. Langar okkur að sjá slíka skóla, skóla þar sem allar listgreinar geta þrifist, listaskóla fyrir börn og unglinga? Er það gerlegt? Viljum við það?

Höfundur talar líka um tónlistarkennslu í almennum skólum, bæði grunn- og framhaldsskólum, og að hennar mati er vegur tónlistar þar oft rýr, einkum á eldri stigum og úti á landi. Hún nefnir skort á kennurum í því sambandi og ekki efa ég að það sé hluti máls. En hefur tónlistarkennslu kannski verið of lítill gaumur gefinn í þessum skólum? Af hverju? Af hverju er svona erfitt að fá kennara í tónlist, það virðist oft erfiðara en í myndlist svo dæmi sé tekið? Á Reykjavíkursvæðinu eru skólar með rótgróna myndlistarkennslu en hafa ekki haft tónmenntakennslu svo árum skiptir?

Getur það verið að grunn- og framhaldsskólar hafi um of treyst á að tónlistarskólar tækju það hlutverk að sér að mennta ungt fólk í tónlist? Og menntakerfið líka? Meira samstarf milli tónlistarskóla og almennra skóla yrði mikill styrkur fyrir grunnskóla. Gæti það ekki verið styrkur fyrir tónlistarskólana líka? Þarf ekki að hvetja skólana til að vinna meira saman? Geta almennir skólar fengið tónlistarkennara lánaða úr tónlistarskólunum með samstarfssamningum? Getur verið að tónlistarkennarar séu of ragir við að fara inn í almenna skóla? Og almennar stórar bekkjardeildir? Af hverju? Er ekki listmenntun alltaf styrkur og fyrir alla? Eða hvað? Viljum við kannski elítukerfi í tónlist?

Eitt er það atriði sem Anne Bamford bendir sérstaklega á og það er að tónlistarskólar sinni ekki nóg þörfum barna með sérþarfir. Það séu afar fáir listaskólar yfirleitt sem sinni þörfum þessara barna. Ég treysti því að tónlistarskólar taki þá athugasemd alvarlega og reyni að sinna öllum börnum eftir mætti enda er réttur nemenda með sérþarfir á að fá slíka menntun ótvíræður.

Góðir áheyrendur

Frá því að ég tók við embætti menntamálaráðherra síðastliðið vor hefur mér verið umhugað að leita lausna á þeim vanda sem skapast hefur í kjölfar ákvörðunar Reykjavíkurborgar um að frá hausti 2004 yrði eingöngu greiddur kennslukostnaður í tónlistarskólum fyrir þá nemendur sem ættu lögheimili í Reykjavík. Hefur þetta haft í för með sér óvissu og veruleg fjárútlát fyrir tónlistarnema sem stunda tónlistarnám utan lögheimilissveitarfélags. Í ráðuneytinu liggja fyrir drög að frumvarpi að heildarlögum um tónlistarskóla, sem eru m.a. byggð á tillögum nefndar sem fyrrv. menntamálaráðherra skipaði til að endurskoða lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla nr. 75/1985 og hafa þau verið til umfjöllunar á öllum svæðisþingum tónlistarskóla í haust og er það vel.

Ljóst er að vanda framangreindra nemenda verður ekki mætt öðruvísi en að ríkið taki með einhverjum hætti þátt í kennslukostnaði nemenda í tónlistarskólum. Tvær leiðir hafa verið til umræðu í því sambandi:
að ríkið greiði kennslukostnað vegna nemenda sem eru í framhaldsnámi í tónlist samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla óháð aldri þeirra og hvort þeir stunda samhliða nám í framhaldsskóla, þ.e. að fjárhagslegur stuðningur við tónlistarkennslu skiptist þá eftir námsstigi í tónlist,
að ríkið greiði kennslukostnað vegna nemenda sem náð hafa 16 ára aldri og eldri, þ.e. að fjárhagslegur stuðningur við tónlistarkennslu skiptist með sama hætti og í almenna skólakerfinu, þ.e. að sveitarfélög bera ábyrgð á rekstri leik- og grunnskóla en ríkið framhaldsskóla.

Í viðræðum ráðuneytisins við Samband íslenskra sveitarfélaga hafa samtökin lagt á það áherslu að leið b) verði farin, þ.e. að ríkið greiði fyrir tónlistarkennslu 16 ára og eldri en af hálfu ráðuneytisins hefur verið lagt til að stuðningur ríkisins miðist við framhaldsstigið. Lauslegt mat á kostnaðaráhrifum beggja leiða liggur nú fyrir í ráðuneytinu.

Ég mun nú á næstu vikum kynna niðurstöður kostnaðarmatsins í ríkisstjórn og afla heimildar fyrir því að unnið verði að því að breyta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga varðandi fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Að undangengnu samkomulagi um breytingar á verkaskiptingu og fyrirkomulagi tónlistarfræðslu á milli ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga hef ég í hyggju að leggja fram á Alþingi nýtt frumvarp til laga um tónlistarskóla/tónlistarfræðslu.

Það er von mín að með nýrri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og í kjölfarið nýjum lögum um tónlistarskóla verði jafnræðis gætt milli nemenda með því að nemendur njóti opinberrar fyrirgreiðslu óháð því hvort þeir stunda nám í framhaldsskóla og óháð því hvar þeir eiga skráð lögheimili.

Með þessu móti vonast ég til þess að leysa megi þann hnút sem verið hefur á milli ríkis og sveitarfélaga á undanförnum árum á sviði tónlistarfræðslu. Ég vænti góðrar samvinnu allra aðila til að ná fram skýrari lagaramma um starfsemi tónlistarskólanna.

Ég vil sjá vægi listgreina aukið til muna við gerð nýrrar aðalnámskrár fyrir öll skólastig. Ég bið um liðsinni ykkar við þá vinnu. Ég vænti þess að við getum nýtt okkur efni nýrrar skýrslu Anne Bamford til þess og hún verði okkur gott veganesti. En fyrst og síðast er hún umræðuplagg ætluð öllu fólki sem áhuga hefur á listmenntun og skólamálum. Skýrslan á að verða okkur hvati við mótun framtíðarstefnu í listgreinum. Ég vona að efni hennar geti orðið okkur leiðarljós í umræðu um listgreinakennslu á Íslandi en ljóst er að mýmörg atvinnutækifæri skapast á 21. öldinni í tengslum við skapandi starf og ætti að vera ein stoðin í efnahagslegri framtíð og endurreisn Íslands og íslensks efnahagslífs.

Þakka ykkur fyrir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum